Innkalla og leiðrétta verður öll útgefin verðtryggð húsnæðislán sem eru í fjármálakerfinu þ.e. öll verðtryggð húsnæðislán sem gefin hafa verið út fyrir og eftir 1. nóvember 2007, leiðrétta og setja í sértækt eignarhaldsfélag (e. special purpose vehicle) sem verður vistað og fjármagnað af Seðlabanka Íslands sem Hægri grænir kalla Afskriftasjóð verðtryggðra húsnæðislána.

Hagsmunasamtök heimilanna segja að rúm 80% landsmanna séu hlynnt afnámi verðtryggingar samkvæmt Capacent könnun sem var gerð fyrir samtökin. Þrátt fyrir þetta standa stjórnvöld vörð um verðtrygginguna sem hefur lagst af fullum þunga á skuldsett heimili landsins, á meðan fjármagnseigendur eru varðir að fullu. Hagnaður bankanna er að miklu leyti vegna hækkunar verðtryggðra lána. Staðreyndin er sú að verðtryggð húsnæðislán til heimilanna hafa hækkað um meira en 40% frá 1. nóv. 2007 á meðan það eru eingöngu vextir og engin verðtrygging á húsnæðislánum annars staðar í heiminum. Ekki er líklegt að einhver önnur þjóð í heiminum láti bjóða sér svona fyrirkomulag.

Sérstök neyðarlög

Setja verður sérstök neyðarlög fyrir heimilin og innkalla öll verðtryggð húsnæðislán og skuldbreyta þeim. Þessi kynslóðasátt veitir sanngjarna leiðréttingu á verðtryggðum húnæðislánum almennings og verður vísitalan færð niður á þessum lánum í 278,1 stig sem var vísitala neysluverðs til verðtryggingar 1. nóvember 2007. Öll önnur verðtryggð húsnæðislán sem tekin eru eftir 1. nóvember 2007, verða færð til þess vísitölustigs neysluverðs til verðtryggingar til þess dags sem þau voru tekin. Eftir að öll verðtryggð húsnæðislán verða innkölluð og leiðrétt verður lántökum boðið upp á óverðtryggð húsnæðislán til lengri tíma, í staðinn fyrir þau verðtryggðu. Engir vextir verða endurgreiddir og vaxtabætur hætta að greiðast úr ríkissjóði við skiptin og í framtíðinni. Í Bandaríkjunum bjóða fjármálafyrirtæki nú þegar upp á 50 til 100 ára húsnæðislán. Frá 1995 í Japan og Evrópu hafa húseigendur geta fengið 50 til100 ára húsnæðislán. Má segja að það komist á virkur eignaleigumarkaður með lengri lánunum, sem hefur sárlega vantað á Íslandi. Hægt er að fara milliveginn í þessum efnum og bjóða lengstu óverðtryggðu húsnæðislánin til 75 ára, sem gæti verið í boði hjá fyrirhuguðum Afskriftasjóði verðtryggðra húsnæðislána. Sjá töflu:

Kynslóðasátt — Afskriftasjóðurverðtryggðra húsnæðislána

  • Heildartekjur heimilis eru 700.000 kr. í þessu dæmi.
  • Öll lán eru jafngreiðslulán og höfuðstóll lækkar við hver mánaðarmót.
  • Lán gætu boðið uppá endurskoðun á 5 ára fresti v/breytanlegrar greiðslugetu heimilis.
  • Lengri lánagreiðslur eru sambærilegar og leigutekjur.
  • Sjóðurinn verður kominn í hagnað á níunda ári eða fyrr, miðað við núverandi verðbógumarkmið 2,5%.

Í þessum tillögum Hægri grænna, flokks fólksins, töldum við eðlilegt að miða við lengsta flokkinn RIKB 31 sem eru lengstu óverðtryggðu ríkisskuldabréfin til 31 árs, en vextir á honum eru um + /- 7,40% plús 0,25% álag fyrir rekstrarkostnað sjóðsins. Þessi viðmiðunarflokkur er notaður á allar tímalengdir en leyfa uppgreiðslu gegn gjaldi. Einnig mætti nota lægri vexti fyrir þá sem þurfa félagslega aðstoð, en ef aðilar ákveða að greiða upp lánið í félagslega kerfinu og eignast íbúðina að lokum þá sé greitt sérstakt álag sem er þá endurgreiðsla til ríkisins fyrir aðstoðina.

Höfundur: Guðmundur Franklín Jónsson, viðskiptafræðingur og formaður Hægri grænna, flokks fólksins.

Grein Guðmundar birtist í Viðskiptablaðinu 11. október 2012. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.