*

föstudagur, 20. október 2017
Óðinn
8. ágúst 2012 14:54

Kettir sem gelta

Hagfræðingurinn Milton Friedman var ekki bara áhrifaríkasti hugsuður 20. aldarinnar, heldur eiga hugmyndir hans erindi á nýrri öld.

Skyldi þessi köttur gelta?
Aðsend mynd

31. júlí síðastliðinn voru 100 ár liðin frá fæðingu Miltons Friedmans. Fáir hagfræðingar höfðu jafn mikil áhrif á þróun hagfræðinnar á seinni hluta 20. aldar og Milton Friedman og líkast til enginn hagfræðingur hafði jafn mikil áhrif sem álitsgjafi og ráðgjafi á 20. öldinni. Hér er ekki ætlunin að rekja framlag Friedmans til hagfræði, heldur fjalla um framlag hans sem baráttumanns fyrir frelsi einstaklinganna og bættum lífskjörum. Í því sambandi er áhugavert að rifja upp heimsókn hans til Íslands árið 1984 en það lýsir vel óþrjótandi baráttu Friedmans fyrir auknu frelsi og bættum lífskjörum hvað hann sýndi Íslandi mikinn áhuga og vinsemd.

* * *

Friedman er annar af tveimur áhrifamestu hagfræðingum 20. aldar ásamt John Maynard Keynes. Keynes sannfærði hagfræðinga um að Kreppan mikla sýndi að kapítalisminn væri óstöðugur og ríkið ætti með virkum hætti að „jafna út“ sveiflur með útgjöldum sínum. Þannig ætti að reka ríkissjóð með afgangi í góðæri og vega á móti þenslu en með halla í niðursveiflu.

Að mati Keynes réðst efnahagsstarfsemi af eftirspurn sem aftur réðist af tiltrú, þ.e. bjartsýni eða svartsýni atvinnulífsins. Keynes taldi það hlutverk ríkisvaldsins að hafa áhrif á eftirspurn til að koma í veg fyrir að hagkerfið leitaði jafnvægis þar sem atvinnustig væri ónógt til að tryggja fulla atvinnu. Keynes var ekki sósíalisti eða andsnúinn kapítalisma en hann taldi að markaðinum væri ekki treystandi og því þyrfti upplýsta stjórnmálamenn og hagfræðinga — eins konar vitringaveldi — til að tryggja að markaðurinn væri skilvirkur.

* * *

Friedman leiddi gagnsókn gegn þessari tæknihyggju og sýndi fram á það í bókinni A Monetary History of the United States ásamt Önnu Schwartz að Kreppan mikla væri fremur afleiðing af röngum viðbrögðum stjórnvalda en afskiptaleysi þeirra. Seðlabankinn brást rangt við niðursveiflu og framlengdi hana þannig og dýpkaði svo að úr varð djúpstæð kreppa. Friedman dustaði rykið af peningamagnskenningu Irvings Fishers og sýndi fram á að verðbólga og verðhjöðnun á alltaf og alls staðar rætur sínar að rekja til breytinga á peningamagni.

* * *

Reynslan af Kreppunni miklu sýndi að jafnvel þótt Keynes hefði rétt fyrir sér þá höfum við enga tryggingu fyrir því að stjórnmálamenn bregðist við kreppu á réttum tíma, með réttum hætti og að það hefði tilætlaðar afleiðingar. Tillaga Friedmans var því að í stað þess að treysta á brjóstvit seðlabanka eða stjórnmálamanna á hverjum tíma ætti stjórn peningamála að ráðast af fyrirfram kunngerðum, föstum reglum. Reglan sem Friedman lagði til var að peningamagn ætti að aukast á ári hverju um 3-5% sem samsvarar langtíma nafnvexti landsframleiðslu.

