Kauphöllin tekur ekki almennt afstöðu til þess hvort fjármálagerningar séu rétt verðlagðir eða ekki en hefur þó eftirlit með því að fjárfestar hafi jafnan aðgang að öllum þeim upplýsingum sem nauð­synlegar eru til þess að leggja mat á virði viðkomandi fjármálagerninga. Eins og ég fjallaði um í síðustu viku, í pistlinum „Hvenær eru við­skipti stöðvuð í Kauphöllinni“, getur verið ástæða til þess að stöðva viðskipti tímabundið í tengslum við brot gegn lögum eða reglum, ef hætta er á ójafnræði fjárfesta eða ef aðstæður útgefanda eru þannig að viðskipti gætu skaðað hagsmuni fjárfesta. Við sérstakar aðstæð­ur getur þó komið upp sú staða að verðmyndun verður af einhverjum orsökum óviss, jafnvel þó ekki sé ástæða til þess að stöðva við­skipti. Í því felst að fjárfestar eiga sérstaklega erfitt með að verðmeta viðkomandi fjármálagerninga, svo sem vegna þess að óvissa ríkir um framtíð útgefandans, tilteknar upplýsingar liggja ekki fyrir og/ eða um brot á upplýsingaskyldu er að ræða. Við slíkar aðstæður getur Kauphöllin tekið ákvörðun um að athugunarmerkja þá fjármálagerninga sem um ræðir.

Athugunarmerking gerir Kauphöllinni kleift að vekja athygli fjárfesta á því að óvenjulegar aðstæð­ ur séu fyrir hendi sem þeir ættu að kynna sér vandlega. Rétt er að taka fram að athugunarmerking telst ekki til viðurlagabeitingar. Athugunarmerking endurspeglar fyrst og fremst óvissu, sem getur verið neikvæð eða jákvæð, og felur því ekki endilega í sér áfellisdóm yfir þeim útgefanda sem hana hlýtur.

Eins og ég fjallaði um í síðustu viku tók Fjármálaeftirlitið ákvörð­un um að stöðva viðskipti með fjármálagerninga Glitnis banka hf. þann 29. september 2008, í að­draganda þess að bankinn birti opinberlega tilkynningu um kaup ríkissjóðs á 75% hlut í bankanum. Allar þær upplýsingar sem voru til staðar á þeim tímapunkti virtust liggja fyrir og var því ákveðið að leyfa aftur viðskipti degi síðar, eftir að bankinn hafði birt tilkynningu um málið. Fjárfestar höfðu á þeim tímapunkti jafnan aðgang að þeim upplýsingum sem voru til staðar og var því ekki talin ástæða til þess að viðhalda stöðvun við­skipta. Aftur á móti var um að ræða það óvenjulega og umfangsmikla aðgerð að erfitt var að meta hver endanleg áhrif hennar gætu orðið. Töldu Kauphöllin og Fjármálaeftirlitið því að aðstæður væru fyrir hendi sem leiddu af sér umtalsverða óvissu varðandi félagið og verðmyndun verðbréfanna. Var því tekin ákvörðun um að athugunarmerkja alla fjármálagerninga Glitnis banka hf., a.m.k. þar til hluthafafundur hefði samþykkt tilboð ríkisstjórnar.

Síðan þá hefur athugunarmerkingum verið beitt í 66 tilvikum, eða að jafnaði oftar en níu sinnum á ári, sem þykir nokkuð há tala með hlið­sjón af stærð íslenska markaðarins. Skýringuna má finna í þeim fjárhagslegu hremmingum sem mörg íslensk fyrirtæki lentu í kringum árið 2008 og síðar, en af þessum 66 tilvikum vörðuðu 37 þeirra óvissu um fjárhagsstöðu eða framtíð útgefanda. Í níu tilvikum var vísað til almennrar óvissu um verðmyndun, í þremur tilvikum var um að ræða yfirtökutilboð, 13 tilvik vörðuðu töku fjármálagerninga úr viðskiptum og í 14 tilvikum var vísað til þess að tilteknar upplýsingar lægju ekki fyrir.

Þegar Kauphöllin beitir athugunarmerkingu er markaðstilkynning birt opinberlega þar sem greint er frá ástæðum athugunarmerkingarinnar og vísað í viðeigandi ákvæði í reglum Kauphallarinnar. Yfirleitt eru fjármálagerningar athugunarmerktir með vísan í tilkynningu sem viðkomandi útgefandi hefur birt opinberlega. Sjálf athugunarmerkingin kemur svo fram í viðskiptakerfi Kauphallarinnar, en það felur í sér að stafirnir „OB“, sem stendur fyrir „Observation Status“, koma fram við hlið viðkomandi fjármálagerninga í viðskiptakerfi Kauphallarinnar. Er fjárfestum þar með gert við­ vart um að sérstakar aðstæður séu til staðar sem þeir ættu að kynna sér vandlega.

[1] Ath. að í mörgum tilfellum er vísað í fleiri en eina skýringu fyrir athugunarmerkingu.