Rafbíllinn er orðinn áberandi á Íslandi, bæði í umræðunni og á götum landsins. En hversu stór hluti flotans eru rafbílar og af hverju erum við ekki fyrir löngu komin á vistvæna bíla?

Öfugt við það sem margir halda þá er rafbíllinn ekki nýr af nálinni. Undir lok nítjándu aldar voru þrjátíu þúsund rafbílar á götum bandarískra borga og töldu um þriðjung af öllum bílaflota landsins. Með stærra vegakerfi og lengri akstursleiðum varð stutt drægni rafhlöðunnar rafbílnum að falli og hinn langdrægi bensínbíll tók völdin.

Fólksbílaflotinn í dag

Bensín- og dísilbílar eru uppistaða íslenska fólksbílaflotans en einungis 1,9% eru knúnir öðrum orkugjöfum. Ef aðrir orkugjafar eru skoðaðir nánar má sjá að 1,4% flotans eru með tvinnvélar, það er eru knúnar bensín eða dísil auk vistvænni orkugjafa.

Einungis 0,4% flotans eru rafbílar og 0,1% eru metanbílar. Þess ber þó að geta að innreið vistvænni bíla er nýlega hafin en fólksbílaflotinn er gamall eða um 12 ára að meðaltali.

Stefnumörkun

Aukin áhersla er á loftslagsmál sem náði nýjum hæðum í París síðastliðið sumar. Aukin pólitískur vilji til íhlutunar hins opinbera til stuðnings vistvænni bíla er orðinn augljós. Sem dæmi um slíkt eru Norðmenn með miklar skatta¬ ívilnanir fyrir útblásturslausa bíla sem hefur skilað því að um 30% nýskráðra fólksbíla þar í landi eru rafbílar.

Neðri deild hollenska þingsins samþykkti nýverið að engir dísil- eða bensínbílar skyldu fást nýskráðir í landinu frá með árinu 2025. Hvort sem það verður að lögum eða ekki þá eru Hollendingar farnir að undirbúa miklar breytingar. Í Þýskalandi er rætt um að banna nýskráningar dísil- og bensínbíla frá og með árinu 2030. Ríki heims hafa komist að því að samgöngumynstri verður ekki breytt án inngripa og eru byrjuð að framkvæma samkvæmt því.

Borgar sig að kaupa rafbíl?

Ísland afnam vörugjöld á rafbílum árið 2011 og virðisaukaskattur var felldur tímabundið niður af þeim á árinu 2012 og hefur þeirri undanþágu verið framlengt síðan.

Samanburður á rafbíl og bensínbíl:

  • Kaupandi ætlar að nota bílinn til innanbæjaraksturs
  • Rafbíllinn kostar 700.000 kr. meira en bensínbíll
  • Áætlaður akstur á ári er 15.000 km.
  • Bensínsparnaður er 133.000 krónur á ári
  • 7% ávöxtunarkrafa á bensínsparnað sem fæst á lengri tíma
  • Allar tölur í dæminu núvirtar til dagsins í dag

Hærra verð í upphafi þarf kaupandi að leggja út strax en bensínsparnað fær hann til baka yfir lengri tíma. Því þarf að núvirða bensínsparnaðinn. Miðað við þessar forsendur má sjá að bensínsparnaður borgar upp hærra upphafsverð á 7 árum en eftir þann tíma er kaupandinn að hagnast á bensínsparnaði.

Þar með er ekki öll sagan sögð því að ekki er mikil reynsla komin á rafbílinn hér á landi. Rafhlaðan hefur fimm ára ábyrgð en framleiðandi gerir ráð fyrir 10 ára líftíma. Ef rafhlaðan er ónothæf eftir tíu ár þá er rafbílakaupandi búinn að hagnast um 240 þúsund krónur. Fyrir tíu ára gamlan bensínbíl ætti að vera hægt að fá 340 þúsund krónur.

Til að koma út á sama stað þá þarf rafbílakaupandinn að fá 100 þúsund krónur fyrir tíu ára rafbíl með ónothæfa rafhlöðu sem virðist ekki óraunhæft. Það má því færa að því rök að fyrir ákveðinn notendahóp sé rafbíllinn raunhæfur kostur. Ef hins vegar skattalegra ívilnana nyti ekki við þá gengur þetta dæmi engan veginn upp.

Niðurfelling vörugjalds og virðisaukaskatts á árinu 2012 skilaði því að sala rafbíla tók vel við sér árið 2013 og jókst næstu tvö ár. Miðað við nýskráningar nýrra bíla fyrstu tíu mánuði þessa árs virðist rafbíllinn aðeins vera að hægja á sér en tengitvinnbíllinn að taka við.

Það skal þó taka fram að hlutfallið er ekki hátt af öllum seldum bílum en árið 2015 seldust til að mynda ríflega 13.000 fólksbílar á landinu og þar af voru tæplega 400 rafbílar og rafmagns tengi tvinnbílar.

Tengi tvinnbíll getur ekið á rafmagni og er með drægni á bilinu 30-50 km á einni hleðslu. Slík hleðsla getur dugað innanbæjar til og frá vinnu. Hægt er svo að hlaða bílinn heima við yfir nótt. Ef það þarf að aka lengri leiðir og rafhleðslan klárast þá tekur bensín- eða dísilvélin við.

Þessi lausn leysir úr flestum ókostum sem rafbíllinn hefur og getur verið milliskrefið inn í framtíðina. Ef þessir bílar halda áfram að ná fótfestu á markaðnum þá læra notendur á hleðslulausnina og kynnast kostum rafmagnsins auk þess að styðja við frekari uppbyggingu hleðslustöðva.

Á meðan bíðum við áfram og vonumst eftir því að þróun rafbílsins leiði til þess að hann verði ennþá samkeppnishæfari kostur en nú er. Með ívilnunum er rafbíllinn raunhæfur kostur fyrir þá sem þurfa ekki að treysta á að komast lengri leiðir en án skattaafsláttar þyrfti rafbíllinn að lækka í innkaupsverði um að minnsta kosti 25-30%.

Höfundur er hagfræðingur og viðskiptastjóri Ergo.