Væntingar markaðsaðila um verðbólgu eftir 12 mánuði hafa farið vaxandi síðan á öðrum fjórðungi síðasta árs samkvæmt könnun Seðlabanka Íslands. Niðurstöður síðustu könnunar byggja á svörum 21 aðila og voru birtar 23. ágúst síðastliðinn. Þeir vænta nú 3% verðbólgu eftir ár samanborið við að á öðrum fjórðungi 2017 gerðu þeir ráð fyrir að verðbólga yrði um 2,2% á miðju þessu ári.

Myndin sýnir að væntingar um aukna verðbólgu virðast ekki hafa miðlast undanfarið yfir í væntingar um veðlánavexti Seðlabankans. Síðastliðna fimm ársfjórðunga hafa markaðsaðilar spáð óbreyttum vöxtum til eins árs í 5% þrátt fyrir að endurskoða verðbólguvæntingar sínar upp á við um 0,6 prósentustig.

Ef notast er við upplýsingar frá Íbúðalánasjóði og Lánamálum ríkisins kemur í ljós að þá 27 ársfjórðunga frá 2012 til júlí 2018 eru hreyfingar verðbréfasjóða einna sennilegastar til að fylgja niðurstöðum könnunarinnar. Þannig seldu sjóðirnir í 33% tilvika verðtryggð bréf þegar væntingar voru um minni verðbólgu. Þetta kemur lesanda ekki á óvart þar sem verðbólguvæntingar hafa verið á niðurleið mest af tímabilinu líkt og myndin sýnir. Í liðlega 15% tilvika juku þeir við sig í verðtryggðu þegar aukning var í væntri verðbólgu.

Skýrast er mynstrið í verðtryggða flokknum RIKS 21 0414 þar sem sjóðirnir juku við sig í 25% tilvika þegar könnunin gaf til kynna hærra verðlag. Fjárfestu þeir þá að jafnaði fyrir um 1 milljarð króna að nafnvirði í hverjum fjórðungi. Í helmingi tilfella seldu þeir við væntingar um minni verðbólgu og að jafnaði fyrir um 1,5 milljarða króna.

Eign lífeyrissjóðanna í ríkistryggðum bréfum er nú tæplega 60% af heildarútgáfu en þeir virðast sýna könnun Seðlabankans minni áhuga. Það má merkja á að í flestum þeim tilfellum sem þeir minnkuðu við sig í verðtryggðum bréfum á umræddu tímabili var þegar afborganir voru af íbúðabréfum. Þeim er þó vorkunn sýnd við kaup þar sem uppgjörsregla aftrar þeim að fjárfesta mikið í flokkum sem hafa lægri raunkröfu en 3,5%.

Lesandi þekkir að þessar upplýsingar gefa til kynna hvaða fjárfestar eru líklegastir til að hliðra vaxtaferli ríkistryggðra bréfa sem og hvar líklegast er að flæðið sé hverju sinni og þá þóknanir. Sömuleiðis er almenn vitneskja að í október er um 16 milljarða króna gjaldagi á RIKH 18 1009 og 53 milljarða á RIKB 19 0226 í febrúar. Sá síðarnefndi er um 22% í eigu verðbréfasjóða.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.