*

mánudagur, 27. maí 2019
Óðinn
17. apríl 2017 15:03

Jöfnuður og sanngirni

Á síðustu árum hefur ójöfnuður orðið að tískufyrirbæri meðal vinstrisinnaðra hugsuða.

Það er líkt og að rífast við vindinn að takast á við vinstrimenn – hvaða merki sem þeir bera – um tekjujöfnuð og fátækt. Á síðustu árum hefur ójöfnuður orðið að tískufyrirbæri meðal vinstrisinnaðra hugsuða og er það til marks um þessa þróun – og tæknivæðingu aldagamalla stofnana – að páfinn tísti á dögunum þeirri skoðun sinni að „ójöfnuður væri rótin að allri samfélagslegri illsku“. Barack Obama sagði að tekjuójöfnuður væri aðaláskorun okkar tíma.

                                                                             ***

Hér heima hafa vinstriflokkarnir tekið þennan gunnfána upp og veifa honum eins og enginn sé morgundagurinn. Árleg áróðursskýrsla Oxfam um ójöfnuð í heiminum er tekin upp og gerð ítarleg og gagnrýnislaus skil í helstu fréttamiðlum og nú stendur til að stofna enn einn stjórnmálaflokkinn til að berjast gegn þessum skelfilega ójöfnuði. Þá flytur einn fyrrverandi ritstjóri vikulega pistla í Ríkisútvarpinu þar sem hann skammar íslensku þjóðina fyrir að umbera þá gríðarlegu fátækt sem hann sér grassera í landinu.

                                                                             ***

Mestur jöfnuður hér

Byrjum á því að fjalla aðeins um ójöfnuð og fátækt. Oftast er miðað við svokallaðan Gini-stuðul þegar tekjujöfnuður er mældur, Stuðullinn getur lægstur verið 0 en hæstur 1. Því lægri sem hann er því meiri er jöfnuðurinn. Af OECD ríkjum er þessi stuðull hvergi lægri en á Íslandi, eða 0,244 stig, en miðað er við tölur frá árinu 2014, þær nýjustu sem finna má þar. Þegar tekið er tillit til opinberra millifærslna lækkar stuðullinn enn frekar á Íslandi.

                                                                             ***

OECD tekur einnig saman tölur um hlutdeild mismunandi tekjuhópa í heildartekjum. Í engu OECD ríki er hlutur tekjulægstu tíundarinnar hærri en hér á landi og hið sama má segja um tekjulægsta fimmtunginn. Eins er ekkert OECD ríki þar sem hlutur tekjuhæstu tíundarinnar er lægra en hér á landi og hið sama má segja um tekjuhæsta fimmtunginn.

                                                                             ***

Jöfnuður er því hér með því allra mesta sem gerist meðal þróaðra ríkja. Þeir sem halda öðru fram hafa einfaldlega rangt fyrir sér.

                                                                             ***

Fátækt mælist hér 4,6%, aftur samkvæmt tölum OECD, og er hvergi minni í ríkjum OECD. Fátækt er 8,8% í Svíþjóð og 7,8% í Noregi, svo dæmi séu tekin. Í tveimur ríkjum, Danmörku og Finnlandi, er fátækt meðal barna minni en á Íslandi, en hér er fátækt meðal barna 5,6% og vel undir meðaltali OECD, sem er 13,3%.

                                                                             ***

Vilja sanngirni frekar en jöfnuð

Þeir sem tala með þessum hætti eru vissulega að svara ákveðnu kalli frá almenningi. Samkvæmt nýlegri könnun MMR hafa 36,8% þjóðarinnar áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði. Heldur meiri hafa áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum.

                                                                             ***

Nýleg ritgerð þriggja sálfræðinga, Christina Starmans, Mark Sheskin og Paul Bloom, sem birtist fyrir skömmu í tímaritinu Nature fjallar um afstöðu fólks til jöfnuðar annars vegar og sanngirni hins vegar.

                                                                             ***

Byrja þau á að fjalla um rannsóknir sem við fyrstu sýn benda til þess að manneskjan sé eðlislægt hrifnari af jöfnuði en ójöfnuði. Fjöldamargar rannsóknir hafa verið gerðar þar sem þátttakendur eru beðnir um að skipta einhverjum gæðum á milli annarrs fólks. Í langflestum tilfellum vilja þátttakendurnir skipta gæðunum jafnt. Á þetta jafnvel við um mjög ung börn. Þriggja ára gömul börn vilja frekar skipta jafn – þótt þau séu vissulega eilítið eigingjörn þegar kemur að þeim sjálfum. Þegar tólf mánaða gömul börn voru látin horfa á brúðu skipta leikföngum milli annarra leikbrúða drógust þau heldur að þeirri brúðu sem skipti leikföngunum jafnt.

