*

föstudagur, 20. október 2017
Óðinn
20. mars 2012 13:40

Íslenska módelið hjá ECB

Er Evrópski Seðlabankinn (ECB) að feta í fótspor þess sem hinn íslenski steig í aðdraganda hrunsins?

Er Evrópski Seðlabankinn (ECB) að feta í fótspor þess sem hinn íslenski steig í aðdraganda hrunsins? Hafa erlendir bankamenn, sem hrifust svo af „dugnaði, áræðni og víkingablóði Íslendinga“ fyrir hrun að þeir lánuðu íslenskum bönkum af fúsum og frjálsum vilja þúsundir milljarða, verið svo uppteknir við að hlæja að mistökum Íslendinga eftir hrun að lærdómarnir af óförum okkar hafa farið framhjá þeim?

* * *

Í síðustu viku fjallaði Óðinn um hvernig efnahagsreikningur Seðlabanka Evrópu er að blása út. Á síðustu tólf mánuðum hefur efnahagsreikningurinn stækkað um 56% sem er fáheyrt og meira en vöxtur íslenska bankakerfisins árið 2007 þegar bankakerfið blés úr 5,4 sinnum verga landsframleiðsli (VLF) í 7,4 sinnum VLF.

Nýjasti vaxtakippurinn hjá ECB er vegna LTRO sem eru veðlán seðlabankans til banka til þriggja ára á 1% vöxtum. Til að bankarnir gátu þegið þessa „lausafjárfyrirgreiðslu“ þurfti ECB að slaka verulega á kröfum sínum um veð. Eins og við fjölluðum um í síðustu viku hefur bankastjóri Seðlabanka Þýskalands það miklar áhyggjur af gæðum veðanna að baki þessum lánum ECB að hann ritaði seðlabankastjóra ECB bréf þar sem hann lýsti áhyggjum sínum og lét síðan leka bréfinu til fjölmiðla.

* * *

Þróunin í Evrópu minnir á einn umtalaðasta og umdeildasta þáttinn í aðdraganda hrunsins hér á landi, ástarbréfaviðskiptin. Eftir að Seðlabanki Íslands slakaði á kröfum um veð í endurhverfum viðskiptum í janúar 2008 til að mæta lausafjárþörf bankanna jukust veðlán um 250-300 milljarða.

Ólíkt evrópska bankanum voru þessi veðlán þó ekki veitt til langs tíma. Seinna um sumarið ákvað ríkissjóður að gefa út stutt skuldabréf til að reyna að liðka fyrir gjaldeyrismarkaðnum. Þessi aðgerð var gagnrýnd þar sem hún dró laust fé frá bönkunum. Þá kom til tals að rýmka enn frekar veðhæfi eigna í endurhverfum viðskiptum banka við Seðlabankann og sagði Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, af því tilefni í viðtali við Viðskiptablaðið 15. júlí 2008: „Hvað neikvæðar hliðarverkanir varðar þá verða menn að skoða sérstaklega hvernig hægt sé að bregðast við þeim. Í því sambandi væri helst vert að athuga hvort hægt sé að fjölga flokkum sem eru gjaldgengir til endurhverfra viðskipta við Seðlabankann.“

* * *

Sem betur fer varð ekki af því, enda tjónið víst nóg samt. Hins vegar hlýtur að vekja furðu að Seðlabanki Evrópu skuli kjósa að feta sömu slóð. Ef litið er til umfangs viðskiptanna þá voru ástarbréfin hjá Seðlabanka Íslands um 18-20% af vergri landsframleiðslu ársins 2008 en LTRO lán ECB eru um 11% af VLF evrusvæðisins árið 2011. Við það bætist síðan að LTRO lánin eru til þriggja ára á mikið niðurgreiddum vöxtum en lán Seðlabankans voru til viku í senn. Samkvæmt útreikningum Óðins í síðustu viku jafngildir vaxtaniðurgreiðslan til bankanna a.m.k. 100 milljörðum evra eða rúmlega 1% af VLF evrusvæðisins. Ef Ísland væri aðili að ECB jafngilti það 17 milljörðum fyrir Ísland. Því hlýtur enn og aftur að vekja furðu að þeir sem helst gagnrýna ástarbréfaviðskipti Seðlabanka Íslands skuli skipa sér fremst í flokk þeirra sem vilja ganga í Evrópusambandið og gerast aðilar að evrusamstarfinu.

