Hæstiréttur staðfesti í liðinni viku dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli athafnaskáldsins Róberts Wessman gegn Bjarna Ólafssyni, ritstjóra Viðskiptablaðsins. Héraðsdómur hafði hinn 26. janúar síðastliðinn sýknað Bjarna af kröfum Róberts um ómerkingu ummæla í umfjöllun blaðsins hinn 28. ágúst 2014 og að ritstjórinn yrði dæmdur til refsingar og til greiðslu miskabóta.

Ummæli snerust um að Róbert hefði verið sakaður um að hafa dregið sér fé frá Actavis Group hf. og frá því var greint hér á síðum Viðskiptablaðsins. Bjarni reisti vörn sína á því að ummælin væru rétt enda um að ræða tilvitnun í stefnu og kæru Björgólfs Thors Björgólfssonar á hendur Róberti.

Á þau sjónarmið féllust bæði héraðsdómur og Hæstiréttur, en röksemdir stefnanda að engu hafðar. Róbert var svo dæmdur til þess að greiða Bjarna 2,5 millj­ónir króna í málskostnað samtals fyrir héraði og Hæstarétti. Ekki var það ofrausn.

***

Þetta er ótrúlega vel sloppið hjá Róberti. Það þarf nefnilega hvorki að kynna sér málið í þaula né hafa lögfræðimenntun til þess að átta sig á því að málshöfð­unin var fráleit og tilhæfulaus með öllu. Þar stóð ekki steinn yfir steini og útilokað að dómstóll yrði við kröfum hans.

***

Raunar er með nokkrum ólíkindum að Jóhannes Bjarni Björnsson hrl. hafi farið fyrir dómstóla með svo þunnan graut. Tilefnið og málatilbúnaðurinn voru svo fáfengileg, að þrátt fyrir að hann sé enginn sérfræðingur í meiðyrðamálum hlýtur hann að hafa ráðlagt skjólstæðingi sínum að láta vera að stefna.

Þá vaknar hins vegar spurningin, hvers vegna Róbert fór út í þessi glórulausu málaferli og hélt þeim til streitu eftir mjög afdráttarlausan dóm í héraði.

Það er í raun ekki hægt að komast að nema einni niðurstöðu um það: Wessman gerði sér það að leik að stefna ritstjóra Viðskiptablaðsins vegna þess að hann getur það án þess að hætta neinu sérstöku til. Sé Róbert jafnauðugur og hann gumar af er tilkostnað­urinn hverfandi og hann hefur sjálfur engum tíma þurft að verja í málið.

Ritstjórinn þurfti hins vegar að eyða í það verulegum tíma, hafði af því margvíslegan ama og ómak, en af málsvörninni hlaust verulegur kostnaður, töluvert umfram hinn dæmda málskostnað, sem Róbert var dæmdur til þess að borga.

Þannig nær auðkýfingurinn að koma fram hefndum fyrir hinar ímynduðu misgjörðir og dómstólarnir láta alveg eiga sig að kúska manninn eða lögfræðing hans fyrir að eyða tíma og fjármunum réttvísinnar og hins stefnda.

Hvað þá að tillit sé tekið til að­ stöðumunarins. Fyrir Róbert eru nokkrar milljónir aðeins vaxtatekjur eins dags, sem skiptir hann sáralitlu, en fyrir lítinn fjölmiðil getur slík upphæð hæglega skilið milli hagnaðar og taps.

***

Tilgangurinn eða a.m.k. árangurinn af þessari ömurðaræfingu Róberts er vitaskuld sá að fæla fjölmiðla frá því að fjalla um sig nema í helgisagnastíl. Í því samhengi er rétt að rifja upp ummæli Jóhannesar Bjarna af öðru, en ekki óskyldu tilefni:

Þetta gera þeir sem eiga peninga. Þeir reyna að hræða fólk með því að beita áhrifum sínum og hótunum um að fara gegn því með háar fjárkröfur sem enginn fótur er fyrir.

Þetta er mergurinn málsins. Næst og tilefni er til þess að fjölmiðlar greini frá einhverju ólögmætu, ósiðlegu, ámælisverðu eða aðeins gagnrýnisverðu, sem varðað getur Róbert Wessman, þá þurfa blaðamenn, ritstjórar og útgefendur ekki aðeins að gæta þess að fréttin sé rétt, sanngjörn og eðlileg. Þeir þurfa nefnilega líka að spyrja sig hvort þeir nenni að þurfa að þvælast með málið fyrir réttarkerfinu mánuðum saman og bera af því verulegan kostnað, alsaklausir.

***

Þessar málalyktir þjóna því ekki tjáningarfrelsinu, lýðræðislegu hlutverki fjölmiðla eða traustri upplýsingu almennings um mikilsverð málefni.

Sums staðar erlendis hafa dómsstólar reynt að bregðast við samskonar misnotkun á dómskerfinu. Til dæmis með því að fella himinháar refsibætur á auðmenn, svo þeir finni fyrir því, en einnig eru dæmi um að stefnendur hafi verið dæmdir nokkra daga í tugtið fyrir að sýna réttinum óvirðingu með tilefnislausri meinfýsismálshöfðun.

Það þyrfti svipaða réttarbót hér. Það er skammarlegt og óþolandi að auðmaður komist upp með að misnota réttarkerfið með þessum hætti í þeim tilgangi að hræða blaðamenn og mýla fjölmiða.

Pistill Andrésar birtist í Viðskiptablaðinu 17. desember 2015. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .