Það er staðreynd að á fjórum árum hefur markaðsvirði Icelandair Group hf. (ICEAIR) tífaldast að raunvirði og staðvirt VH-hlutfall tæplega fjórfaldast. Á fjögurra ára tímabili náði Kaupþing banki hf. (KAUP) að áttfaldast að raunvirði en VH-hlutfallið lækkaði um helming.

Þegar kemur að því að meta væntanlega breytingu á eignaverði eru til margvíslegir mælikvarðar. VH-hlutfallið (e. Priceearnings ratio) er til dæmis notað fyrir hlutabréf. Í bók sinni Irrational Exuberance skilgreinir Robert J. Shiller það sem hversu dýr fyrirtæki eru í hlutfalli við getu þeirra til að skila hagnaði. Það skal tekið fram að nefnarinn (hagnaður) í hlutfallinu er sögulegur á meðan teljarinn (verðið) inniheldur væntingar.

Sá atvinnugeiri sem hefur fengið jákvæða athygli síðustu árin tengist ferðaþjónustu. Jákvæðar væntingar leyna sér ekki á hlutabréfamarkaðinum og þá einna helst í ICEAIR. Samkvæmt kynningu félagsins á síðastliðnum fjórða ársfjórðungi hefur farþegum hjá félaginu fjölgað um 76% frá árinu 2010 til 2014 og hagnaður aukist um 45% að raunvirði. Á sama tíma hefur markaðsvirði félagsins tæplega tífaldast að raunvirði.

Frá því hlutafjárútboð félagsins fór fram í lok árs 2010 hefur VH-hlutfall félagsins hækkað um 250% að raunvirði (440% ef eingöngu er horft á raunbreytingu frá 3. janúar 2011 til síðastliðins þriðjudags). Hlutfallið var 14 miðað við dagslokaverð síðastliðinn þriðjudag. Það fer þó fjarri að það sé hæst í tilfelli ICEAIR og má þar nefna til dæmis Marel hf. með 21 og Össur hf. með 31 samkvæmt KODIAK Excel.

Sýnir sagan sambærilega þróun fyrir atvinnugeira sem miklar væntingar voru gerðar til? Fyrir félag sem lengst af virtist engin takmörk sett?

Það er óvænt hversu lík þróun raunmarkaðsvirðis KAUP frá byrjun árs 2004 til júlí 2007 er þróun ICEAIR frá 2011 til júlí 2014. Leiðrétt fyrir breytingu vísitölu neysluverðs hækkar virði KAUP áttfalt á þessum 883 viðskiptadögum og ICEAIR rúmlega sexfaldast. Í framhaldinu tekur að halla undir fæti hjá KAUP á meðan ICEAIR tekur flugið. Línurit af þróuninni má nálgast á hi.is/~boo4 .

Raunþróun VH-hlutfallsins er ólík milli félaganna. Hjá KAUP fer hlutfallið úr 14 í upphafi árs 2004 niður í um 9 í júlí 2007 og helst nálægt því þar til Fjármálaeftirlitið tekur yfir rekstur félagsins. Frá upphafi árs 2011 fer hlutfallið hjá ICEAIR úr 4 í 12 í júlí 2014. Þaðan hefur hlutfallið svo haldið áfram að hækka og virðist ekkert lát á.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.