* * *

Það þarf kannski ekki að koma svo á óvart að seðlabankar bregðist við líkum vanda með líkum hætti. Eins og sagði í fróðlegri grein um rétttrúnað seðlabankamanna í Peningamálum í árslok 2006: „Seðlabankar njóta meðbyrs nú um stundir þar sem breiðari sátt ríkir meðal fræðimanna um mikilvægi peningastefnu og aðferðir við uppbyggingu líkana til að greina þróun og horfur í peninga- og efnahagsmálum. Seðlabanki Íslands hefur þegar tileinkað sér margt af því sem framfarir síðustu ára hafa lagt áherslu á.“ Það sem kemur hins vegar á óvart er að seðlabankar skuli ekkert hafa lært af reynslu liðinna ár.

* * *

Það er oft sagt að auðvelt sé að vera vitur eftirá. Óðinn er samt ekki svo viss um að það sé rétt eftir að hann fylgdist með vitnaleiðslum í Landsdómi. Þar hafa seðlabankamenn komið fram og gefið upp eftir hvaða ártöl þeir telja að hafi verið ómögulegt að afstýra hruni. Fyrst nefndi Arnór Sighvatsson að ekki hefði verið hægt að bjarga bönkunum eftir árið 2005 og síðan kom Tryggvi Pálsson og bætti um betur og sagði að ef hefði átt að stoppa bankana hefði þurft að gera það árið 2003 eða 2004. Ef Óðinn hefði verið spurður hefði hann sagt að það hefði þurft að stoppa þá við lýðveldisstofnun eða jafnvel þegar paparnir stigu hér á land — svona til að vera viss.

* * *

Fyrir nokkrum árum kom út bókin The Black Swan eftir Nassim Nicholas Taleb. Hún dró nafn sitt af því sem Taleb kallar mjög sjaldgæfa atburði sem enginn býst við. Nafnið er vísun í það að áður en Ástralía uppgötvaðist voru talin sjálfsögð sannindi að allir svanir væru hvítir, enda höfðu menn, aðrir en frumbyggjar Ástralíu, aldrei séð annað en hvíta svani. Hins vegar afsannaði fyrsti svarti svanurinn, sem menn sáu, fullyrðinguna um að allir svanir væru hvítir. Því skipti engu hversu marga hvíta svani menn höfðu séð áður, þeir sönnuðu ekki fullyrðinguna um að allir svanir væru hvítir.

* * *

Svartir svanir eru atburðir sem eru mjög sjaldgæfir en hafa gríðarlega mikil áhrif og breyta viðmiðum, eins og til dæmis árásirnar á Tvíburaturnana 11. september 2001. Taleb bendir á hvað mannshuganum er tamt að fella slíka atburði eftir á inn í skipulegt mynstur þannig að þeir virðast hafa verið augljósir eftir á að hyggja. Dæmi eru um ýmsar kenningar um hvernig hefði mátt sjá árásirnar á Tvíburaturnana fyrir og einnig um skrif margra sem segjast hafa séð fjárkreppuna fyrir. Ein birtingarmynd þessarar eðlislægu eftir-á speki er að sérhver kynslóð telur sig lifa á óvenju miklum óvissutímum.

Sagan og framvinda hennar virðist nefnilega alltaf augljós eftir á að hyggja ef ekki bara löggeng en framtíðin er alltaf hulin óvissu. Þess vegna getur Óðinn vel haldið því fram að það hafi verið ljóst að hér yrði bankahrun ellefuhundruð árum eftir að paparnir stigu á land og það er ekki hægt að afsanna þá fullyrðingu. Fullyrðingin er hins vegar alveg merkingarlaus nema menn trúi því að heimurinn sé löggengur. Vandinn er að spá um framtíðina en ekki að þvinga fortíðina inn í mót fordóma sinna.

