*

föstudagur, 20. október 2017
Helga Árnadóttir
29. ágúst 2012 17:15

Hvað á barnið að heita?

Forsvarsmenn fyrirtækja geta oft lent í mesta basli með að finna gott nafn á þau.

Aðsend mynd

Ætli íþróttaframleiðandinn Nike væri sama veldið í dag ef fyrirtækið héti enn Blue Ribbon Sports? Eða væri Google sama stórfyrirtækið ef stofnendurnir hefðu haldið sig við vinnuheitið BackRub í stað þess að hefja leit að nýju og betra nafni?

Það er þrautin þyngri að finna heppilegt nafn á nýtt fyrirtæki. Ákvörðunin er stór enda getur gott nafn hjálpað fyrirtækinu að ná árangri á meðan illa valið nafn getur þvælst fyrir og reynst hindrun á vegi þess. Þó svo að ekki sé til nein töfraformúla sem tryggir árangur þá eru eftirfarandi atriði meðal þeirra sem gagnlegt getur verið að hafa í huga:

Stutt er gott

Fólk á auðveldara með að muna stutt og laggóð nöfn. Hugsaðu til Nike, Apple, Facebook og Twitter.

Sérstaða er mikilvæg

Gættu þess að ekkert fyrirtæki sé starfandi sem hefur sama eða svipað nafn, sérstaklega ekki í sömu atvinnugrein. Ekki er einungis verra að viðskiptavinir eigi á hættu að rugla þínu fyrirtæki við annað, heldur viltu ekki lenda í vandræðum þegar að því kemur að skrá vörumerki fyrirtækisins, bæði á heimamarkaði og annars staðar.

Lénið skiptir máli

Ekki gleyma að athuga hvort hægt sé að skrá lén með nafni fyrirtækisins, sérstaklega ef fyrirtækið þitt ætlar að leggja áherslu á viðskipti á internetinu.

Forðastu skammstafanir

Fólk á erfitt með að muna skammstafanir, sérstaklega ef það veit ekki fyrir hvað þær standa. Það er því betra að forðast slík fyrirtækjanöfn enda er tíma og fjármunum illa varið í að útskýra fyrir viðskiptavinum hvað skammstöfunin stendur fyrir.

Almenn nöfn týnast

Fyrirtækjanöfn sem eru mjög almenn gera þér erfitt fyrir að láta þitt fyrirtæki standa upp úr (ímyndaðu þér fyrirtæki sem heitir Bók). Ef fyrirtækið þitt heitir mjög almennu nafni þá er vonlaust að finna það á Google.

Athugaðu þýðingu erlendis

Það er þjóðráð að fara inn á Google Translate og athuga hvað nafn fyrirtækisins þýðir á helstu tungumálum. Þó að ætlunin sé að láta fyrirtækið einungis starfa á Íslandi þá veistu aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér.

Ekki elta tískubólur

Ef það virðist sem einhver tískubóla sé í gangi hvað varðar fyrirtækjanöfn þá er skynsamlegt að forðast hana. Mundu eftir öllum .com og Group fyrirtækjunum.

Og ekki gleyma að það er ekki sjálfgefið að það takist vel upp við nafngift fyrirtækisins í fyrstu tilraun. Það má alltaf reyna aftur eins Nike gerði með góðum árangri.

Pistill Helgu Árnadóttur birtist í Viðskiptablaðinu 23. ágúst síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild sinni hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.