Hér var í liðinni viku m.a. vikið að skoðanapistlum í fjölmiðlum og ábyrgð þeirra á efni þeirra, beinni sem óbeinni. Annað dæmi sást í vikunni um það hvernig fjölmiðlar þurfa að gefa því gaum hvað í þeim birtist, jafnvel þó þar sé skrifað undir nafni.

Síðastliðinn laugardag birtist pistill Náttfara á vef Hringbrautar, sem jafnframt birtist á vef Eyjunnar. Um efnið þurfti enginn að velkjast í vafa, þó ekki væri lesin nema fyrirsögnin:

Bankasýsla ríkisins er hneyksli. Forstjóri með 5 milljónir á mánuði

Þetta varð næstmest lesna efni vikunnar á Eyjunni, sem samkvæmt vefmælingu Gallup er 8. mest lesni fréttavefur landsins.

Náttfari er þrátt fyrir skuggalegt nafnið ekki nafnlaus dálkur, því Róbert Trausti Árnason, fréttastjóri Hringbrautar, setti stafina sína undir skrifin. Þrátt fyrir að þar komi ljóslega fram persónulegar skoðanir hefur dálkurinn meira vægi fyrir það, að þar merkir fréttastjórinn sér pistilinn og tengingin við miðillinn skýr.

***

Í pistlinum var vikið að þrátt fyrir upphafleg áform um að Bankasýslan legðist af 2014, þá hefði Alþingi framlengt líf stofnunarinnar. Samt fannst höfundi að grundvöllur hennar væri veikur, nei beinlínis ólögmætur! Nú geta menn haft sínar skoðanir á tilgangi og frammistöðu Bankasýslunnar, en þessi málflutningur er beinlínis í andstöðu við staðreyndir málsins, sem raktar voru í sama pistli!

***

Látum það samt vera, að lagaskilningurinn vefjist eitthvað fyrir Róberti Trausta, sem þó er hokinn af reynslu úr stjórnsýslunni. Hitt var verra, að þar var staðhæft fullum fetum að Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, sæti þar á ofurlaunum, sem ljóst var að Róbert Trausta þykir einstaklega óverðskuldað:

Samkvæmt tekjublaði DV sumarið 2017 voru mánaðarlaun forstjóra Banaksýslunnar árið 2016 kr. 4.517.771. Árslaun hans 2016 voru því kr. 54.213.252.

Jú, víst er það drjúgur skildingur hjá ríkisforstjóra yfir lítilli stofnun, þó hún beri ábyrgð að tröllauknum hagsmunum fyrir hönd ríkissjóðs. Einkennilega úr takti við önnur launakjör hjá ríkinu.

Gallinn er sá að fréttastjórinn fer þarna mannavillt og vísar til launakjara alnafnans Jóns Gunnars Jónssonar hjá Actavis.

***

Þetta eru auðvitað meistaralega neyðarleg mistök, en spurningin er kannski fremur sú hvers vegna Róbert Trausti leitaði til Tekjublaðs DV sem heimildar. Það er ástæðu laust að styðjast við þá tiltölulega ónákvæmu áætlun upp úr álagningarskrá, einfaldlega vegna þess að launakjör forstjórans eru opinber.

***

Laun forstjóra Bankasýslunnar voru ákvörðuð af Kjararáði árið 2010 og úrskurðinn má auðveldlega finna á vef þess. Þar var hann settur í launaflokk 502-136 hjá ríkinu, auk fastrar yfirvinnu. Samkvæmt launatöflu frá 2016, sem þar má einnig finna, eru mánaðarlaun hans því 1.148.753 kr., um fjórðungur þess, sem Róbert Trausti staðhæfir og hneykslast á.

***

Til þess að bíta höfuðið af skömminni dró fréttastjórinn það sérstaklega fram að Jón Gunnar hafi verið skólabróðir Bjarna Benediktssonar, Illuga Gunnarssonar og Birgis Ármannssonar í Menntaskólanum í Reykjavík, svona líkt og hann hafi verið ráðinn í gegnum klíku, og sagði að sumir myndu kalla það spillingu.

Nú er það svo að ferilskrá hans segir alla sögu um hæfi hans; hann þurfti enga hjálp til þess að fá starfið. Jón Gunnar starfaði lengi hjá fjárfestingarbankanum Merrill Lynch í New York, Hong Kong og Lundúnum, við útboð og greiningu á skuldabréfum, skuldatryggingum og fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, sat í stjórn MP banka, þar sem hann tók þátt í endurskipulagningu bankans. Hann er með LL.M. gráðu í lög- og hagfræði frá Università di Bologna og Universität Hamburg, þar sem hann skrifaði meistararitgerð um fjárhagsskipan banka, og er auk þess með B.S. gráðu frá Cornell-háskóla í Íþöku í New York-ríki. Allt það gildir þó einu hjá því lykilatriði, að Jón Gunnar var ráðinn forstjóri Bankasýslunnar í árslok 2011, af nýrri stjórn, sem skipuð var af Steingrími J. Sigfússyni, þáverandi fjármálaráðherra. Var hann líka í klíkunni?

***

Þessi skrif eru svo hálfu einkennilegri fyrir það, að Róbert Trausti skrifaði um sama „hneyksli“ í í öðrum Náttfarapistli snemmsumars í fyrra, byggðan á sama misskilningi, reistan á sömu heimild. Það er með nokkrum ólíkindum að fréttastjórinn hafi enn ekki frétt að þessi hringavitleysa, sem hann setur stafina sína við, eru staðlausir stafir.

***

Auðvitað er mönnum frjálst að setja fram skoðanir sínar af ákefð, jafnvel þó þær séu rangar. Ekki síst í ögrandi dálkum eins og Náttfara, þar sem oft er tekið djúpt í árinni og gjarnan skrifað af nokkurri stríðni. En hitt gengur ekki hjá fjölmiðlum, sem taka sjálfa sig alvarlega, að hafa þar uppi augljóslega rangar fullyrðingar, vega að atvinnuheiðri manna og dylgja um spillingu, hirða ekki um einföldustu heimildakönnun og endurtaka svo sama misskilninginn ár eftir ár. Ef það var misskilningur.

***

Í Stundinni mátti í liðinni viku lesa fréttir eftir Frey Rögnvaldsson, tengdar nýrri reglugerð Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra um málefni útlendinga. Þar var upptakturinn andmæli og athugasemdir Helgu Völu Helgadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en hún hefur sem kunnugt er látið sig málsvörn hælisleitenda nokkru varða.

Þar kom hins vegar hvergi fram að Freyr er tengdasonur Helgu Völu. Hvað þá að andstæðra sjónarmiða væri leitað.

Auðvelt er að ímynda sér að Stundin hefði af hliðstæðu tilefni fjallað um dulin hagsmunatengsl, einhliða málflutning og trúnaðarrof fjölmiðla við almenning.