Ég fór í hefðbundna haustveiðiferð í Litluá í Kelduhverfi á dögunum. Átt skemmtilega daga með góðum veiðifélaga og tveimur Norðmönnum, sem töldu Litluárurriðan svo einstakan að vart væri annan eins að finna í heiminum. Ekki er langt síðan þessum einstaka stofni var næstum því eytt með ofveiði. Megnið af stofninum var dreginn árvisst úr ánni á innan við mánuði með stórvirkum veiðiaðferðum, pungsökkur og laxahrogn sem farið var að slá vel í, ofarlega á vinsældalista yfir veiðarfæri.  Síðan þá hafa breytingar átt sér stað í Litluá og aðeins öðruvísi staðið að veiðum og ástandið fullyrði ég að sé mun betra.

„Veiða og sleppa fiski – ótrúleg græðgisþróun“ er nafn á pistli Jóns Kristjánssonar þess mæta fiskifræðing sem ég las á dögunum. Margt í greininni get ég tekið undir, annað afgreiði ég sem fýlu fiskifræðingsins. Skráning eða ofskráning í veiðibækur er eitt af því sem hann nefnir  og þá í tengslum við græðgina sem hann telur ráða ferðinni í stangaveiðibransanum. Ég er sammála honum í einu og öllu þegar kemur að þessu. Það sem snýr að veiðimönnum sem hugsanlega detta í þann fúla pytt að færa óveiddan fisk eða fisk sem sleppur eftir töku til bókar skrifa ég á hégóma.  Það er ekki auðvelt fyrir alla að koma heim að loknum veiðidegi með öngulinn í rassinum og þurfa jafnvel að díla við félaga sem hafa veitt vel.

Rekstraraðilar veiðiánna fá skáskot frá Jóni þar sem ýjað er að því að skáldað sé í veiðibækur og vafalítið gerist það í einhverjum tilfellum ef skruddan þarfnast áfyllingar.  Ég vil samt varast að blanda þessu saman við þá einföldu aðferð að leyfa fiski að lifa áfram eftir viðureign og gera það þannig að sem minnst hnjask hljótist af fyrir fiskinn. Sums staðar hefur þessi aðferð skilað firnafínum árangri, sama hvað Jón vinur minn tuðar.

Fyrir þá sem ekki vilja veiða og sleppa þá er góðu tíðindin þau að margar ár bjóða upp á hóflegan kvóta. Varðandi veiðibækur sem mér er hreinlega illa við, þá er ég á því að með teljurum sé hægt að sleppa þessum bókarfærslum, sem eru að stærstum hluta ónákvæmar og villandi og láta þess í stað tæknina segja okkur allt sem segja þarf um göngur í árnar, tölfræði, aðgreiningu fiskitegunda o.s.frv.

Jón kom að lokum inn á dýraverndarlögin og tók út þann kafla þar sem stendur að ekki megi hrekkja eða meiða dýr. Ég ætla ekki að eyða of miklu púðri í þá umræðu að sinni, tek hana  síðar en spyr hvort það að rota seiði með rafstraumi við seiðatalningar, heyri þá undir þennan kafla. Að lokum vil ég taka það fram að ég drep mér fisk í matinn, þar sem það er leyft, allt í hófi þó.