Fjölbreytni í atvinnulífi gerir hagkerfið minna háð gengi í einstökum greinum og dregur þannig úr sveiflum. Þess vegna er eftirsóknarvert að fjölga stoðunum. Með virkjun fallvatna hér á landi var eggjunum fjölgað í hinni efnahagslegu körfu og iðnaður byggðist upp um land allt. Áður var gjaldeyrisöflun þjóðarinnar að mestu borin uppi af sjávarútvegi og því háð náttúruöflunum. Þrátt fyrir sveiflur og að mörgu leyti óhagstæð efnahagsleg skilyrði hér á landi tókst að fjölga stoðunum enda er raforkuframleiðsla á Íslandi hagkvæm í samanburði við önnur lönd. Nú er þetta samkeppnisforskot að minnka hratt sem getur leitt til þess að framleiðsla færist úr landi og að ný tækifæri fari forgörðum. Þar með skapast ekki sú fjölbreytni sem er nauðsynleg svo draga megi úr sveiflum. Hér þarf skýra stefnumörkun og þar er mótun atvinnustefnu mikilvægasta innleggið.

Iðnaður leggur grunn að góðum lífskjörum

Iðnaður er mjög umfangsmikill í íslensku efnahagslífi. Greinin er fjölþætt og snertir nær alla þætti hagkerfisins. Einn af hverjum fimm launþegum starfar í iðnaði eða ríflega 40 þúsund manns. Iðnaður stendur undir þriðjungi af veltu fyrirtækja og skapaði rétt um 30% af landsframleiðslu árið 2016 eða ríflega 700 milljarða króna.

Spurn eftir orku

Fjórða iðnbyltingin stendur nú yfir. Gögn eru helsta hrávara hennar og söfnun þeirra og úrvinnsla mun aukast umtalsvert með tímanum. Gagnaver eru þannig ein birtingarmynd þessara tækniframfara. Fyrirtæki hafa sýnt því áhuga að byggja upp starfsemi gagnavera hér á landi í meira mæli og stjórnvöld hafa verið jákvæð í garð þess. Slík starfsemi krefst talsverðrar orku. Til viðbótar við þessa eftirspurn krefst rafbílavæðing – ef af verður – talsverðrar orku. Önnur iðnfyrirtæki hafa líka áhuga á því að auka sína starfsemi. Myndin er því skýr. Talsverð spurn er og verður eftir orku. Styrkja þarf rammaáætlun með það að markmiði að auka fyrirsjáanleika á framboði á raforku til að mæta þessari eftirspurn.

Raforkuverð skapar ekki lengur samkeppnisforskot

Í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins, Ísland í fremstu röð – eflum samkeppnishæfni, segir hvernig laun, skattar og vextir hér á landi eru hærri en gengur og gerist í samanburðarlöndum. Á móti kemur að hagvöxtur hér á landi er meiri en annars staðar. Ofan á þetta kemur að raforkuverð skapar ekki lengur það samkeppnisforskot sem það gerði. Heildsöluverð á raforku í Norður-Evrópu hefur lækkað á síðustu árum. Þá hafa orkufrekar atvinnugreinar í flestum löndum NorðurEvrópu verið undanþegnar sköttum á raforku. Verð raforku Landsvirkjunar hefur ekki fylgt þessari þróun en fyrirtækið er ráðandi á raforkumarkaði hér á landi með yfir 70% hlutdeild markaðarins. Forstjóri Ölgerðarinnar upplýsti á Iðnþingi nýlega að fyrirtækið greiðir nú 87% meira fyrir hverja kílóvattstund af raforku en árið 2012. Þessi hækkun er langt umfram almennar verðlagshækkanir á tímabilinu.

Ógagnsær markaður

Í flestum löndum Norður-Evrópu hefur gagnsæi á raforkumarkaði aukist á síðustu árum með markaðsskráningu á raforku og opinberum skráningum á verði. Slíkt fyrirkomulag dregur úr óvissu og bætir skilvirkni þar sem raforkuverð er þekkt og framboð fyrirsjáanlegt. Hér á landi er raforkumarkaðurinn ógagnsær og eykur það óvissu í rekstri og gerir kaupendum raforku erfiðara um vik að gera áætlanir. Þessu þarf að breyta og virðist vilji til þess. Í þessu samhengi er full ástæða til þess að skoða þann möguleika að koma á laggirnar opnum raforkusölumarkaði.

Flutningur vegur þungt

Landsnet annast flutning raforku eftir að aðskilnaður varð milli framleiðslu, flutnings og dreifingar fyrir nokkru síðan. Það er umhugsunarefni að enn eigi Landsvirkjun, sem er markaðsráðandi aðili í raforkuframleiðslu, meirihluta flutningskerfisins. Í strjálbýlu landi vegur kostnaður við raforkuflutning þungt í heildarorkukostnaði. Uppbygging flutningskerfisins verður ekki kostuð eingöngu af núverandi orkukaupendum. Uppbygging verðlagningar í flutningi og dreifingu raforku hér á landi gerir það síðan enn erfiðara fyrir meðalstór fyrirtæki sem nýta raforku að vera samkeppnishæf. Lækka þarf kostnaðarþröskuld til að gera fleirum kleift að vaxa og dafna.

Mótum atvinnustefnu

Orkustefna er í mótun í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Forsenda þess að orkustefna sé mótuð er að til staðar sé skýr atvinnustefna. Hana þarf að móta og tíminn er núna. Atvinnustefna er skipulag og rauði þráðurinn í stefnumótun ólíkra málaflokka eins og menntun, innviðauppbyggingu, nýsköpun, orkumálum og byggðamálum svo eitthvað sé nefnt. Landsvirkjun sem er stærsta orkufyrirtækið, er í ríkiseigu. Eigendastefna ríkisins er ekki til þó kallað hafi verið eftir henni um nokkurt skeið. Eigandinn hefur því ekki myndað sér sýn á framangreinda þróun með formlegum hætti. Stjórnmálamenn þurfa að svara því hvort Ísland eigi að dragast aftur úr í samkeppni milli þjóða með tilheyrandi afleiðingum fyrir íslenskan iðnað og þau störf og verðmæti sem hann skapar. Því er best svarað með mótun atvinnustefnu fyrir Ísland.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.