Því miður er það manneskjunni eðlislægt að hugsa í staðalmyndum og láta fordóma ráða för í stað yfirvegaðrar rökhugsunar. Eins er afar ríkt í allt of mörgum að líta á viðskipti og auðsöfnun sem leik þar sem einn tapar þegar annar hagnast. Því er mjög algengt að fólk telji að auðugir einstaklingar hljóti að vera illa innrættir, því annars hefðu þeir varla orðið svo efnaðir. Enginn geti haft efni á lúxusbíl, sem ekki hafi – á einhvern óráðinn hátt – brotið á öðrum einstaklingum.

* * *

Þessi ímynd af vonda ríka kallinum er ævaforn og vissulega eru mörg dæmi í sögunni um menn sem uppfylla öll helstu einkenni hennar. Crassus, sem rak einkarekið slökkvilið í Rómaveldi og neitaði að slökkva elda í húsum nema eigandinn seldi honum eignina fyrst, er gott dæmi um þetta. Siðferðilegu jafnvægi var svo komið á þegar Crassus féll í orrustu við veldi Parþa og var, samkvæmt sumum frásögnum, látinn drekka bráðið gull.

* * *

Það féll því afar vel að fordómum margra þegar Dacher Keltner, prófessor í sálfræði við Berkeley háskóla í Kalíforníu, birti nið¬ urstöður rannsóknar á meintu innræti fólks í samhengi við veraldlegan auð þess. Hugmyndina fékk hann þegar hann var að hjóla í vinnuna og stór svartur Mercedes Benz var nærri því búinn að keyra hann niður. Leit Keltner svo á að ökumaður Benzins hefði í raun alveg verið til í að keyra yfir hann, en hafi hugsanlega litið svo á að því myndi fylgja aðeins of mikil vandræði til að það borgaði sig.

* * *

Ökuhegðun ríka fólksins

Gerði Keltner fjölda nemenda út af örkinni og lét hann þá fylgjast með hegðun bílstjóra og skrá niður bíltegundir þeirra. Niðurstaðan var skýr og sláandi. Eftir því sem bílarnir voru dýrari því líklegri voru ökumennirnir til að hegða sér illa. Svínuðu þeir á aðra ökumenn, sinntu ekki biðeða stöðvunarskyldu og brutu almennt fleiri umferðarreglur en þeir sem keyrðu um á hóflega verðlögðum ökutækjum.

* * *

Keltner gerði fleiri tilraunir og allar skiluðu þær sömu nið¬ urstöðu. Eftir því sem fólk upplifði sjálft sig sem valdameira því minni varð samkennd þess með öðrum einstaklingum. Nið¬ urstöður Keltners voru birtar í hinu virta tímariti Journal of Personality and Social Psychology og rímuðu þær vel við eldri rannsóknir. Sumar þeirra bentu hreinlega til þess að í efstu lögum hvers samfélags væru einstaklingar sem ekki eingöngu skorti samkennd með samborgurum sínum, heldur væru jafnvel ekki heilir á geði.

* * *

Vald spillir og fullkomið vald spillir fullkomlega, sagði Acton lávarður, og sálfræðingarnir töldu sig hafa sannað þessa fullyrðingu hans.

* * *

Eða hvað?

Þrír evrópskir fræðimenn, þeir Martin Korndörfer, Stefan Schmukle og Boris Egloff, lásu grein Keltners og vildu halda rannsóknunum áfram. Þeir höfðu aðgang að gríðarstórum þýskum gagnagrunni um hegð¬ un og efnahagslega stöðu fólks og töldu áhugavert að skoða hvort hægt væri að finna nið¬ urstöðum Keltners frekari stoð í þeim. Það kom þeim því mjög á óvart að þegar þeir skoðuðu tölurnar þá kom hið þveröfuga í ljós. Samkvæmt þýsku gögnunum voru efnameiri og valdameiri einstaklingar líklegri til að gefa til góðgerðamála og gáfu hlutfallslega hærri fjárhæðir. Þá voru þeir líklegri til að vinna sjálfboðavinnu, líklegri til að hjálpa ókunnugu fólki í vanda og meir að segja líklegri til að hjálpa nᬠgrannanum að finna týndan kött.

* * *

Rannsókn þremenninganna hófst árið 2010. Þeir töldu, í einfeldni sinni – eins og Egloff lýsir sjálfur í samtali við Economist – að kollegar þeirra í fræðasamfélaginu hefðu áhuga á niðurstöðunum. Sendu þeir því drög að grein til Journal of Personality and Social Psychology í von um að hún fengist birt. Henni var hins vegar hafnað. Þeir voru svo bláeygir að þeir töldu að með því að vinna frekar að greininni og bæta við fleiri gagnasöfnum, þar á meðal söfnum frá Bandaríkjunum, yrði hún. Niðurstaðan var sú sama, greinin var skrifuð og aftur var henni hafnað.

