*

föstudagur, 20. október 2017
Týr
23. júní 2012 09:25

Jón Gnarr er sósíalisti

Í ríki sósíalismans birtist betlarinn í líki stjórnmálamanns. Hann biður ekki um peningana heldur tekur þá af fólki með ofbeldi.

Sýnin um samfélag jafnræðis er falleg í augum margra. Leiðin að því markmiði er samt því miður þyrnum stráð og það fyrsta sem er fórnað er frelsi einstaklingsins. Enda hafa verið skrifaðar langar og lærðar ritgerðir um leiðir til að stuðla að jöfnuði án þess að skerða frelsi. En því miður endar sú málamiðlun í einum allsherjar sósíalisma þótt oft langan tíma taki.

* * *

Sjálfur grínborgarstjórinn, Jón Gnarr, er meðal þeirra sem hefur þurft að kljást við þessa þversögn. Í viðtali við Fréttablaðið 11. júní sl. sagðist hann vilja skapa hér samfélag jafnræðis og forðast misskiptingu. Auðlindir ættu að vera í eigu þjóðarinnar og nýtast henni (þjóðnýting heitir það á mannamáli undir yfirráðum stjórnmálamanna).

* * *

„Ég átta mig sífellt betur á því hvernig við erum leiksoppar kapítalismans — og ég er sem sagt orðinn sósíalisti.“ Svo segir Jón: „En um leið eigum við að leggja áherslu á frelsi einstaklingsins. Það er þessi tegund sósíalisma sem hefur verið nefnd líbertarian sósíalismi — sem er fansý orð yfir anarkisma — sem ég er svo staðfastur í.“

* * *

Týr man eftir því þegar Jón var að þreifa sig áfram í hugmyndafræðinni um síðustu aldamót. Hann var þá mjög áhugasamur um einstaklingshyggju, talaði um það í útvarpi og var upptekinn af málflutningi Frjálshyggjufélagsins. Þær pælingar héldu áfram í viðtali við DV í ágúst 2002.

* * *

Eftir að Jón kom frá Evrópu urðu betlarar á vegi hans. Hann velti fyrir sér hvort gefa ætti þeim peninga eða segja nei, farðu. „Ég hef brotið heilann mjög um þetta og ég er kominn að niðurstöðu; maður á ekki að gefa þeim peninga. Þeir eru ekkert ófullkomnari manneskjur en ég sjálfur og þeir hafa engan rétt til að rétta fram lófann eins og ég skuldi þeim eitthvað eða til að koma að samviskubiti hjá mér.“

* * *

Í ríki sósíalismans birtist betlarinn í líki stjórnmálamanns. Hann biður ekki um peningana með útréttri hönd heldur tekur þá af fólki með ofbeldi. Og svo endurdreifir stjórnmálamaðurinn peningunum til annarra eins og þeir séu hans eigin. Fólk hefur ekki rétt til að segja nei, nema það kjósi frekar að sitja í fangelsi.

* * *

Markaðurinn er frelsinu skjöldur sagði Popper. Það er heppilegt að frjálst þjóðfélag er hagkvæmara, sagði Friedman. Grunnforsendan er einstaklingsfrelsið. Sósíalismi og áhersla á frelsi einstaklingsins eru ekki samrýmanleg markmið, Jón Gnarr.

Stikkorð: Týr
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.