Að setja sér það markmið að auka skilvirkni sína verðlaunar sjálft sig. Sá sem upplifir að hann er að skila af sér betri vinnu á skemmri tíma finnur um leið fyrir hvatningu og ánægju. En er einhver aukaverkun af því að bæta sig í starfi og verða eftirsóttari starfskraftur? Já, vinnutengt stress.

Þeir sem eru góðir í því sem þeir gera hafa alltaf nóg að gera.Verðmætaskapandi starfsmenn eru alltaf undir miklu álagi því þeir leysa vandamálin hratt og vel, skila af sér vel unninni vinnu og síðast en ekki síst, koma auga á það sem betur má fara og kasta sér yfir það. Yfirmenn taka eftir þessum eiginleikum og vilja vitaskuld nýta svona starfsmenn til hins ítrasta.

Kannski má segja að starfsmenn af þessu tagi verði fórnarlömb eigin skilvirkni. Þeir ná aldrei að vinna af sér í raun. Verkefnin raðast á þá og þeir takast á við þau og skila þeim vel af sér og uppskera í staðinn enn fleiri verkefni. Samviskusemin keyrir þá áfram, þeir skoða tölvupóstinn á öllum tímum sólarhrings og eru alltaf með hugann við vinnuna. Álagið getur orðið mikið og sumir bugast. Hvað er til ráða?

Vinnutengt stress kallast þetta stundum og er vaxandi vandamál í nútímasamfélögum. Tækninni er að sumu leyti um að kenna. Nú er hægt að vera „tengdur“ hvar og hvenær sem er. Samkeppnisumhverfið á líka sinn þátt í þessari þróun. Annaðhvort vinnur þú eins og skepna eða atvinnurekandinn þinn dregst aftur úr keppinautunum. En kannski spilar okkar eigið hugarfar líka stórt hlutverk. Það er eitt að geta verið sítengdur og annað að vera það. Það er eitt að finna fyrir ábyrgðartilfinningu í vinnunni en líka skammsýni að brenna sig út og verða að bagga á öðrum. Stjórnendur þurfa líka að passa sig á að hlaða ekki öllum verkefnunum á sína „bestu“ starfsmenn þótt það sé freistandi. Þannig hætta þeir á að brenna þá út og hverjir eiga þá að draga vagninn?

Ég stend sjálfur í þeirri trú að það sé hægt að verða gríðarlega skilvirkur og verðmætaskapandi starfsmaður sem sinnir vinnu sinni af ábyrgð og samviskusemi en án þess að vinnustressið nái að klófesta mann. Auðvitað er mjög einstaklingsbundið hvernig fólk tekst á við álag en hér er ráð: Að segja „skítt með það“ þegar þannig bjátar á.

Þessu má ekki rugla saman við ábyrgðarleysi eða leti. Að segja „skítt með það“ við ákveðin tækifæri er miklu frekar merki um raunsæi og skýra forgangsröðun (á sjálfum sér). Stundum er einfaldlega of mikið að gera. Það er engum til gagns að keyra sig út. Vinnufélagi minn orðaði þetta snyrtilega þegar hann sagði „skítt með það“ og bætti við: „Ég get ekki bjargað heiminum eins míns liðs.“ Um leið ætti hann að láta viðeigandi aðila vita að hann er búinn að sleppa bensíngjöfinni – í bili!

Það er gaman að auka skilvirkni sína og finna hvernig vinnuhraðinn eykst og gæði vinnunnar batna. Slíkt laðar að sér önnur krefjandi verkefni og tryggir að maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Vörum okkur samt á hliðarverkunum þess að verða eftirsóttur starfskraftur og lærum að spóla til baka, hugsa raunsætt og segja „skítt með það“.

Í næsta pistli ætla ég að ræða bætta sjálfstjórn sem tæki til að auka skilvirkni sína.