Í tilefni af sviptingum á markaði í kringum kynningu Icelandair á síðasta uppgjöri sínu hafa ýmsir velt fyrir sér á hvaða tímapunkti sé skylt að láta vita af breytingum í rekstri fyrirtækja á markaði.

Ein aðalreglan í verðbréfalöggjöf er að þeir sem eiga viðskipti á skipulögðum markaði sitji við sama borð. Þetta er tryggt með reglum um innherja og skyldu til þess að láta markaðinn formlega vita þegar eitthvað kemur upp sem ætla má að hafi verðmótandi áhrif á hlutabréf eða skuldabréf viðkomandi fyrirtækis.

Heimilt að fresta

Sú spurning rís oft á hvaða stigi mál þurfa að vera komin til þess að þessi skylda verði til. Yfirvofandi stórviðskipti eða sviptingar í rekstri fyrirtækja eiga sér oft langan aðdraganda og það getur beinlínis verið skaðlegt fyrir fyrirtækið sem á í hlut og jafnvel villandi fyrir markaðinn að gefa upplýsingar sem ekki eru orðnar endanlegar. Að sama skapi er hætt við því að ójafnræði skapist á markaðinum ef sumir vita að eitthvað mikilvægt er í pípunum en aðrir ekki

Samkvæmt lögum á í meginatriðum að birta innherjaupplýsingar eins fljótt og mögulegt er. Einnig er heimilt að fresta birtingu til að vernda lögmæta hagsmuni, svo framarlega sem frestunin er ekki líkleg til að villa um fyrir almenningi og útgefandi getur tryggt trúnað um upplýsingarnar.

Í reglugerð er svo nánar skilgreint hvenær upplýsingarnar séu orðnar nægjanlega „tilgreindar“ og „nákvæmar“ þannig að þær teljist innherjaupplýsingar. Litið er svo á að ef hægt er með réttu að draga ályktun um möguleg áhrif á verð þá séu skilyrðin uppfyllt.

Dómsmál Icelandair

Sem dæmi um hvernig þessar reglur virka má nefna að árið 2012 átti Icelandair í viðræðum við flugvélaframleiðendur um stóra pöntun á nýjum vélum. Enginn vafi var á því að um stórtíðindi væri að ræða þegar viðskiptin yrðu endanleg enda fjárfestingin í öllum skilningi stór. Það kemur á móti að ýmsir höfðu bollalagt um væntanlega endurnýjun og einnig hafði félagið jafnan á undanliðnum misserum skýrt frá því að stefnt væri að stækkun flotans.

Icelandair ræddi jöfnum höndum við Boeing og Airbus þetta ár og smám saman komst mynd á væntanleg viðskipti. Í tilkynningu 6. desember 2012 var opinberlega skýrt frá viðskiptunum.

Fjármálaeftirlitið sektaði Icelandair fyrir að hafa skýrt of seint frá. Það taldi að a.m.k. þremur dögum áður en endanleg ákvörð­ un var tekin – og tilkynnt – hefði málið verið komið á það stig að skylt væri að tilkynna. Nánar tiltekið var það þannig að á stjórnarfundi hinn 3. desember 2012 hafði stjórnin samþykkt að ganga til „lokasamningaviðræðna“ við Boeing eða Airbus á grunni tiltekins tilboðs. Fjármálaeftirlitið taldi að þar með hefði legið fyrir ákvörðun í meginatriðum um tiltekna fjárfestingu og allar líkur bentu til að hún gengi eftir. Því hafi verið til staðar innherjaupplýsingar sem annaðhvort bar að birta samstundis eða beita áðurnefndri heimild til að fresta birtingu. Hvorugt var gert.

FME sýknað

Þetta mál fór fyrir dómstóla. Fjármálaeftirlitið var sýknað af kröfum Icelandair í héraðsdómi um ógildingu sektarinnar, og þeim dómi var ekki áfrýjað.

Í dómnum segir að upplýsingar um væntanleg áform Icelandair hafi verið almenns eðlis sem ekki væri unnt að jafna til þeirrar vitneskju sem lá fyrir innan fyrirtækisins 3. desember 2012. Þá sé ekki hægt að túlka ákvæði laga um verðbréfaviðskipti þannig að upplýsingar þurfi að vera orðnar endanlegar til að geta verið verð­ mótandi.

Einnig var það talið mæla með lagatúlkun Fjármálaeftirlitsins að lög kváðu beinlínis á um að heimilt væri fyrir fyrirtæki að fresta birtingu ef sérstakar ástæður væru til slíks, og þá gripið til sérstakra aðgerða í leiðinni. Rétt er að vekja athygli á því að slíka frestun er nú skylt að tilkynna til Fjármálaeftirlitsins.

Héraðsdóminn, sem féll hinn 10. júní 2015, er að finna á heimasíðu dómstólanna (http:// domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=E201402470&Dom ­ ur=2&type=1&Serial=1). Hann er til leiðbeiningar um rétta framkvæmd á reglum um tilkynningarskyldu.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.