*

mánudagur, 22. apríl 2019
Leiðari
4. maí 2017 13:17

Hreppapólitíkin blindar ráðamenn

Það er of mikið í húfi til þess að leyfa stjórnlausan vöxt laxeldis á Íslandi.

Haraldur Guðjónsson

Umræða um laxeldi hefur sem betur fer aukist töluvert undanfarnar vikur. Sem betur fer því hér er á ferðinni gríðarlega mikilvægt umhverfismál. Með því að flytja inn ógeldan norskan lax er verið að stofna villta íslenska laxastofninum í bráða hættu. Það er ekki spurning hvort það verða slys í sjókvíum í fjörðum landsins heldur hvenær og þegar það gerist mun norski laxinn blandast þeim íslenska. Ólíkt því sem margir virðast halda þá hefur sá norski sporð og getur synt hvert sem hann vill. Ef laxeldi verður til að mynda í Eyjafirði þá er örstutt fyrir þann norska upp í eina helstu laxveiðiá landsins, Laxá í Aðaldal.

Viðskiptablaðið hefur fjallað þónokkuð um laxeldi undanfarin misseri og fyrir ári birti blaðið til að mynda úttekt þar sem farið var yfir stöðuna. Þá var meðal annars varpað fram þeirri spurningu hvort með útgáfu leyfa væri hið opinbera, vonandi ómeðvitað, að búa til nýtt kvótakerfi. Sú spurning á eiginlega meira við nú en fyrir ári því laxeldisfyrirtæki hafa keppst um að sækja um leyfi og þannig reynt að eigna sér heilu firðina, þar sem heimilt er að vera með sjókvíaeldi. Það er ekki furða að menn sækist í þetta því það kostar nánast ekkert að fá leyfi og gulrótin er sú að áframselja það síðan til erlendra aðila og þá sérstaklega Norðmanna. Af hverju Norðmanna? Jú, vegna þess að í Noregi er í raun komið þak á laxeldi því það kostar formúu að fá slíkt leyfi þar í dag.

Síðastliðið haust greindi Viðskiptablaðið einnig ítarlega frá málshöfðun veiðiréttareigenda gegn Arnarlaxi, þar sem ein röksemdin er sú að með því að veita einkaaðilum afnot af hafsvæði utan netlaga sé verið að brjóta stjórnarskrána. Samkvæmt stjórnarskránni þarf lagaheimild til að ráðstafa fasteignaréttindum og telja veiðiréttareigendur að þetta nái einnig yfir þessi hafsvæði – þau séu auðlind í eigu þjóðarinnar.

Það er sorglegt að laxeldismálin séu komin í þann farveg að fara þurfi með slík mál fyrir dómstóla. Það virðist aftur á móti vera eina leiðin því þeir sem bera hag villta íslenska laxastofnsins fyrir brjósti, hafa alls staðar komið að lokuðum dyrum þegar þeir hafa leitað til stjórnsýslunnar. Ráðamenn virðast ekki átta sig á mikilvægi þessara mála eða þá að hreppapólitíkin blindar þá gjörsamlega og þá sérstaklega loforð um fáein láglaunastörf í litlum bæjum úti á landsbyggðinni. Það þykir greinilega í lagi að fórna íslenska laxastofninum fyrir þessi störf.

Ráðamenn í þessu landi þurfa að staldra við og gera sitt til að hægja á þeirri þróun sem nú er í gangi. Það á að skikka laxeldisfyrirtæki til að nota geldan lax ellegar hafa þann ógelda í kvíum uppi á landi. Það er of mikið í húfi til þess að leyfa stjórnlausan vöxt laxeldis á Íslandi. Eitthvað myndi nú heyrast ef menn myndu ákveða að flytja hingað erlend hross svo ég tali nú ekki um norska fósturvísa til að ala upp nýjan kúastofn. Íslenski laxinn er ekkert öðruvísi. Hann er bara í ánni og sést ekki á beitarlandinu frá þjóðveginum.

Stikkorð: Laxeldi leiðari hreppapólitík
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim