Nýlega kom út íslensk þýðing bókarinnar Erasmus: Upphefð og andstreymi eftir austurríska rithöfundinn Stefan Zweig. Bókin kom fyrst út árið 1934 og segir frá ævi fræðimannsins og rithöfundarins Erasmusar frá Rotterdam (f. 1466-d. 1536). Erasmus var stórstjarna á sínum tíma og voru verk hans lesin um alla Evrópu. Hans þekktasta verk, Lof heimskunnar, er lesið enn þann dag í dag en það kom út í ágætri íslenskri þýðingu árið 1996.

Erasmus var friðelskandi húmanisti og hann þoldi ekkert minna en ofstæki. Hann mat frelsið ofar öllu öðru og vildi síst af öllu vera öðru fólki, stofnunum eða lífsskoðunum háður. Hann var uppi á miklum umrótatímum í Evrópu en hann var samtíðarmaður Marteins Lúter á tímum siðaskiptanna. Líkt og Lúter deildi hann mjög á venjur kaþólsku kirkjunnar og um tíma virtist sem hann væri skoðanabróðir mótmælenda. Hann vildi framar öllu koma í veg fyrir klofning kirkjunnar þar sem hann sá fram á stjórnmálalegur og trúarlegur glundroði myndi fylgja í kjölfarið. Hann þverneitaði alla tíð að taka afstöðu með eða á móti annaðhvort kaþólsku kirkjunni eða Lúter. Hann átti meira að segja í tíðum bréfaskriftum við mótmælendahöfðingjann þar sem hann bæði hrósaði honum og lastaði fyrir kenningar hans. Með afstöðuleysi sínu uppskar hann andstöðu bæði trúbræðra sinna og mótmælenda og lifði í einangrun fram til dauðadags.

Bókin er skrifuð af miklum tilfinningaþunga og það er líklega engin tilviljun að hún hafi komið út á svipuðum tíma og Adolf Hitler komst til valda í Þýskalandi. Boðskapur Erasmusar um frið, sameinaða Evrópu og andstöðu hans við allt ofstæki og flokkadrætti átti sérstaklega vel við á þessum umrótartímum í Evrópu. Mér finnst það sama gilda í dag, þótt ég vilji ekki líkja Donald Trump við Hitler eða mögulegri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu við siðaskiptin. Erasmus lagði fyrst og fremst áherslu á að öll upplýst umræða ætti að grundvallast á virðingu fyrir náunganum og auðmýkt fyrir Guði. Það virðist samt sem svo að hin erasmíska hugsjón eigi alltaf erfitt uppdráttar, sérstaklega á umbrotatímum. Þegar upp var staðið var afstöðuleysi hans hvergi nærri jafn kröftugt og hörð mótstaða Marteins Lúter við kaþólsku kirkjuna. Vonandi gefur heimurinn einn daginn af sér einhvers konar friðelskandi blöndu af þeim tveimur en þangað til er hægt að láta drauminn um erasmíska Evrópu lifa áfram.

Pistill Kára birtist í Viðskiptablaðinu 23. mars síðastliðinn.