*

mánudagur, 19. nóvember 2018
Katrín Jakobsdóttir
7. desember 2017 12:29

Ísland á tímamótum

Það er ekki tilviljun að orðið „nýsköpun“ kemur 18 sinnum fyrir í sáttmála ríkisstjórnarinnar.

Haraldur Guðjónsson

Íslenskt samfélag stendur á tímamótum eftir að hafa tekist á við afleiðingar efnahagshrunsins með góðum árangri. Nú eru forsendur til þess að sækja fram og ráðast í uppbyggingu og umbætur til þess að tryggja að hægt sé að nýta þau tækifæri sem eru til staðar, nú og í framtíðinni.

Við erum í sterkri stöðu til að bæta samfélagið okkar, styrkja innviði og stuðla að jöfnum tækifærum allra, ásamt því að varðveita efnahagslegan stöðugleika og renna stoðum undir samkeppnishæfni landsins til langrar framtíðar, ekki síst með auknum stuðningi við menntun og nýsköpun. Við þurfum að ráðast í raunverulegar aðgerðir í loftslagsmálum þar sem við stefnum að því að gera betur en alþjóðlegar skuldbindingar okkar kveða á um enda er árangur í loftslagsmálum forsenda þess að skapa góð skilyrði fyrir komandi kynslóðir.

Samfélagssáttmálinn

Forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar er að auka velsæld í samfélaginu og bregðast við ákalli um samfélagslega sátt. Það verð­ ur gert með því að styrkja samfélagssáttmálann, efla samneysluna og búa samtímis fyrirtækjum á landsvísu gott umhverfi til áframhaldandi vaxtar og þróunar. Hér á að vera gott samfélag sem hefur sjálfbærni, jöfnuð og velsæld að leiðarljósi.

Forsenda aukinnar velsældar og samfélagslegrar sáttar hér á landi er að unnið verði markvisst að því að tryggja bæði félagslegan og efnahagslegan stöðugleika. Komandi kjarasamningar þurfa að taka mið af þessu til að þeir skili launafólki og samfélaginu öllu raunverulegum ávinningi. Þetta kallar á samstillt átak stjórnvalda og vinnumarkaðarins um að skapa sátt á vinnumarkaði sem byggist á bættum lífskjörum venjulegs fólks, ábyrgum vinnumarkaði og stöðugum og góðum efnahagslegum skilyrðum. Ríkisstjórnin hefur þegar hafið samtal við aðila vinnumarkaðarins um þessi markmið og mun leggja mikla áherslu á þau.

Ný framtíðarnefnd

Fjórða iðnbyltingin er við sjóndeildarhringinn og felur í sér bæði áskoranir og tækifæri. Hún mun fela í sér víðtækar breytingar á menntunar- og hæfniskröfum, vinnumarkaði og kröfum til velferðarkerfisins. Við ætlum að takast á við þessa áskorun með þverpólitískri stefnumótun. Þar má nefna sem dæmi stofnun nýrrar framtíðarnefndar sem fær það verkefni að fjalla um tækifærin og áskoranirnar sem bíða okkar og að meta löggjöf og verkefni bæði til langs tíma og með hliðsjón af breyttum veruleika og þjóðfélagsgerð.

Fjölbreytt og hugvitsdrifið hagkerfi sem getur nýtt sér tækifærin sem framtíðin ber í skauti sér er mikilvæg forsenda samkeppnishæfni Íslands. Það er ekki tilviljun að orðið „nýsköpun“ kemur 18 sinnum fyrir í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Það er til marks um þá skýru stefnu ríkisstjórnarinnar að skapa hér umhverfi sem býður upp á fjölbreytt og þróttmikið atvinnulíf og framúrskarandi aðstæður til nýsköpunar. Við leggjum áherslu á að jafnt rótgrónar sem og nýrri atvinnugreinar og opinber þjónusta hafi leiðir til að efla nýsköpun og þróun á sínum vettvangi, á sama tíma og almenna stoðkerfið verður styrkt. Öflugt menntakerfi er líka lykilforsenda þess að hér takist vel til og því verður ráðist í stórsókn fyrir skólastigin og þeim tryggt fjármagn til að ná markmiðum sínum. Framlög til háskólastigsins munu ná meðaltali OECD-ríkjanna fyrir 2020 og Norðurlandanna fyrir 2025, sem mun skipta sköpum fyrir bæði kennslu og rannsóknir í íslenskum háskólum.

Þróttmikið atvinnulíf

Tímamótin sem Ísland stendur nú á snúast ekki síst um tækifærin sem blasa við okkur. Við getum byggt upp innviði samfélagsins, heilbrigðis- og menntakerfið og samgöngurnar. Við getum viðhaldið jafnvægi í ríkisfjármálum og stutt við þróttmikið atvinnulíf svo það geti nýtt þau tækifæri sem fyrir eru og skapað sér ný. Við getum líka búið í haginn fyrir komandi kynslóðir með metnaðarfullum aðgerðum í loftslagsmálum, breyttum vinnubrögðum og með því að setja okkur langtíma markmið og áætlanir sem lifa af á milli kjörtímabila. Þannig stígum við metnaðarfull skref fyrir samfélagið okkar og aukum velsæld til framtíðar.

Höfundur er forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.