* * *

Þótt Friedman hafi ávallt gætt þess að gera skýr skil á milli hagfræðikenninga sinna og stjórnmálaskoðana er ákveðið svipmót með stjórnmálaskoðunum hans og peningamagnskenningunni. Það væri betra að fara eftir einföldum og skýrum reglum en að treysta valdhöfum til að taka afstöðu til einstakra mála, ekki vegna þess að valdhafarnir væru endilega illgjarnir, heldur vegna þess að þeir eru mannlegir og hagsmunir byrgja oft skynseminni sýn.

* * *

Friedman leit á hagfræði sem vísindi með sama hætti og t.d. eðlisfræði. Hann taldi jafnframt að ágreiningur fólks almennt um gildi væri lítill, þannig að ef fólk gæti orðið sammála um markmið væri hægt að prófa með hagfræði hvort ákveðnar leiðir væru til þess fallnar að ná þeim markmiðum. Þótt Friedman hafi talið frelsi einstaklinga hafa sjálfstætt gildi var málflutningur hans nær allur byggður á reynslurökum. Til að meta áhrif ríkisafskipta gekk Friedman út frá þeirri forsendu að fólk bregðist við hvötum, fólk er almennt skynsamt og vill bæta hag sinn. Ef kerfi, hvort heldur er ríki eða markaður, skilar óskynsamlegri niðurstöðu spurði Friedman hvaða hvatar það eru sem fólk er að bregðast við sem leiðir til óskynsamlegrar niðurstöðu. Þannig að ef fólk er t.d. óánægt með störf ákveðinnar ríkisstofnunar er rétt að spyrja hvað það er sem fær þessa stofnun til að haga sér með þessum hætti en ekki hvers vegna starfsmennirnir standa sig ekki betur.

Friedman nálgaðist því markaðsog ríkisbresti út frá því sem hann áleit vísindalegu sjónarmiði en ekki sem siðferðisbrest einstaklinganna. Í einum af pistlum sínum í Newsweek (Friedman skrifaði reglulega pistla í það blað í 17 ár) fjallaði hann um bandaríska Lyfjaeftirlitið og hvernig það hamlaði framþróun. Seinna sagði Friedman frá því í pistli að hann hefði fengið sterk viðbrögð við grein sinni og flestir hefðu tekið undir gagnrýni hans á Lyfjaeftirlitið en margir klykkt út með „samt er ég ekki sammála niðurstöðu þinni um að leggja Lyfjaeftirlitið niður, heldur vil ég að það starfi á eftirfarandi hátt …“ Friedman sagði að þetta væri eins og að vilja eignast kött að því gefnu að hann gelti!

* * *

Þessi málflutningur lítur í fyrsta lagi framhjá því að í stofnunum eru ákveðin tregðulögmál og að jafnvel þótt viðkomandi aðilum yrði fengin stjórn eftirlitsins er ekkert sem segir að þeim færi stjórn þess betur úr hendi en þeim sem nú væru við stjórnvölinn. Auk þess væri sumum hlutum einfaldlega betur komið í höndum einstaklinganna sjálfra. Þá skipti engu hversu hæfum stjórnendum stofnunin yrði fengin ef hún væri að sýsla með hluti sem betur væri fyrir komið annars staðar.

