*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Heiðrún Lind Marteinsdót
8. febrúar 2019 15:01

Hverjir tryggja byggð?

„Staðreyndin er sú að fiskeldi á Vestfjörðum hefur veitt raunverulega viðspyrnu og fólki fjölgar á svæðinu.“

Haraldur Guðjónsson

Flest viljum við að líkindum að byggð haldist blómleg um land allt. Svokölluð byggðastefna er jafnframt vinsælt orð í umræðu stjórnmálanna. Samkvæmt lögum um Byggðastofnun er byggðastefnu ætlað að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu.

Hefur þetta tekist? Svarið er sennilega nei. Í öllu falli stórfjölgar íbúum á höfuðborgarsvæðinu en sömu sögu er ekki hægt að segja af þróuninni á landsbyggðinni. Hefur þó ýmislegt verið reynt til að spyrna við fæti með misgóðum árangri. Stundum alls engum.

Byggðastofnun gaf út skýrslu á dögunum um hagvöxt landshluta frá árinu 2008 til ársins 2016. Þar kemur fram að meðalaldur íbúa í Ísafjarðarkaupstað hækkaði á tímabilinu um 3 ár og er svipaða sögu að segja um aðra staði á norðanverðum Vestfjörðum. Öðru máli gegnir um sunnanverða Vestfirði: „Meðalaldur er mun lægri á sunnanverðum Vestfjörðum, þar sem viðsnúningur hefur orðið, en þar fækkaði ungu fólki stöðugt fyrir nokkrum árum. Uppbygging í fiskeldi á stærstan þátt í breytingunni."

Frá árinu 2008 til ársins 2017 jukust atvinnutekjur á Vestfjörðum um 7,3% að raunvirði, talsvert minna en að jafnaði í öðrum landshlutum. Langstærstan hluta aukningarinnar, eða um 65%, má rekja til fiskeldis. Ef það hefði ekki komið til, hefðu atvinnutekjurnar á Vestfjörðum einungis aukist um tæp 2,6%. Eru þá ótalin umtalsverð áhrif fiskeldis á afleidd störf.

Staðreyndin er sú að fiskeldi á Vestfjörðum hefur veitt raunverulega viðspyrnu og fólki fjölgar á svæðinu. Ekki síst er það jákvætt fyrir þær sakir að um fjárfestingar einkaaðila er að ræða, en ekki ölmusu ríkisins. Þeir sem í raun og sanni vilja að hér haldist blómleg og sjálfbær byggð um land allt ættu að taka þessu fagnandi.

Höfundur er framkvæmdastjóri SFS.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim