*

miðvikudagur, 22. maí 2019
Týr
12. október 2018 14:10

Hver blekkti?

Þetta var með öðrum orðum pólitísk ákvörðun, áhættusamt veðmál, sem hefði skipt sköpum ef það hefði lukkast. En það gerði það ekki og eftir situr spurningin: Hver blekkti Geir?

Geir H. Haarde.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Viðtalið við Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sem birt var í hrundagskrá RÚV, vakti nokkra athygli, ekki síst fyrir þau orð hans varðandi örvæntingarlánið mikla til KB banka, að hann hafi verið beittur blekkingum varðandi það. Þau orð þarfnast frekari skýringa.

                                                                ***

Fyrir liggur, að nokkrum dögum fyrir hrun höfðu ráðgjafar ríkisstjórnarinnar frá J.P. Morgan sagt að engum stóru bankanna þriggja yrði bjargað úr því sem komið var. Menn þyrftu einfaldlega að verja þau vígi, sem verja mætti, viðhalda greiðsluog peningakerfi landsins, einangra ríkissjóð frá vandanum og gera ráðstafanir þær, sem birtust í neyðarlögunum nokkrum dögum síðar.

                                                                ***

Jafnframt er vitað að ýmsir aðrir höfðu varað við því að veita þetta risalán, bæði aðilar á markaði, en kannski þó ekki síst Seðlabanki Íslands, sem hafði miklar efasemdir um að lánið hrykki til þess að halda KB á floti og enn meiri efasemdir um að hann gæti endurgreitt það. Þetta þekkja menn af hinu fræga símtali Geirs við Davíð Oddsson og eins að Seðlabankinn lét sig hafa það að veita lánið fyrir tilmæli forsætisráðherra (og tryggt allsherjarveð í dönskum banka, þó Már Guðmundsson, síðar Seðlabankastjóri, hafi forklúðrað því). Þetta hafði raunar komið fram allnokkru áður, án þess að margir virðist hafa áttað sig á því, en Ármann Þorvaldsson gat þess í bók sinni Ævintýraeyjan: uppgangur og endalok fjármálaveldis, að Seðlabankinn hefði veitt lánið fyrir þrýsting frá forsætisráðherra.

                                                                ***

Þetta var með öðrum orðum pólitísk ákvörðun, áhættusamt veðmál, sem hefði skipt sköpum ef það hefði lukkast. En það gerði það ekki og eftir situr spurningin: Hver blekkti Geir?

                                                                ***

Þó svo að KB-menn hafi vafalaust haft mikinn sannfæringarkraft, þá verður því vart trúað að Geir – grandvar og varfærinn, hvorki hrifnæmur maður né hvatvís – hafi tekið ákvörðunina einn síns liðs, aðeins fyrir þeirra orð og það gegn vantrú og varnaðarorðum Seðlabankans, J.P. Morgan og fleiri. Þetta er sennilegast stærsta spurningin, sem stendur út af í uppgjöri hrunsins. Kannski Geir hafi ekki verið blekktur, heldur verið haldinn sjálfsblekkingu, en það eru þá mistök. En hafi hann í raun verið blekktur, þá sennilega af póltískum samstarfsmanni, þá skuldar hann þjóðinni svör um hverjum hann treysti svo hrapallega.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim