Stundum hefur verið sagt að enginn sé í raun dáinn á Íslandi fyrr en Morgunblaðið hefur sagt frá því. Atli Jósefsson, aðjunkt við læknadeild Háskóla Ísland, setti inn sniðuga færslu um þetta í hóp fjölmiðlanörda á Facebook á dögunum. Morgunblaðið, sem tekur hlutverk sitt sem skrásetningarmiðil (e. paper of record) hátíðlega, birtir reglulega fréttir af því þegar mektarfólk í íslensku samfélagi fellur frá.

Atli kvaðst ekki vita hver viðmiðin við markverð fráföll væru, en fyrirsögnin væri mjög stöðluð, hún hæfist á orðinu „andlát“, en svo fylgir nafn hins látna, stundum stöðuheiti. Þessar fregnir birtast iðulega á síðu 2 eða 4, endrum og sinnum aftar, sem kann að vera eilítill mælikvarði á það hversu markverðir menn teljast á ritstjórn Mogga.

Athugasemd Atla beindis að kynferði umfjöllunarefnanna. Honum taldist til, að það sem af væri árinu 2017 hefðu 62 fréttir verið skrifaðar um andlát karla, en 10 fréttir vegna fráfalls kvenna. 86% prósent þeirra væru sumsé um karla, en aðeins 14% um konur. Það þótti honum fremur lýsa 19. aldar viðhorfi en á morgni hinnar 21.

Bjarni Sigtryggsson benti á að skýringin væri einföld, karlaveldið væri að deyja! Það er ekki bara fyndni hjá Bjarna, það er nokkuð til í því. Þessi hlutföll lýsa að miklu leyti liðnum tímum, því mektarbokkar sem nú eru að kveðja saddir lífdaga eru flestir um áttrætt. Þegar það fólk var upp á sitt besta um fertugt árið 1977, var nýbúið að halda kvennafrídaginn, atvinnuþátttaka kvenna um 66% á móti 88% hjá körlum, Jóhanna Sigurðardóttir var ekki kjörin fyrr en ári síðar (fyrsti kvenþingmaður Alþýðuflokksins!), en þá sátu 3 konur á þingi (5%) og konur í stjórnunarstöðum voru fátíðar.

Þannig að því leyti endurspegla andlátsfregnatölur Mogga tíðaranda og stöðu kynjanna fyrr á tíð sjálfsagt ágætlega. En allt á réttri leið og von til þess að fólk deyi í jöfnum hlutföllum á síðum Morgunblaðsins um miðbik aldarinnar. Það er þá eitthvað til þess að hlakka til.

***

Aðeins meira af síðum Morgunblaðsins. Í framhaldi af umfjöllun um mótmæli og ógnanir við heimili fólks upp úr hruni (og fram á síðasta ár) hafa sumir bent á það að fjölmiðlar hafi nánast verið þátttakendur í ýmiss konar mótmælum misserin eftir hrun. Um það hefur svo sem verið fjallað á þessum stað, þó nokkuð sé um liðið.

Fjölmiðlarýnir les gagnrýni á þá framgöngu í Morgunblaðinu, þar sem minnst er beinar útsendingar Ríkisútvarpsins og boðanir á alls kyns mótmæli, hvernig RÚV og fréttamenn á þess vegum hafi ýtt undir lögleysu og skemmdarverk bæði beint og óbeint. Þetta er allt rétt. Fréttamenn voru með hvatningar til fólks um að fjölmenna á tiltekin mótmæli og RÚV útvarpaði í beinni áskorunum frá Austurvelli um persónulega aðför gegn einstaklingum þar sem heimilisfang þeirra var hrópað upp, að ógleymdri árásinni á lögreglustöðina.

Þetta var skammarlegt og RÚV hefur aldrei gert upp þá framgöngu alla. Ekki frekar en aðrir fjölmiðlar, því það bar við á fleiri fjölmiðlum að herhvöt væri komið á framfæri við almenning með beinum og óbeinum hætti. Það var ekki allt jafnfyndið og þegar óreyndur fréttamaður á Stöð 2 útskýrði fyrir skelfdri borgarastéttinni að byltingin væri hafin, þar sem hann þrammaði áleiðis með mótmælendum upp að sjálfstæðishúsinu Valhöll, svo seint sem vorið 2016.

Þannig er rétt að minna á að á sínum tíma mátti lesa óþægilega greinargóða umfjöllun um glæsilega sumarbústaði útrásarvíkinga, þar sem fram kom nákvæm staðarákvörðun. Og hvar gátu menn lesið um það allt? Nema í Morgunblaðinu, sem þá var að vísu undir annarri ritstjórn og eignarhaldið óljóst.

***

DV birti lítinn mannlífsmola liðinn föstudag undir fyrirsögninni „Tengdadóttir Steingríms aðstoðar Katrínu“, en þar segir af þeim Bergþóru Benediktsdóttur, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni þingforseta.

Fjölmiðlarýnir sá að einhverjir nenntu að móðgast vegna þessa, fannst Bergþóra á einhvern hátt smættuð, að með fréttinni væri henni ekki ætlaðir neinir mannkostir umfram mægðir við Steingrím. Í þessarri frétt hafi nánast ekkert komið fram um feril hennar, í fyrirsögninni hefði átt að vera nafn hennar fremur en þessi fjölskyldutengsl o.s.frv.

Þessi gagnrýni er vafalaust sett fram af hinum bestu hvötum, en fullkomlega á misskilningi byggð. Fyrir það fyrsta er þetta ekki frétt um ráðningu Bergþóru, sú frétt hafði verið sögð á mánudeginum og starfsferill hennar tíundaður nokkuð nákvæmlega, auk pólitískra starfa. En ekki múkk um Grím eða son hans.

Mannlífsmoli DV var nákvæmlega það, forvitnilegur moli um hið mannlega. Það er vitaskuld sérstakur íslenskur siður að ættfæra fólk og rekja tengingar á borð við þessa, eins og hér var gert. Ekkert að því og sennilega var þessu moli bæði áhugaverðari og meira lesinn en þurra, opinbera fréttatilkynningin með námsgráðunum og starfsferlinum.

Raunar má kannski fremur finna að því að á þessa tengingu hafi ekki verið minnst í upphaflegu fréttinni.

Mægðir og skyldleiki er engin nýlunda í stjórnmálum, spyrjið bara Jared Kushner. Að ekki sé minnst á ættarveldi á borð við Kennedy-hyskið, Clintona og Bushara. Eða Helle Thorning Schmidt og Kinnocka. Auðvitað er sagt frá þvi öllu. En ekki hvað?

Það eru ekki aðeins áhugaverðar staðreyndir sem eiga erindi við almenning, það er góð fréttamennska.

Fréttir eiga að fjalla um hið mannlega eins og kostur er. Um menn frekar en dauða hluti.

Því miður er hitt allt of algengt, að fréttir séu dauflegar og dauðhreinsaðar skýrslur. Sumpart er það vegna þess útbreidda misskilnings, að fáskiptni sé til marks um hlutlausan, sanngjarnan og yfirvegaðan fréttaflutning. En einnig að nokkru leyti vegna þess hve mikið af fréttum eru unnar upp úr fréttatilkynningum, lögregluskýrslum, stofnanastagli eða ámóta. Þar er endalaust fjallað um aðila en ekki fólk, vilja stofnana og fyrirtækja líkt og mannshönd og -hugur hafi hvergi komið nærri. Jafnvel í löggufréttunum aka menn ekki á aðra, heldur eru einverjar andskotans bifreiðir að lenda í árekstrum.

Þetta gengur ekki. Við lifum í mannheimum.