                                                                             ***

Þessar niðurstöður hafa verið notaðar til að mála þá mynd af manneskjunni að hún sé eðlislægt sósíalísk. Að við viljum í raun hafa fullkominn jöfnuð í okkar samfélögum. En það útskýrir ekki af hverju samfélög okkar séu ekki slíkar útópíur jöfnuðarins.

                                                                             ***

Kenning höfundanna er sú að það sem vanti í áðurnefndar tilraunir sé sanngirni. Eins og tilraunirnar hafa verið settar upp þá sé jöfn skipting gæða einnig sú sanngjarnasta. Þegar sanngirni er bætt við tilraunina þá breytast niðurstöðurnar. Þátttakendum er þá gert að skipta gæðum á milli einstaklinga, en fá meiri upplýsingar um þá en áður. Dæmi um þetta er þegar börnum var fengið það verkefni að skipta þremur strokleðrum á milli tveggja drengja sem höfðu verið að taka til í herbergi sínu. Þegar þau höfðu engar upplýsingar um drengina tvo voru þau tilbúin að láta þá fá sitt hvort strokleðrið, en henda því þriðja. Þegar þeim var hins vegar sagt að annar drengurinn hafi lagt harðar af sér en hinn voru þau frekar tilbúin að láta hann frá þriðja strokleðrið.

                                                                             ***

Þetta snýst ekki aðeins um það að verðlauna dugnað. Þegar þriggja ára börn áttu að skipta gæðum á milli tveggja leikbrúða eftir að hafa séð aðra þeirra hjálpa vini sínum upp rennibraut og hina hrinda vini sínum niður brautina fékk hjálplega brúðan meira frá börnunum.

                                                                             ***

En fólk er líka tilbúið að samþykkja ójafna dreifingu gæða ef handahóf ræður – þ.e. ef ekki er vísvitandi verið að mismuna fólki á ómálefnalegan hátt.

                                                                             ***

Eftirhretur hrunsins

Þetta eru aðeins dæmi um fjölda annarra slíkra tilrauna sem gerðar hafa verið. Þær sýna þó að það er ekki ójöfnuður sem fólk er ósátt við heldur ósanngirni.

                                                                             ***

Óðinn telur líklegast að hér sé um eftirköst frá fjármálakreppunni að ræða. Fólk upplifði það sem svo að rangt hefði verið gefið og framkvæmd á sölu fyrirtækja í eigu bankanna og handvammir við framkvæmd útboða hafa ekki hjálpað þar til. Eins verður að ætla að fréttir af Panamaskjölunum svokölluðu hafi spilað þar inn í.

                                                                             ***

Þetta skýrir að mati Óðins af hverju svo margir hafa áhyggjur af spillingu annars vegar og ójöfnuði hins vegar. Síðarnefndu áhyggjurnar eru afsprengi af þeim fyrrnefndu.

                                                                             ***

Það væru því stór mistök að auka hér verulega völd ríkisins yfir atvinnulífi og einstaklingum í nafni jöfnuðar. Í fyrsta lagi vegna þess að jöfnuður er hér mjög mikill. Raunar má færa fyrir því rök, eins og Jón Daníelsson hagfræðingur gerði á ársfundi SA um árið, að jöfnuður sé hér of mikill. Inngrip ríkisins eru því óþörf, jafnvel þótt maður taki undir áhyggjur þeirra sem vilja jöfnuðinn sem mestan.

                                                                             ***

Í öðru lagi munu áhyggjur af ójöfnuði síst minnka ef ríkið og stjórnmálamenn eiga að ákveða í meira mæli en nú þegar er gert hvernig skipta eigi tekjum og gæðum. Því meira sem efnahagsleg staða fólks er til kominn vegna vísvitandi ákvarðana einhverra annarra því líklegra er að fólk upplifi hana sem ósanngjarna.

                                                                             ***

Lausnin, eins og í svo mörgu öðru, er að láta dreifingu gæða ráðast af ákvörðunum einstaklinganna sjálfra. Hlutverk ríkisins á aðeins að vera það að gæta þess að leikreglurnar séu sanngjarnar og að þeim sé fylgt.

 

 

 

 

Stikkorð: Jöfnuður fátækt tekjur sanngirni
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim