*

föstudagur, 20. október 2017
Óðinn
11. júlí 2012 14:23

Hvernig væri að prófa kapítalisma?

Bankakerfið í Evrópu hefur staðið á brauðfótum í fimm ár. Leita verður annarra lausna til að koma þeim á réttan kjöl.

Haraldur Guðjónsson

Óðinn fylgdist af athygli með þættinum The Great Euro Crash með Robert Peston í sjónvarpinu í síðustu viku. Það sem helst vakti athygli hans var viðtal við Benoît Coeuré sem á sæti í framkvæmdastjórn Evrópska Seðlabankans. Benoît Coeuré sagði berum orðum það sem Óðinn hafði lengi grunað; evrópska bankakerfið var á barmi hruns síðasta haust og LTRO aðgerðir Evrópska Seðlabankans voru til að afstýra hruni.

* * *

Því er rétt að uppfæra nú talnaefni Óðins um nokkra evrópska banka frá síðasta hausti. Bankarnir sem um ræðir eru enn að meðaltali með lánshæfiseinkunnina A3 frá Moody’s en nær A2 ef Dexia er sleppt en sá banki varð gjaldþrota í annað sinn eftir að þessi umfjöllun átti sér stað, og það þrátt fyrir að hafa verið með lánshæfiseinkunnina A3 og staðist álagspróf Evrópska Seðlabankans með láði aðeins nokkrum vikum fyrir gjaldþrot.

* * *

Ef menn leggja trúnað á mat lánshæfismats fyrirtækjanna, sem Óðinn ætlar að vísu ekki nokkrum manni, þá getur það varla boðað gott að bankar séu nú almennt með svipað lánshæfismat frá Moody’s og Dexia var með skömmu fyrir gjaldþrot. En að allri hótfyndni slepptri, þá er fróðlegt að skoða hvernig bankar, sem að sögn æðstu manna bankamála Evrópu voru við það að hrynja fyrir níu mánuðum, hafa styrkt efnahag sinn.

* * *

Tölurnar draga ekki upp traustvekjandi mynd af ástandinu. Nánast enginn af bönkunum, utan Dexia sem var brotinn upp við björgunina, hefur náð að minnka efnahagsreikning sinn svo neinu nemur. Bankarnir eru því enn mjög stórir sem hlutfall af landsframleiðslu ríkja sinna. Bönkunum hefur heldur ekki tekist að auka eigið fé sitt svo neinu nemur. Ef miðað er við hreint eigið fé bankanna, það er bókfært eigið fé að frádregnum óefnislegum eignum, þá er gírunin nú 30,9 sinnum en var 31,4 sinnum um mitt síðasta ár.

* * *

Þrátt fyrir þessa dökku stöðu vantar þó ekki að nú rétt eins og í fyrra ljóma afkomutilkynningar bankanna af ánægju með eigin árangur og bjartsýni á framtíðina. Það er rétt eins og það hafi alveg farið framhjá stjórnendum þeirra að bankarnir voru á barmi hruns ef marka má afkomutilkynningar þeirra. Þær fjalla heldur ekki um leiðinda smámuni eins og raunverulegt eigið fé heldur leggja áherslu á Core Tier 1 hlutfall sitt, sem er reiknað út frá áhættuvegnum eignum. Það hlutfall er víðast hvað yfir 10% rétt eins og hjá alvöru bönkum.

* * *

Bankarnir gefa síðan flestir út mikla doðranta um samfélagslega ábyrgð sína. Það skýtur til dæmis skökku við á erfiðum tímum að BNP Paribas fjölgaði starfsmönnum úr 3 í 8 í fyrra sem vinna að „samfélagslegri ábyrgð“. BNP birtir hins vegar ekki stærð efnahagsreiknings síns nema á hálfsársfresti og eru því tölur um hann í töflunni frá því um áramót. Og það vantar ekki að bankinn móti sér stefnu um samfélagsmál þrátt fyrir að sinna ekki upplýsingagjöf við fjárfesta. Í bæklingnum um samfélagsábyrgð má t.d. lesa um stefnu bankans gegn loftlagsbreytingum! Einhver kynni að halda að önnur verkefni væru nærtækari og að óstjórn í rekstri bankans sem stjórnendur hans hafa á valdi sínu hefði valdið samfélaginu mun meira tjóni en loftlagsbreytingar, sem stjórnendur bankans hafa ekkert um að segja.

* * *

Til að undirstrika hversu framfarasinnaður banki BNP er, eru síðan myndir af fólki af mismunandi kynþáttum að vinna hjá bankanum og meira að segja einn í hjólastól. Þessar myndir eru að vísu allar teiknaðar þannig að það er erfitt að átta sig á hvort mótífin hafi í raun verið til staðar. Í skýrslunni kemur einnig fram að bankinn leggi sig fram um uppbyggilegar samræður við eftirlitsaðila, sem skýrir auðvitað hvers vegna það er verið að fjölga í þessari deild. Það er vert að rifja upp í því samhengi að BNP beitti sér eindregið gegn kröfum um að eiginfjárhlutfall evrópskra banka yrði hækkað árið 2009 og sagði bankastjórinn að bankinn væri þá þegar svo vel fjármagnaður að það væri óþarfi að geyma meira eiginfé í frystinum.

