Nú um nokkur misseri hefur margur beðið þess að verðbólga léti á sér kræla í kjölfar rausnarlegra kjarasamninga á þessu ári. Heldur virðist ætla að teygjast á þessari bið því síðasta verðbólgumæling sýndi 0,35% verðhjöðnun og verðbólga án húsnæðis hefur aðeins hækkað um 0,3% síðustu 12 mánuði. (12 mánaða verðbólga er 2% ef húsnæð­ isliðurinn er tekinn með). Ýmsum skýringum hefur skotið upp á því af hverju hinar margboðuðu verðhækkanir hafa ekki komið fram.

Sumum finnst nægjanlegt að benda á gengishækkun krónunnar er hefur styrkst um 15-16% gagnvart evru á síðustu tveimur árum, og það hafi einfaldlega orðið til þess að fresta verðbólgunni. Aðrir nefna lækkun hrávöruverðs á heimsmarkaði, en t.d. hefur liðurinn „bensín“ innan vísitölu neysluverðs lækkað um rúm 20% frá nóv. 2014. Þá sé landið nú hluti af evrópskum vinnumarkaði og umframeftirspurn eftir vinnuafli sé mætt með innflutningi á fólki í stað launaskriðs. Þannig sé Ísland – sem lítið opið hagkerfi – einfaldlega að flytja inn verðhjöðnun að utan og hagnýta sér ódýra erlenda framleiðsluþætti.

Enn aðrir nefna að fjárhagslegur styrkur íslenskra fyrirtækja sé nú meiri en verið hefur um áratugaskeið eftir að þau þáðu sína eigin skuldaleiðréttingu úr hendi bankanna. Atvinnulífið hafi gengið í gegnum víðtæka fjárhagslega endurskipulagningu – sem á slangri bankafólks kallast „þvottavélin“ – og fyrirtækin séu nú með tiltölulega hátt eiginfjárhlutfall og lágar vaxtagreiðslur og geti því tekið á sig töluverðar launahækkanir. Þá eru einnig skýringar er minna á umræðuna um „nýja hagkerfið“ í kringum 2000 sem fela það í sér að launahækkanir kalli fram sína eigin framleiðni. Í stað þess að henda öllum kostnaðarhækkunum út í verðlagið – sem lengi hefur verið lenska – þá hafi stjórnendur fyrirtækja brugðist við þeim með hagræðingu. Ef sú er raunin hlýtur framleiðni vinnuafls hérlendis – er hefur verið föst í sama fari frá hruni – að taka kipp á þessu ári og hinu næsta.

Peningastefnan er að virka

Fáir hafa hins vegar nefnt þá skýringu sem ætti að vera augljós, að peningamálastefnan sé einfaldlega að virka. Á nýja Íslandi er búið að ryðja til hliðar þeim þáttum sem stóðu helst gegn leiðni stýrivaxta fyrir hrun. Nú eru engin gengisbundin lán í boði né heldur Íbúðalánasjóður er vann gegn Seðlabankanum með útgáfu langra, verðtryggðra og ríkistryggðra bréfa. Þess í stað standa þrír við­ skiptabankar með fremur stutta skuldahlið sem er næm fyrir hækkun skammtímavaxta. Þeir eru aukinheldur að fara að missa sína stærstu fjármögnunaraðila þegar slitabú föllnu bankanna verða leyst upp og krónueignir þeirra afhentar ríkinu.

Á árunum fyrir hrun virðist sem Seðlabankinn hafi ofmetið áhrifamátt stýrivaxta sem birtist í því að bankinn vanspáði verðbólgu. Nú virðist sem bankinn hafi hoppað á hinn bakka skurðarins og vanmeti áhrifamátt eigin vaxta sem birtist í ofspám á verðbólgu. Stað­ reyndin er þó sú að raunstýrivextir Seðlabankans hafa verið í kringum 3% síðustu 2 ár – ef miðað er við mælda verðbólgu – og þessir vextir hafa bitið á hagkerfið.

Öfugt við það sem margir hérlendis virðast halda, þá er verðbólga ekki sjálfvirkur uppreikningur kostnaðar í hagkerfinu heldur samtala ákvarðana fólks og fyrirtækja um kaup, sölur og verðsetningu. Hugsanlega kann almenn lág framleiðni hérlendis að stafa af því að stjórnendum hefur verið of laus höndin við verðhækkanir þegar kostnaður hefur aukist í stað þess að huga að hagræðingu. Kannski hefur hin nafnfræga íslenska eyðslukló tamið sér hófsemi. Ef til vill mun erlend verðhjöðnun geta hlaðið undir íslenska hagsæld án verðbólgu. En það gengur vart lengur en til skamms og meðallangs tíma. Þegar til lengra tíma er litið getur ekkert komið í stað virkrar hagstjórnar til þess að skapa verðstöðugleika.