Ég velti fyrir mér hvort íslenskir frumkvöðlar, búsettir á Íslandi, eigi nokkurn séns í stórsigra á bandaríska vísu þegar ég sá frétt um að bandarísk vefsíða sem finnur hagstæðasta verð á flugleiðum hafi verið seld fyrir 230 milljarða íslenskra króna. Þetta fyrirtæki er athyglisvert fyrir Íslendinga því það er mjög sambærilegt jafngömlu íslensku fyrirtæki sem er enn í sprotafasanum. Af hverju syndir annað fyrirtækið í peningum en hitt ekki? Hefðu Íslendingarnir getað verið í sömu stöðu?

Árið 2004 fengu (a.m.k.) tveir hópar frumkvöðla hugmyndina að viðskiptatækifæri fælist í því að erfitt var að finna hagstæðasta verð á flugmiðum. Báðir hóparnir tóku sig til og smíðuðu sérhæfða leitarvél sem fann besta verðið á flugleiðum.

Annað fyrirtækið, DoHop, var stofnað á Íslandi af vel menntuðum fyrrum forstjóra tölvufyrirtækis. Hitt fyrirtækið, Kayak, var stofnað í Bandaríkjunum og leitt af vel menntuðum sérfræðingi úr netferðageiranum. Árið 2007 seldi íslenska fyrirtækið umtalsverðan hlut til sambærilegs bresks fyrirtækis og á sama tíma nældi hið ameríska sér í 196 milljónir dollara meðal bandarískra áhættufjárfesta.

Árið 2010 fengum við fréttir af yfir tvöföldun tekna hins íslenska DoHop og litlu síðar af 50 milljóna dollara frumútboði Kayak á Nasdaq.

Nýjustu fréttirnar af DoHop voru af tilnefningu til asískra vefverðlauna og samningi um þróun og rekstur flugleitar fyrir vef flugvallar í Mílanó. Nýjustu fréttir af Kayak eru áðurnefnd sala 100 manna fyrirtækisins á 230 milljarða íslenskra króna til Priceline. com.

Er hátt verðmat á Kayak staðfesting á virðissköpun í þessari grein og þá vísbending um að önnur fyrirtæki í geiranum megi innan tíðar eiga von á háu söluverði eða þýðir þetta að hið íslenska DoHop og önnur flugleitarfyrirtæki (t.d. hið danska Momondo) munu þurfa að leita sigranna annars staðar en í flugferðasamanburði? Vonandi sjáum við DoHop vinna stóra sigra í framtíðinni en ljóst er að á Kayak og samkeppnisaðilunum er mikill munur. Þrátt fyrir svipaða vöru var DoHop frá upphafi að keppa í annarri deild en Kayak og ætti því að vera með allt önnur og hógværari markmið.

Í hópi stofnenda Kayak var samankomin gríðarleg þekking á markaðsmálum og frá fyrsta degi lagði Kayak fyrst og fremst áherslu á sölu og markaðsmál. Ímyndin var mikilvægari en varan – og þó varan væri ekki endilega betri en aðrar sambærilegar vörur var stóri munurinn á Kayak og öðrum að mögulegir viðskiptavinir vissu af Kayak en ekki af öðrum (betri) flugleitarvélum.

Kayak kom fyrst upp í huga (bandarískra) notenda þegar þeir veltu fyrir sér flugmiðaleit og þar með var hálfur sigur unninn. Stofnendur Kayak bjuggu jafnframt yfir mikilli þekkingu á flugmarkaðinum í Bandaríkjunum og tengslum eftir að hafa byggt upp netferðaskrifstofurnar Orbitz, Travelocity og Expedia áður en þeir stofnuðu Kayak. Sú reynsla tryggði að virtir áhættufjárfestar eins og Sequoia Capital og General Catalyst Partners (aðaleigandi CCP) töldu þá rétta hópinn til að breyta snjallri viðskiptahugmynd í farsælt fyrirtæki.

Ég held að dýrmætasti lærdómur íslenskra frumkvöðla af árangri Kayak sé að árangurinn byggir á ótal mörgu öðru en góðri vöru. Það þarf að tryggja að viðskiptavinurinn viti af vörunni, réttu fjárfestarnir þurfa að vita af fyrirtækinu og trúa að þessi hópur sé sá rétti til að vinna sigra og frumkvöðlarnir þurfa að búa við nálægð við markaðinn til að geta brugðist við breytingum og byggt upp tengsl við þá sem skipta máli.