Í síðustu viku ræddi ég um sérstöðu Íslands þegar horft er til endurnýjanlegrar orku og orkumála. Nú vil ég fjalla um efnahagsleg áhrif jarðvarmans á íslenskt samfélag.

Það vill stundum gleymast hversu gríðarlega mikil efnahagsleg áhrif jarðvarmanýtingar eru hér á landi. Árið 1977 (fæðingarár greinahöfundar) voru um 42% af heildarorkunotkun á Íslandi í formi kola eða olíu. Það er ekki lengra síðan. Í dag er þetta hlutfall miklum mun lægra, eða um 15% en það sem útaf stendur er eldsneytisnotkun á bílaflota landsmanna, flugvélar og innlend fiskiskip. Áhugavert við þetta er að þegar þessi notkun er skoðuð er það olíunotkun fiskiskipa sem hefur minnkað hraðast undanfarin 25 ár en fækkun fiskiskipa á þessum tíma hefur verið mikil, eða úr 111 árið 1990 í 49 árið 2015. Aukin tækifæri til þess að draga úr olíunotkun tengjast svo þeim nýfjárfestingum í skipum sem tilkynnt hafa verið undanfarið. Önnur tækifæri eru einnig til staðar, eins og t.d. með aukinni rafvæðingu bílaflotans. Í dag eru aðeins um 1,4% af bílaflota landsmanna knúin áfram af rafmagni einu og sér eða með blöndu af rafmagni og olíu/bensíni. Svo ekki sé minnst á spennandi verkefni eins og rafvæðingu hafna o.fl. En stærsti einstaki liðurinn í efnahagslegri greiningu á nýtingu jarðvarma er sá áætlaði sparnaður sem hlýst af því að nýta jarðvarma til húshitunar í stað olíu eins og áður var gert. Oft er talað um þjóðhagslegan ávinning af nýtingu jarðvarma með því að meta þann kostnað sem landsmenn komast hjá með því að nýta jarðvarma til húshitunar í stað olíu. Í þessu samhengi finnst mér gaman að tala um „jarðvarmasparnað“ enda er greinahöfundur bankastarfsmaður.

Gjaldeyriskreppa og nýr Landspítali

Ætla má að ef olía væri nýtt til húshitunar á Íslandi í dag þyrftu landsmenn að greiða um 80 milljarða (meðaltal sl. 10 ára) aukalega í húshitunarkostnað á ári samkvæmt útreikningum Orkustofnunar. Nota bene, þetta væru um 80 milljarðar króna í gjaldeyri til olíukaupa. Þetta eru stórar tölur fyrir litla þjóð og í sögulegum skilningi hefði þetta að öllum líkindum haft umtalsverð veikingaráhrif á íslensku krónuna og neikvæð áhrif á kaupmátt og þar með lífsgæði landsmanna.

Eins og flestir vita geta sveiflur á hrávörumörkuðum verið töluverðar, sbr. olíuverð sl. misserin. Með nýtingu jarðvarma til húshitunar tökum við þessa hrávöruáhættu að miklu leyti út fyrir sviga fyrir íslenskan almenning. Samkvæmt Orkustofnun er uppsafnaður sparnaður sl. 40 ára um 1.630 milljarðar króna, eða um 5 milljónir króna á hvern núlifandi Íslending. Samtals eru þetta um 75% af vergri landsframleiðslu ársins 2015. Í dag er vinsælt að setja hluti í samhengi við byggingu nýs Landsspítala en kostnaður við hann er áætlaður 60-80 milljarðar, svo til gamans má segja að við landsmenn spörum okkur rúmlega einn nýjan Landspítala á ári hverju með nýtingu jarðvarmans til húshitunar í stað olíu.

Ef við skoðum þennan sparnað sem hlutfall af landsframleiðslu þá sjást bersýnilega kostir þess að nýta innlenda orkugjafa til húshitunar. Topparnir á myndinni eru olíukreppan í kringum 1980 og svo árin eftir efnahagshrunið 2008. Ein stór og áhugaverð spurning kemur upp þegar þessi mynd er skoðuð, hve miklu dýpri hefði kreppan verið í kringum efnahags-og fjármálahrunið 2008 ef ekki hefði notið við jarðvarmans? Samanlagður gjaldeyrissparnaður fyrstu árin eftir hrunið, 2009 til 2012, er samtals 420 milljarðar króna. Til samanburðar er óskuldsettur gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands um 400 milljarðar króna í dag og hefur hann aldrei verið stærri í sögulegu samhengi. M.ö.o. er gjaldeyrisvaraforði þjóðarinnar í dag nánast sá sami og gjaldeyrissparnaðurinn af notkun innlendra orkugjafa í stað erlendra á árunum eftir hrun.

Þá er einnig ljóst að jarðhitinn spilar hlutverk í hinum stóra og ört vaxandi geira sem tengdur er við ferðamenn, en það er efni í aðra grein. En það er klárt mál að nýting jarðvarmans hefur án nokkurs vafa skilað sér í auknum lífsgæðum og arði til þjóðarinnar allrar sl. áratugina.

Höfundur er forstöðumaður orkumála á Fyrirtækjasviði Íslandsbanka.