*

fimmtudagur, 19. apríl 2018
Andrés Magnússon
17. febrúar 2017 14:02

Hruuuuuun

Bloomberg fjallaði um að Íslendingar byggju sig undir hrun vegna þess að hagvöxtur væri í miklum blóma.

Haraldur Guðjónsson

Það hélaði óneitanlega í morgunkaffið hjá fjölmiðlarýni í gær, þegar hann las nýjustu fréttaskýringu Bloomberg um Ísland. Fyrirsögnin greindi frá því að hagvöxtur væri með miklum blóma í landinu og þar af leiðandi byggju landsmenn sig undir „næsta hrun“. Þess væri ekki langt að bíða, varla meira en 1-2 ár. Orðrétt:

For the next few months — might even be a year or two — Icelanders will step all over each other to make as much money as they possibly can in an effort to live through the next collapse.

Fyrir þessu var borinn Einar Jónsson, fyrrv. atvinnubílstjóri, sem fréttaritari Bloomberg hafði náð tali af í reykvískum matvörumarkaði.

                                                  * * *

Nú er það vafalaust rétt, að það er ástæða til þess að hafa varann á vegna ofhitnunar efnahagslífs, vöruskiptajöfnuður er óhagstæður, það er ólga á vinnumarkaði og svo mætti áfram telja.

Það mætti jafnvel benda á hið fyrirsjáanlega, að lengsta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar – á sama tíma og mikil stöðnun og deyfð er yfir flestum öðrum vestrænum hagkerfum – myndi ekki vara að eilífu og að einhverntímann kynni að hægjast um. Það er meira að segja nokkuð gott efni í fréttaskýringu, hvort heldur væri í þessu blaði eða hjá Bloomberg.

En það er fráleitt að boða yfirvofandi efnahagshrun – ekki minnkandi hagvöxt, niðursveiflu eða samdráttarskeið, heldur „hrun“ – af þeim sökum.

Hrun er stórt orð, ekki aðeins á Íslandi, og einstaklega óvarlegt að hafa það í flimtingum. Skaðvænlegt beinlínis.

                                                  * * *

Nú er það svo sem ekki nýtt af nálinni að blaðamenn og fréttaritarar leiti á náðir leigubílstjóra, bartskera og barþjóna, þegar þeir vilja finna „lit“ eða fulltrúa almannaróms í fréttir, fréttaskýringar eða lýsingar af framandi slóðum. En það er þá gert til þess að enduróma stemningu eða því um líkt, ekki sem kveikja eða frumheimild fréttar. Allra síst þegar umfjöllunarefnið er þjóðhagfræði, kerfislæg áhætta fjármálakerfa, orðspor íslenskra fyrirtækja og mat á styrk og horfum íslensks atvinnu- og efnahagslífs.

                                                  * * *

Í þessu tilviki er það ekki heldur svo að fréttaritari Bloomberg sé lentur meðal styggra frumbyggja og eigi erfitt með að finna áreiðanlega heimildarmenn, því það var Ómar R. Valdimarsson, sem skrifaði þetta, öllum hnútum kunnugur.

Hann lét sér auðvitað uppgjafabílstjóra ekki nægja sem heimildarmann, en segir að lesandinn þurfi ekki heldur að gera sér það að góðu; íslenskir iðnjöfrar, hagfræðingar hafi nefnilega varað við ofhitnun hagkerfisins. Jú, má vera, en ofhitnun er ekki hrun.

Næsti maður, sem Bloomberg vitnaði í, var Gylfi Magnússon, dósent við HÍ og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra á Kúbu norðursins. Hann segir að Ísland kunni vissulega að komast hjá „harðri lendingu“ og þó að Íslendingar hafi ekki alltaf verið flinkir í þeim efnum, verði að vonast til að þeir hafi lært eitthvað af reynslunni. Gott og vel, en ekki orð um yfirvofandi hrun.

Þá var rætt við Árna Odd Þórðarson hjá Marel, sem hafði ekki verulegar áhyggjur af ástandinu og benti á að hagkerfið væri bæði mun fjölþættara en áður og betur búið undir hvers kyns áföll. En ekkert hrun.

Loks var rætt við leikskólakennarann Guðrúnu Gunnarsdóttur, sem missti íbúð upp úr hruni þegar gjaldeyrislán uxu henni um höfuð. Hún borgi nú meira í leigu en fóru í afborganir áður, en standist þó ekki greiðslumat. Kennaranum þykir því sem á Íslandi séu 2+2 ekki alltaf 4, en hún minnist þó ekki á yfirvofandi hrun.

                                                  * * *

Eftir situr að það er ekki nokkur fótur fyrir þessu hrunshjali Bloomberg nema bölmóður fyrrverandi atvinnubílstjóra.

Það er eiginlega ekki boðlegt. Auðvitað er bílstjórinn frjáls skoðana sinna, en það er Bloomberg sem tekur ákvörðun um að hafa orð hans að upptakti og uppslætti þessarar fréttaskýringar. Þau eru inngangur hennar og fyrirsagnarpunktur, rétt eins og þar tali maður með sérstaka innsýn í íslenskt efnahagslíf, nægilega mikla til þess að geta bollalagt um þróunina næstu mánuði og misseri til hins óumflýjanlega hruns!

Nei, þetta er fráleitt, og fyrst Bloomberg fann engan sérfræðing (helst 3-4 um svo ískyggileg tíðindi) til þess veita það rökstudda álit að Ísland ætti annað hrun í vændum innan skamms, þá átti viðskiptafréttastofan víðkunna aldrei að birta þessa innistæðulausu fréttaskýringu.

Stikkorð: Bloomberg Hrun Ómar Valdimarsson
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.