Það er rangt hjá undirrituðum að skilgreina lífeyrissjóði sem einn og sama fjárfestinn – jafnvel þótt þeir virðast samstíga, samanber til dæmis svokölluð Avens viðskipti í maí árið 2010. Líkt og fjallað var um í Úr höllinni síðastlið- inn fimmtudag að þótt samtals eign þeirra hafi rokið í 50% af skráðum hlutabréfum er staðan ekki jafndreifð. Til dæmis sýna vikulegar hluthafaupplýsingar KODIAK Excel að beinn eignarhlutur sjóðanna í Icelandair Group var samtals 46% síðastliðinn fimmtudag en þar af átti Lífeyrissjóður verzlunarmanna 14,7%, Gildi lífeyrissjóður 6,5% og svo koll af kolli.

Líkt og fjallað var um hér í síðustu viku getur talist rökrétt að stigminnka stöðu – með það að markmiði að auka neikvæða vænta fylgni milli staka og draga úr seljanleikaáhættu. Jafnvel þótt grunnatriði skráðra félaga séu ákjósanleg og efnahagshorfur bjartar (sjá meðal annars töflu aftast í riti Hagstofunnar frá hlaupársdegi um þjóðhagsspá).

Hvernig eiga þeir að minnka hlut sinn um til dæmis 20%? Geta efnahagsgeirar tekið á móti slíku magni – rúmum 100 mö.kr.? Líkt og myndin sýnir hefur þróun hlutabréfaeignar sem hlutfall af heildareign verið ólík milli geira frá árinu 2004. Samkvæmt fjármálareikningum Hagstofunnar nam bein eign heimila í hlutabréfum 1% af heildareign í árslok 2014 samanborið við 10% í árslok 2004. Hlutfall atvinnufyrirtækja er lægra en fyrir tíu árum eða 35% árið 2014 samanborið við 58%. Það skal tekið fram að tölurnar innihalda eign í óskráðum og erlendum hlutabréfum. Þrátt fyrir það má draga þá ályktun að þessir tveir geirar hafi svigrúm til aukinnar hlutabréfaeignar. Hvað aðgerðina sjálfa varð- ar koma að minnsta kosti fjórir praktískir möguleikar til greina. Hér er gerð stuttlega grein fyrir tveimur þeirra.

i) Beinn markaðsaðgangur (e. sponsored access) í Kauphöll Íslands þannig að kauphallaraðilar sjá ekki aðgerðir þeirra. Til þess að valda sem minnstu kurri gæti salan einungis verið á „uptick“. Hvað dýpt á markaðinum varðar hefur samkvæmt KODIAK Excel frá árinu 2009 miðgildi magns (e. volume) á hver viðskipti verið um 14% hærra í ársfjórðungi þar sem Heildarvirðisvísitala Aðallista (OMXIGI) lækkaði.

ii) Skrifa samhliða sölunni ódýra tólf mánaða ATM-sölurétti á seljanlegustu bréfin með þóknun nærri 11% af markaðsvirði til að lýsa yfir lágmarks áhættu fyrir kaupendur. Fyrir sjóðina yrði um högnun að ræða þar sem ástæðan fyrir mikilli stöðu í skráðum hlutabréfum er að verðlagning er ákjósanleg. Vandinn er að í eðli sínu eru lífeyrissjóðir nánast eingöngu langir sjóð- ir. Rökstuðningur aðgerðarinnar þyrfti að uppfylla orðanna hljóðan lífeyrissjóðalaga um að samningarnir dragi úr áhættu sjóðanna.

© vb.is (vb.is)