*

miðvikudagur, 17. október 2018
Óðinn
14. nóvember 2017 11:04

Hvað gerir sósíalisma að sósíalisma?

Þegar sósíalisminn var að ná vinsældum í Evrópu á nítjándu öldinni var ekki gerður neinn greinarmunur á sósíalisma og kommúnisma.

Enn sér ekki fyrir endann á stjórnarmyndunarviðræðum í kjölfar kosninga, en Óðinn við­urkennir fúslega að honum létti þegar viðræður um myndun 32 þingmanna meirihluta vinstriflokkanna og Framsóknarflokksins runnu út í sandinn. Nú stendur yfir vísir að viðræðum VG og Sjálfstæðisflokksins um myndun stjórnar með þriðja flokki, en alls er óvíst að nokkuð komi upp úr þeim kassa heldur. Það væri þó öllu álitlegri kostur en sá fyrri.

                               ***

Kjósendur eiga hins vegar að búa sig andlega undir það að þessar viðræður – formlegar eða óformlegar – skili ekki árangri í fyrstu tilraun. Grasrót Vinstri grænna er langt frá því að vera hrifin af samvinnu við meintan auðvaldshægriflokkinn og eins eru margir innan raða Sjálfstæð­isflokksins sem líta samstarf við vinstrisinnaðasta stjórnmálaflokk Íslands hornauga.

                               ***

En hvað um það. Á endanum fáum við yfir okkur ríkisstjórn og ef við erum einstaklega heppin mun þessi stjórn láta einstaklinga og fyrirtæki sem mest í friði. Því miður er þó ekki líklegt að sú von rætist.

                               ***

Hitler og kapítalisminn

Stundum er sagt að aldrei sé góð vísa of oft kveðin og eins hefur það verið sagt að lygin geti hlaupið heilan hring i kringum hnöttinn áður en sannleikurinn hefur náð að reima á sig skóna.

                               ***

Ein slík lygi, þrautseig og útsmogin, er enn á harðahlaupum. Hún gengur í einfaldri mynd út á það að þýskir nasistar hafi verið kapítalistar og hægri menn og séu því um margt líkari íhalds- og frjálslyndisflokkum nútímans en jafnaðarmönnum og sósíalistum. Þetta er ekki eingöngu sagnfræðileg kúríósa, heldur er nasista- og fasistakylfan reglulega látin dynja á hægrimönnum dagsins í dag. Hitler var andsnúinn sov­étkommúnismanum og því hlýtur sá sem agnúast út í sósíalisma nútímans að eiga eitthvað sameiginlegt með Hitler.

                               ***

Látum liggja á milli hluta að nasistarnir sjálfir fóru ekkert í grafgötur með það hvar þeir stóðu á pólitíska litrófinu. Flokkur þeirra hét jú Þjóðernissósíalíski þýski verkamannaflokkurinn (Nationalsozialistische Deutsche Arbeiterpartei). Þessi staðreynd hefur hins vegar ekki nægt til að sannfæra margan vinstrimanninn. Einn gárunginn sagði að sá sem leggur of mikla trú á merkingu nafna hljóti að eiga erfitt með hugtakið buffalóvængi, enda hafa vísundar ekki vængi.

                               ***

Raunverulegur sósíalismi

Austurríski hagfræðingurinn Ludwig von Mises skrifaði um hið sósíalíska eðli nasismans í ritgerðinni Skipulögð óreiða, sem kom út árið 1951. Er ritgerðinni gerð ágæt skil í nýlegri grein á vefsíðu Mises-stofnunarinnar.

                               ***

Þegar sósíalisminn var að ná vinsældum í Evrópu á nítjándu öldinni var ekki gerður neinn greinarmunur á sósíalisma og kommúnisma. Vissulega voru til mismunandi útgáfur af sósíalisma, en sama kenniheitið var notað yfir þær allar.

                               ***

Í Þýskalandi voru menn farnir að skilgreina og skrifa um ríkissósíalisma áður en Marx og Engels rituðu sínar frægu bækur. Johann Karl Rodbertus hafnaði til að mynda mörgum kenningum sósíalisma þess tíma og sagði þær óraunhæfar. Eina leiðin til að ná fram raunverulegum sósíalisma væri með því að ríkið tæki yfir bæði framleiðslu og dreifingu á vörum og þjónustu. Í ritgerðinni gerir Mises greinarmun á því sem hann kallar sósíalisma af þýsku gerðinni og sósíalisma af rússnesku gerðinni.

