Stundum veit ég ekki hvað mér á að finnast þegar stjórnmálamenn leggja fram tillögur að lausnum við vandamálum samtímans. Sumar þeirra eru svo galnar að það er erfitt að átta sig á því hvort þær séu lagðar fram af alvöru.

Dæmin eru mörg, en nýlegt dæmi var þegar Katrín Jakobsdóttir stakk upp á því í grein í Fréttablaðinu að til að „laga“ stöðu leigjenda ætti að setja þak á leiguverð. Hlutlæg og yfirveguð skoðun á raunveruleikanum hefði sýnt Katrínu að hátt leiguverð stafar af skorti á íbúðarhúsnæði, sem leiðir af sér hátt fasteignaverð (sem aftur stafar af inngripum stjórnmálamanna á byggingarmarkaði). Þak á leiguverð, sem býr til enn meiri skort, gerir auðvitað ekkert til að létta undir með leigjendum heldur þvert á móti. Hér er ég ekki að lýsa skoðun minni, heldur er ég bara að benda á staðreyndirnar eins og þær eru.

Vissi Katrín ekki betur þegar hún lagði tillöguna fram eða var tilgangurinn að búa til pólitíska fléttu í þágu eigin hagsmuna? Ég velti þessu í alvöru fyrir mér og er forvitinn að vita hvert rétta svarið er. Ef fyrri skýringin er rétt, þá var tillagan heimskuleg, en ef það er sú síðari, þá var hún óheiðarleg. Í báðum tilfellum er hún siðferðislega röng.

Svona vinnubrögð, ef þannig má að orði komast, einskorðast auð- vitað ekki bara við þessa tillögu Katrínar þó að dæmið sé nærtækt. Lagasetning og aðrar aðgerðir í krafti pólitísks valds mega ekki bara snúast um að ná endurkjöri, því þær geta þær haft raunveruleg, langvarandi og teljandi áhrif á líf fólks. Oft til verri vegar.

Það er heldur alls ekki nóg, og í raun siðferðislega óverjandi, að berjast fyrir málum þegar menn hafa ekki einu sinni hugmynd um hverjar afleiðingar þeirra eru. Það verður að skoða mál og afleiðingar þeirra vel áður en valdinu er beitt.