* * *

„Ég er ekki ríkur. Fjölskylda mín er ekki rík. Vinir mínir eru ekki ríkir. Við höfum ekki fengið neitt greitt frá neinum fyrir að gera þessa rannsókn,“ segir Egloff í samtali við Economist. „Pers¬ ónulega hefði ég viljað staðfesta niðurstöður fræðimannanna í Berkeley. Það hefði rímað betur við mínar persónulegu og pólitísku skoðanir.“ Hann geti hins vegar ekki, sem vísindamaður, hunsað þær niðurstöður sem hans rannsóknir leiddu í ljós. Hann segir að reynsla hans af rannsókninni og viðbrögðum kollega hans hafi verið svo neikvæð að hann muni aldrei aftur stunda rannsóknir á þessu sviði. Látum liggja á milli hluta hvort Keltner eða Egloff hafi rétt fyrir sér. Reyndar þekkir Óðinn gott fólk og slæmt í öllum tekjuhópum, en það er engin forsenda til að slengja fram alhæfingum í aðra hvora áttina. Það sem skiptir máli í þessu sambandi eru við¬ brögðin sem greinarnar tvær fengu hjá tímaritinu og í fræðasamfélaginu. Önnur niðurstað¬ an féll vel að fordómum fólks á vinstri kantinum í garð hinna efnameiri og fékkst hún birt. Hin greinin var í þveröfuga átt og fékkst ekki birt.

* * *

Fordómar og ónákvæmni

Vandi félagsvísinda almennt virð¬ ist vera tvíþættur. Annars vegar eru það meðvitaðir og ómeðvitaðir fordómar fræðimannanna í viðkomandi fræðigrein. Í september í fyrra birtu fimm félagsog sálfræðingar grein í Journal of Behavioural and Brain Sciences þar sem þeir færðu fyrir því rök að vinstrislagsíða væri mikil í sálfræðideildum bandarískra háskóla. Það hefði þau áhrif að líf hægrisinnaðra fræðimanna varð erfiðara en ella og þeir áttu erfið¬ ara með að koma sínum sjónarmiðum áleiðis. Bentu þeir á að of mikil einsleitni í fræðasamfélaginu hefði deyfandi áhrif á fræðimennsku almennt og hættulegt væri ef fræðimenn væru of sammála um of marga hluti.

* * *

Hinn stóri vandinn er nákvæmni og endurtakanleiki rannsóknanna sjálfra. Undanfarið ár hafa 270 fræðimenn, undir forystu Brians Nosek, sálfræðiprófessors við Virginíuháskóla, verið að endurtaka 100 mikilvægar og áhrifamiklar rannsóknir á sviði sálfræði. Hugmyndin er sú að ef niðurstöður upphaflegu rannsóknanna eru sannar þá ættu endurtekningar á sömu rannsóknum að leiða til sömu eða svipaðra niðurstaðna. Raunin hefur hins vegar verið sú að að¬ eins hefur tekist að endurtaka rannsókn og niðurstöður í 36% tilvika. Það þýðir að í 64% tilvika var niðurstaða endurteknu tilraunarinnar önnur, eða tölfræðilega ómarktæk.

Skortir auðmýkt?

Allt skiptir þetta máli, sérstaklega þegar fræðin eru notuð í pólitískum tilgangi. Ef það er satt að vinstrimenn séu ráðandi í félagsvísindadeildum háskóla á vesturlöndum, ef það er satt að erfiðara er að birta fræðigreinar sem eru á skjön við lífsskoðanir þessa meiri hluta og ef það er satt að niðurstöður rannsókna – í sálfræði að minnsta kosti – séu handahófskenndari en margur vill viðurkenna, þá verður að skoða fullyrð¬ ingar þessa hóps í öðru ljósi.

* * *

Raunar má segja að þessi saga öll undirstriki mikilvægi þess að fólk nálgist fræði – öll fræði – af meiri auðmýkt. Geta okkar til að skilja alla skapaða hluti er takmörkuð, hvort sem um er að ræða hagkerfi eða sálarlíf mannsins. Það þýðir ekki að við eigum ekki að leggja okkur öll fram um að auka þekkingu mannkynsins á flóknum hlutum, en um leið og við teljum okkur trú um að við höfum fundið einhvern heilagan sannleik og fordæmum þá sem mæla gegn þessum heilagleika þá erum við búin að yfirgefa vísindalega aðferðafræði og farin að taka upp trúarbrögð.