                               ***

Samkvæmt þýsku gerð sósíalismans var einkaeignarrétturinn ekki afnuminn að nafninu til. Verksmiðjur áttu í þessu samfélagi enn að vera í eigu einstaklinga, en öllu skipulagi hagkerfisins var stýrt af ríkinu. Í rússneska módelinu var aðeins gengið einu skrefi lengra og ríkið tók verksmiðjurnar eignarnámi.

                               ***

Allt ákveðið af ríkinu

Nasistaflokkurinn var gegnsósa af þessum þýska sósíalisma. Í Þýskalandi Hitlers voru eigendur kallaðir verksmiðjustjórar. Ríkið gaf skipanir um það hvað þeir ættu að framleiða, hverjir birgjar þeirra ættu að vera, til hverra þeir ættu að selja og á hvaða verði. Laun verkafólks voru ákveðin af ríkinu og það var ríkisins að ákveða hvernig „kapítalistarnir“ áttu að ávaxta arð sinn.

                               ***

„Viðskipti á markaði eru ekki raunveruleg. Þar sem öll verðlagning, laun og vaxtastig er ákveðið af hinu opinbera eru þau aðeins verð, laun og vextir að nafninu til,“ segir Mises. Bendir hann á að með þessum tækjum er ríkið að ákveða tekjur, neyslu og lífskjör hvers einasta þegns. Ríkið, ekki neytendur, stýrir framleiðslunni.

                               ***

„Þetta er sósíalismi í gervi kap­ítalisma. Sum hugtök kapítal­ísks markaðshagkerfis eru notuð áfram, en merking þeirra hefur breyst í grundvallaratrið­um,“ skrifar Mises um hagkerfi nasismans.

                               ***

Arfleifð Stalíns

Í raun eru það Sovétmenn sem bera ábyrgð á því að nasistar voru á endanum settir í flokk kapítalískra stjórnmálahreyfinga.

                               ***

Nasistaflokkurinn leit ennþá á sig sem sósíalískan flokk og stýrði þýska hagkerfinu sem slíkur. Hatur Hitlers á sovétkommúnismanum var afsprengi af kynþáttahatri hans. Hann var haldinn sjúklegu gyðingahatri og leit á slava sem kynþátt sem ætti að hneppa í þrældóm og útrýma með tíð og tíma. Rússneskur kommúnismi var, í hans huga, hugmyndafræði slavneskra gyð­inga og hættulegur sem slíkur. Hatrið var með öðrum orðum ekki hugmyndafræðilegt.

                               ***

Þegar þýski herinn réðst inn í Sovétríkin árið 1941 lenti margur sósíalistinn í samviskukrísu. Þarna voru í raun tvö sósíal­ísk ríki að takast á. Þeir tóku því fagnandi söguskýringu Jósefs Stalín um að þjóðernissósíalismi Hitlers, sem vissulega átti ekki rætur sínar í kenningum Marx, væri í raun ekki sósíalismi, heldur kapítalismi á lokastigi.

                               ***

Það er stórmerkilegt í raun að þessi sögufölsun hafi tekist svo vel sem raun ber vitni. Nýnasistar eru reglulega kallaðir „öfgahægrimenn“ í vestrænum fjölmiðlum og í hvert sinn sem upp sprettur þjóðernissinnaður flokkur sem ber út boðskap um hatur á öðru fólki þá er sá hinn sami stimplaður hægriflokkur, hversu vinstrisinnuð sem stefna hans að öðru leyti kann að vera.

                               ***

Kannski er þetta ekki hættulegt orðfæri í sjálfu sér. Kannski er enginn skaði skeður ef kynslóð eftir kynslóð lærir það í skóla að Hitler og nasistarnir hafi verið öfga-hægrimenn. En fjandi er það pirrandi fyrir frið- og frelsiselskandi hægrimenn nútímans að þurfa endalaust að berja af sér fávitann með asnalega yfirvaraskeggið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.