*

föstudagur, 26. apríl 2019
Bjarni Ólafsson
15. febrúar 2015 12:15

Hvenær á að lækka?

Gæti ófyrirsjáanleiki peningastefnunnar verið ástæða þess að verðbólguvæntingar eru sífellt flöktandi?

Í vikunni kom í ljós að í Danmörku var verðhjöðnun í janúar upp á 0,1% borið saman við janúar árið 2014 og er þetta, samkvæmt Børsen, í fyrsta skipti í 60 ár sem verðhjöðnun er í Danmörku. Við þessar aðstæður hefur Seðlabanki Evrópu gripið til harkalegra aðgerða, þótt vissulega séu þær ekki allar tengdar verðlagi. Innlánsvextir hjá bankanum eru neikvæðir um 0,75% og útlánavextir nema 0,05%.

Eins og áður segir eru aðrar ástæður en eingöngu verðlag sem skýra ákvarðanir danska bankans. Evran hefur verið að hríðfalla, einkum eftir að orðrómur um aukin skuldabréfakaup evrópska seðlabankans reyndist sannur og vegna þess að danska krónan er hengd við evruna verður danski seðlabankinn að halda gengi krónunnar á sama svæði og evran er á. Vaxtalækkanirnar eru því hugsaðar til að lækka gengi krónunnar.

Að þessu sögðu eru vaxtalækkanir í verðhjöðnun ekki nokkuð sem ætti að koma neinum á óvart. Hefðbundnir hagfræðingar eru sammála um að verðhjöðnun sé af hinu slæma og að gera eigi margt til að koma í veg fyrir hana.

Því er áhugavert að skoða verðþróun hér á landi undanfarið. Þegar samræmd vísitala neysluverðs er skoðuð, en það er vísitala sambærileg þeirri sem miðað er við í frétt Børsen, var verðhjöðnun upp á 0,6% hér á landi í nóvember og 0,4% í desember. Sem sagt er ekki nóg með að verðhjöðnun hafi verið hér á landi tvo mánuði í röð, heldur var hún mun meiri en í Danmörku, þar sem seðlabankinn hefur stillt vexti sína í mínus.

Er því að furða að ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að halda stýrivöxtum hér á landi óbreyttum hafi komið á óvart? Nær allir gerðu ráð fyrir því að stýrivextir yrðu lækkaðir um 0,25% eða jafnvel meira. Raunvextir eru nú hærri en þegar ákvörðun var tekin um vaxtalækkun í nóvember, einkum með þeim rökum að raunvaxtastig væri orðið hátt. Peningastefnunefndin sjálf virðist jafnvel hafa verið á þeirri skoðun að lækka ætti vexti, en eins og greiningardeild Arion banka orðaði það þá færði nefndin rök fyrir vaxtalækkun en hélt vöxtum samt óbreyttum.

Peningastefnunefnd gerði mikið úr þeirri óvissu og áhættu sem af komandi kjarasamningum stafar og vissulega virðist ætla að stefna í harðar kjaradeilur á komandi mánuðum og ekki óhugsandi að launahækkanir verði meiri en þær ættu að vera samkvæmt fræðunum. Væri samt ekki heppilegra fyrir bankann að lækka vexti nú, þegar raunvextir eru hærri en við síðustu vaxtaákvörðun og verðhjöðnun er til staðar miðað við ákveðna mælikvarða? Fari landinn fram úr sér í kjarasamningum er alltaf hægt að hækka vexti á ný. Annars er vel hægt að taka undir það sem segir í pósti greiningardeildar Arion: „Það að ákvörðunin hafi verið þvert á væntingar greiningar- og markaðsaðila kom meðlimum nefndarinnar á óvart, en þegar erfitt er að segja til um hvert markmiðið er hverju sinni, eða hvaða stærða er helst horft til við ákvörðunina er ekki furða að erfitt reynist að spá fyrir um ákvarðanir nefndarinnar. Gæti það verið ein ástæða þess að sögulega hefur reynst erfitt að finna verðbólguvæntingum kjölfestu hér á landi – ófyrirsjáanleiki peningastefnunnar?“

Stikkorð: Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim