*

föstudagur, 22. september 2017
Týr
20. maí 2012 13:10

Hreyfing á sökkvandi skipi

Þingmenn Hreyfingarinnar eru allir vinstri sinnaðir þótt þeir kunni að halda öðru fram og eiga því samleið með ríkisstjórninni.

Haraldur Jónasson

Það kom Tý lítið á óvart að Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir og Margrét Tryggvadóttir, sem saman mynda þingflokk Hreyfingarinnar, skyldu í upphafi vikunnar lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórnina. Viðskiptablaðið greindi frá því um miðjan janúar sl. að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hefðu gengið frá samkomulagi við Hreyfinguna um gagnkvæman stuðning.

***

Eins og fram kom í frétt Viðskiptablaðsins var samkomulagið í stuttu máli þannig að hvergi yrði hvikað í málinu gegn Geir Hilmari Haarde og tillögur stjórnlagaráðs um að gera stjórnarskrá landsins minna virði en upphaflega handritið að Kexverksmiðjunni fengju afgreiðslu í þinginu. Í staðinn myndu þingmenn Hreyfingarinnar hjálpa ríkisstjórninni, sem hefur ekki meirihluta í þinginu, að koma sínum erfiðustu málum í gegn.

***

Allt gekk þetta eftir. Jóhanna Sigurðardóttir hafði að vísu áður sagt að hún væri á móti því að ákæra Geir Hilmar, en þegar hún fékk síðan tækifæri í mars sl. til að stöðva málið nýtti hún það ekki. Allt tal Jóhönnu um að hún væri á móti því að draga pólitíska andstæðinga (og í þessu tilfelli fyrrum samherja) fyrir dóm var því markleysa. Annað hvort var hún að segja ósatt eða þá að hún var búin að binda hendur sínar í samningum við Hreyfinguna. Líklega hvort tveggja.

***

En af hverju taka þingmenn Hreyfingarinnar nú upp á því að stíga um borð í sökkvandi skip þeirra Jóhönnu og Steingríms? Týr veit svörin við því eins og svo mörgu öðru.

***

Fyrir utan fyrrgreint samkomulag sem handsalað var um áramót þá eru þingmenn Hreyfingarinnar allir vinstri sinnaðir, þó þeir kunni að halda öðru fram. Þeir telja sig því eiga pólitíska samleið með vinstri flokkunum og geta ekkert hugsað sér verra en að Framsókn eða Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur til valda.

***

Í öðru lagi þá er ást þremenninganna á lýðræðinu ekki meiri en svo að þau gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að forðast kosningar. Þau telja sig einu réttmætu „fulltrúa þjóðarinnar“ á þingi og ætla ekki að taka sénsinn á því að þjóðin sendi þau heim aftur eins og allar kannanir gefa til kynna.

***

Hreyfingin á því marga sameiginlega hagsmuni með ríkisstjórninni. En þó að Týr sé nær því alvitur áttar hann sig ekki á því hvort er vandræðalegra, að þau Jóhanna og Steingrímur skuli treysta þremenningunum fyrir pólitísku lífi sínu næsta árið eða að Hreyfingin sé komin í rammgirta hagsmunagæslu fyrir ríkisstjórnina þvert á öll loforð um annað.

Stikkorð: Hreyfingin
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.