Árið 1997 samþykkti Alþingi lög nr. 75/1997 um samningsveð. Lögin, sem að mörgu leyti áttu sér fyrirmynd í norsku veðlögunum frá 1980, leystu af hólmi löggjöf sem að stofni til var frá 1887.

Eitt af meginmarkmiðum með nýjum veðlögum var, eins og segir í frumvarpi, að laga íslensk veðlög að nútímaatvinnu- og viðskiptaháttum þar sem eldri veðlög þóttu hvorki svara þörfum atvinnuveganna til aukinna veðsetningarheimilda og aðgangi að lánsfé né tryggja lánastofnunum nægjanlegt öryggi við lánveitingar.

Meginstefna núgildandi laga

Að meginstefnu til eru núgildandi veðlög byggð á þeirri grundvallarreglu að ekki skuli stofnað til veðréttinda yfir heildarsafni muna, þ.e. safni eigna án nánari tilgreiningar. Er því ekki unnt að stofna í einu lagi til veðréttinda yfir öllum eignum skuldara eða veðsala. Þó rýmkuðu lögin ýmsar heimildir atvinnulífsins til veðsetningar á heildarsafni lausafjármuna sem notaðir eru í atvinnurekstri.

Hér má nefna rekstrarveð, veð yfir vörubirgðum og veð í færanlegum búnaði í verktakastarfsemi. Auk þess leyfa lögin veðsetningar á almennum fjárkröfum og að stofnað sé til svokallaðs vörureikningsveðs yfir öllum reikningum sem útgefnir eru í atvinnurekstri veðsala. Segja má að rýmkaðar heimildir til veðsetningar á heildarsafni lausafjármuna hafi fyrst og fremst miðast við þarfir atvinnulífsins í landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði og verslun og þá einkum til þess að fjármagna afurðir eða vörubirgðir.

Sannarlega var lögfesting veðlaganna frá 1997 mikil réttarbót enda höfðu þau að geyma samræmdar reglur um stofnun, lok og framsal veðréttinda.

Á þeim rúmu tveimur áratugum sem liðnir eru frá setningu laganna hefur umbylting orðið í atvinnulífi. Bylting í tækni og hugbúnaði hefur leitt til þess að á Íslandi starfa fyrirtæki sem byggja rekstur sinn á sölu og þróun hugbúnaðar eða hvers konar hugverkaréttinda. Til viðbótar hafa breytingar orðið á fjármögnun rekstrar og fjárfestingum þannig að fyrirtæki kjósa í auknum mæli að leigja fasteignir eða lausafé sem nýtt er í rekstri í stað þess að kaupa, eins og meira tíðkaðist áður.

Engin breyting frá 1997

Veðlögin frá 1997 hafa hins vegar hvorki verið endurskoðuð né aðlöguð að þessum breytingum á atvinnulífinu. Hamlar þetta einkum fyrirtækjum sem starfa í nýsköpun eða þeim sem þróa og selja hugverkaréttindi við lánsfjármögnun, þó jafnframt sé brýnt að endurskoða önnur ákvæði laganna sem snerta atvinnulífið í heild sinni.

Að mati greinarhöfundar er brýnast að neðangreind atriði laga um samningsveð verði tekin til endurskoðunar:

  • Rekstrarveð:

Samkvæmt ákvæðum núgildandi laga er heimilt að semja um að veðréttur í fasteign sem varanlega hefur verið útbúin með þarfir tiltekins atvinnurekstrar í huga nái einnig til rekstrartækja er tilheyra rekstrinum, án þess að tilgreina þurfi með nákvæmum hætti einstök rekstrartæki. Tekur veðréttur veðhafa þá til umræddra rekstrartækja eins og þau eru á hverjum tíma og getur veðsali því endurnýjað einstök tæki og bætt við.

Í ljósi þess að fyrirtæki kjósa í auknum mæli að leigja fasteignir til lengri tíma er nauðsynlegt að ekki sé gerður greinarmunur á heimildum til veðsetningar á rekstrartækjum eftir því hvort veðsali eigi fasteign eða leigi hana, þá þannig að veðsetning rekstrartækja í heild sinni sé möguleg óháð tengslum þeirra við fasteign.

  • Veðsetning bankareikninga og innstæðna:

Viðskiptabankar hafa tekið veð í bankareikningum og innstæðum viðskiptavina hjá viðkomandi banka með handveðsetningu þar sem fjármálafyrirtæki hefur læst reikningnum fyrir úttektum, enda skilyrði fyrir því að handveðsetning öðlist réttarvernd gagnvart grandlausum þriðja aðila að veðsali hafi verið sviptur umráðum veðsins.

Í framkvæmd er þetta bagalegt fyrir veðsala, lánveitendur sem ekki eru viðskiptabankar og einnig banka sem vilja taka veð í bankareikningum veðsala hjá öðrum viðskiptabanka, þar sem það er alfarið undir viðkomandi viðskiptabanka komið hvort hann taki að sér umsýslu er tengist slíkri handveðsetningu og hvaða þóknun er tekin fyrir það hlutverk. Nauðsynlegt er að þetta fyrirkomulag sé tekið til endurskoðunar með það fyrir augum að einfalda veðsetningu fjármuna, s.s. með skýrari valkostum varðandi sjálfsvörsluveð yfir bankainnstæðum.

  • Veðsetning í hugverkaréttindum:

Nauðsynlegt er að rýmka heimildir fyrirtækja til að setja öll hugverkaréttindi að veði með einu veðskjali, hvort sem þau eru skráð eða óskráð, með sambærilegum hætti og gert var með því að rýmka heimildir til veðsetningar á safni lausafjármuna í núgildandi veðlögum. Þá væri enn fremur ákjósanlegt að mælt yrði með skýrum hætti fyrir um hvernig veðsetningu hugverkaréttinda skuli tryggð réttarvernd.

  • Vörureikningsveð:

Vörureikningsveð er veð í öllum vörureikningum á hverjum tíma sem rekstraraðili gefur út í starfsemi sinni og tekur til krafna hans samkvæmt hvers konar reikningum fyrir vöru eða þjónustu. Nauðsynlegt er að tekin séu af tvímæli um að kröfur í atvinnurekstri sem eiga rætur að rekja til lánssamninga eða leigusamninga geti jafnframt fallið undir vörureikningsveð. Til viðbótar væri rétt að taka fram í lögum hvernig fara eigi með innheimtan virðisaukaskatt sem jafnan er lagður á vörureikninga.

Áskorun til löggjafans

Ákvæðum norsku samningsveðlaganna hefur margoft verið breytt frá setningu þeirra, meðal annars vegna breytinga á þörfum atvinnulífsins. Frá árinu 1997 hafa hins vegar engar efnislegar breytingar verið gerðar á íslensku samningsveðlögunum, þrátt fyrir að íslenskt atvinnulíf hafi tekið margvíslegum breytingum á tímabilinu, auk þess sem lögin hafa í framkvæmd reynst að ýmsu leyti ófullnægjandi.

Undirritaður telur því ástæðu til að skora á löggjafann að hefja vinnu við endurskoðun samningsveðlaganna, þannig að þau þjóni betur tilgangi sínum og þörfum atvinnulífsins.

Höfundur er lögmaður og verkefnastjóri hjá Logos.