* * *

Nú kynni einhver að telja að Óðinn geri fullmikið úr vanda bankanna síðastliðið haust þar sem bankarnir áttu einungis við lausafjárvanda að stríða en ekki eiginfjárvanda og að sá lausafjárvandi hafi verið leystur með LTRO. Þessi skýring gengur þó ekki upp. Nú í ágúst eru liðin fimm ár frá því að seðlabankar byrjuðu að veita bönkum lausafjárstuðning. Það er fráleitt að lánveitingar til þrautavara nái til svo langs tíma. Rétt er að rifja upp að upprunalega gekk kenningin um lánveitanda til þrautavara út á að ef tímabundin lausafjárþörf hrjáði vel stæðan banka gæti seðlabanki, ef hann teldi það þjóna tilgangi alls markaðarins, lánað viðkomandi stofnun laust fé gegn traustum veðum og á háum vöxtum.

* * *

Tímabundinn lausafjárskortur er að sjálfsögðu fremur talinn í dögum en árum. Áætlanir Seðlabanka Evrópu, eins og LTRO, hafa seilst neðar en áður hefur þekkst í að sætta sig við slök veð og loks hefur bankinn niðurgreitt vexti fjármálastofnana. Ástæðan fyrir því að vextir bankanna hafa verið niðurgreiddir er að Evrópski Seðlabankinn viðurkennir í raun að vandi bankanna er eiginfjárvandi og er að reyna að endurfjármagna bankana og ríkin með því að bankarnir geta tekið lán hjá Evrópska Seðlabankanum og keypt skuldabréf ríkja sem bera hærri vexti eða eigin skuldabréf og hagnast á vaxtamuninum. Nokkrir evrópskir bankar hafa einmitt tilkynnt um mikinn hagnað að undanförnu vegna kaupa á eigin skuldabréfum, þannig tilkynnti Société Générale fyrr í mánuðinum að bankinn hefði keypt eigin skuldabréf fyrir 1,7 milljarða evra og muni bókfæra 300 milljóna evra hagnað af þeim viðskiptum.

* * *

Þessi veika staða bankakerfis Evrópu sýnir líka hversu fráleitt það er að halda að hægt sé að „snúa hagkerfinu“ í gang með peningaprentun sem miðlað er í gegnum bankakerfið. Bæði vegna þess að bankarnir eru alltof veikir til þess og svo vegna þess — eins og Alþjóðlegi Greiðslumiðlunarbankinn (BIS) varaði við í ársskýrslu sinni — að þá dregur langvarandi stuðningur við banka úr hvata þeirra til að taka til í efnahag sínum. Og það sýnir sig einmitt að evrópskir bankar hafa lítið sem ekkert tekið til í efnahag sínum síðan 2008. Það sem þeir hafa hins vegar gert er að færa sig kerfisbundið yfir í eignir sem eru með lægri áhættuvog í BIS reglum. Það leiðir til þess að verð í þeim eignaflokkum verður hærra en ella (bólumyndun) og að eignasöfn bankanna verða einsleitari, sem aftur eykur kerfisbundna áhættu í bankakerfinu. Sem dæmi um þetta má nefna að efnahagsreikningur Commerzbank stækkaði um 4,4% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en áhættuvegnar eignir bankans minnkuðu um 6,6%. Þannig er bankinn í raun að auka áhættu sína með því að stækka efnahag sinn og þar með gírun eiginfjárins, en með því að velja eignir sínar eftir forskrift reglugerða Evrópusambandsins lætur bankinn líta út fyrir að hann sé að draga úr áhættu. BIS varaði líka við því í ársskýrslu sinni að reiknishald banka sé orðið alltof ógagnsætt og að það sé alveg ljóst að áhættulíkönin sem bankarnir sjálfir smíða til að stýra eiginfjárhlutfalli sínu séu óraunsæ.

* * *

Að lokum mælir það gegn því að dæla fé í gegnum bankana til að koma hagvexti af stað á ný að bankarnir hafa ekki reynst góðir í að ráðstafa fjármunum. Það væri miklu eðlilegra að stefna að því að bankarnir minnkuðu verulega og stærri hluti fjármögnunar færi fram í gegnum beina skuldabréfaútgáfu fyrirtækja og láta markaðnum þannig eftir að meta greiðsluhæfi þeirra fremur en starfsmönnum bankanna. Það mundi líka draga úr valdi lánshæfismatsfyrirtækja, þar sem einkunnir þeirra geta vegið beint inn í áhættulíkön banka, en það hefur sýnt sig að einkunnir lánshæfisfyrirtækja fremur elta en leiða verð á skuldabréfamarkaði.

* * *

Nú hefur verið ljóst í fimm ár að bankakerfi Evrópu er í miklum vanda, haldnir hafa verið neyðarfundir nokkrum sinnum á ári og settar fram ótal áætlanir. Árangurinn er enginn, hvernig væri að reyna eitthvað nýtt? Hvernig væri að prófa kapítalisma?

Skrif Óðins birtust í Viðskiptablaðinu 5. júlí síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild sinni hér að ofan undir liðnum Tölublöð.


Stikkorð: Óðinn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.