* * *

Þess vegna er fróðlegt að skoða praktísk vandamál dagsins í dag út frá eftir-á speki sérfræðinga Seðlabankans. Sérstaklega þar sem það hefur mátt skilja Arnór Sighvatsson þannig að hann sé hallur undir inngöngu í Evrópusambandið. Og skyldi Tryggvi Pálsson telja að „[r]íkjandi aðstæður reyna á viðnámsþrótt bankanna“ í Evrópu? En þessa setningu sagði hann megininntak í viðvörunum Fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans vorið 2008. Hún fór vafalítið ekki framhjá neinum aðdáanda Da Vinci kóðans.

Ef við skoðum íslenska bankakerfið í árslok 2005 þá var það 3,8 sinnum landsframleiðsla, en þegar Tryggvi taldi að það hefði þurft að stöðva bankana 2003 eða 2004 var bankakerfið 1,8 og 2,4 sinnum VLF. Í dag er bankakerfi evrusvæðisins 3,6 VLF svæðisins. Er því við bjargandi? Telja íslenskir aðildarsinnar ásetning stjórnmálamanna evrusvæðisins að halda bankakerfinu gangandi glæpsamlegan? Telja þeir hann skynsamlegan?

* * *

Þegar íslenska bankakerfið er skoðað er jafnframt rétt að hafa í huga að íslensku bankarnir voru í raun eignarhaldsfélög sem áttu banka í mismunandi löndum. Þessir bankar heyrðu svo undir fjármálaeftirlit og seðlabanka viðkomandi landa og eru sumir hverjir enn starfandi í dag þótt eigandi þeirra hafi farið á hausinn. Óðinn reyndi að meta stærð íslenska hluta bankakerfisins í lok árs 2005 út frá ársreikningum bankanna og dótturfélaga þeirra. Þá koma til frádráttar eignir FIH, Singer & Friedlander, Kauþings Lúxemborg, Heritable Bank, Landsbankans Lúxemborg, og í Noregi starfsemi Íslandsbanka. Að teknu tilliti til þessa var íslenski hluti bankakerfisins 1,8 til 2 sinnum verg landsframleiðsla, en þess má síðan geta að innlendur útlánavöxtur ársins 2007 jafngilti nærri allri stærð innlenda hluta bankakerfisins í lok árs 2005.

* * *

Annað sem er vert að skoða er gírunin í evrópska seðlabankanum og þróun hennar. Hún er miklum mun meiri en nokkuð sem við höfum séð á Íslandi fyrir utan Íbúðalánasjóð og Byggðastofnun. Efnahagur Seðlabanka Íslands hefur einnig bólgnað verulega eftir hrun, þar vega þyngst glórulaus gjaldeyrislán bankans, sem eru ekki forði frekar en að yfirdráttur geti kallast sparnaður í heimilisbókhaldi. Þessi lán ásamt gjaldeyrislánum fjármálaráðuneytisins eru talin kosta þjóðina um 30 milljarða á ári, sem jafngildir fjórðungi af vöruskiptajöfnuði landsins.

Lærdómur ECB af hruninu árið 2008 virðist því ekki hafa verið að rifa seglin heldur þvert á móti að gefa í. Við þær kringumstæður er ekki eftirsóknarvert fyrir Íslendinga að taka þátt í evrusamstarfinu. Nær væri að taka upp evruna eða einhverja aðra mynt einhliða. Þar að auki er útilokað að núverandi ríkisstjórn geti leitt samninga til lykta við Evrópusambandið fyrir hönd þjóðarinnar, til þess skortir hana pólitískt umboð. Ríkisstjórnin hefur ekki raunverulegan þingmeirihluta, heldur þarf í sífellu að láta undan kröfum öfgaf lokksins Hreyfingarinnar til að halda lífi. Öfgafullt dæmi um það er hvernig sjálfur forsætisráðherra greiddi atkvæði þvert gegn eigin samvisku í frávísunartillögunni við Landsdómsmálið.

Stikkorð: Óðinn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.