* * *

Í fyrirlestri sínum á Íslandi árið 1984, sem gefinn var út í bókinni Í sjálfheldu sérhagsmunanna, lagði Milton Friedman áherslu á að ríkisvaldinu bæri að setja skorður með föstum reglum. Núverandi skipulag á Vesturlöndum væri í sjálfheldu sérhagsmunanna þar sem vel skipulagðir þrýstihópar beita ríkisvaldinu í eigin þágu. Hver og einn innan þrýstihópsins hefur mikla hagsmuni af ríkisafskiptunum á meðan hver og einn kjósandi ber af þeim lítinn kostnað og hefur því síður hagsmuni af því að berjast gegn þeim. Hag allra væri best borgið ef öllum slíkum afskiptum og ívilnunum, svo sem niðurgreiðslum og tollavernd, yrði hætt en hver og einn hagsmunahópur er verr settur ef bara þeim afskiptum sem snúa að honum yrði hætt. Með því að reisa ríkisvaldinu þröngar skorður mætti ná eins konar sátt um að ríkisvaldinu yrði ekki beitt í þágu sérhagsmunahópa. Að loknu erindi Friedmans sat hann fyrir svörum og varpa svör hans við spurningunum ljósi á hvernig ætla megi að hann mundi bregðast við þeim vandamálum sem uppi eru í dag. Ólafur B. Halldórsson, forstjóri á Ísafirði, spurði Friedman hvað bæri að gera ef fyrirtæki sem mikilvægt væri fyrir nærumhverfi sitt stæði illa fjárhagslega, og væri þá í lagi að láta það verða gjaldþrota. Ólafur spurði um sjávarútvegsfyrirtæki, en ef þessi fundur væri haldinn í dag væri allt eins líklegt að spurt væri um banka eða sparisjóð. Svar Friedmans var að þótt fyrirtæki færu í gjaldþrot þá hyrfu framleiðslutækin ekki heldur skiptu um hendur og bætti við: „Ef við ætlum að leyfa fólki að njóta gróðans af einkaframtakinu verður það líka að bera af því tapið. Ef við reynum að eyða tapinu, eyðum við líka gróðanum.“

* * *

Þorkell Valdimarsson framkvæmdastjóri spurði Friedman um Sambandið, sem velti þremur fjórðu af útgjöldum ríkissjóðs, hvort slíkt félag væri ekki auðhringur og hvort rétt væri að setja gegn því auðhringalöggjöf. Friedman sagðist ekki þekkja vel til aðstæðna hér en bætti við: „Ég held því, að besta ráðið til að koma aga yfir samvinnuhreyfingu ykkar sé að opna alla þá markaði, sem hún framleiðir á.“ Um þetta reyndist Friedman sannspár og svo hitt að um leið og markaðsvextir fóru að stýra aðgengi að fjármagni en ekki pólitísk tengsl hrynja stórar viðskiptasamsteypur undan eigin þunga. Þetta átti ekki bara við um samvinnuhreyfinguna hér á landi heldur ekki síður samsteypur sem svokallaðir útrásarvíkingar skópu síðar í mynd Sambandsins sáluga í krafti aðgengis að fjármagni í skjóli eignatengsla við banka.

* * *

En hvernig mundi Friedman bregðast við kreppunni sem nú er í heiminum? Mundi hann mæla með enn meiri innspýtingu fjármagns frá seðlabönkum eins og Paul Krugman hefur haldið fram? Sigurður Snævarr rithöfundur bað Friedman að skýra á fundinum það sem hann kallaði árangur nasista í efnahagsmálum. Svar Friedmans bendir eindregið til þess að hann væri ekki í hópi þeirra sem kalla eftir frekari íhlutun ríkisins nú fimm árum eftir að kreppan hófst. Friedman sagði: „Í fyrsta lagi verður að benda á það, að allir geta náð miklum árangri í skamman tíma með víðtækum ríkisafskiptum, ef þeir hafa byrjað niðri í einhverjum öldudal. … Sé um umtalsverðan samdrátt að ræða, þá verður eftirfarandi þensla umtalsverð. … Og við slíkar aðstæður geta valdsmenn svo sannarlega örvað atvinnulífið í nokkur ár með því að dæla inn í það peningum, þannig að þensla taki við af samdrætti og atvinnuleysi stórminnki. Þetta var það, sem nasistarnir gerðu. Þeir stórjuku peningamagn í umferð, og það hafði þau áhrif, að atvinnuleysi minnkaði, en síðan skilaði þetta sér í aukinni verðbólgu. Þetta er skýringin á góðum árangri nasistanna. En ég er ekki í neinum vafa um, að þessi árangur hefði aðeins verið tímabundinn, hefði ekki komið til stríðs.“

* * *

Það er því ekki líklegt að Friedman mundi í dag mæla með þeim gegndarlausa fjáraustri sem seðlabankar stunda í dag eða aukin ríkisútgjöld og losaratök í ríkisfjármálum sem sósíalistar víða um heim, þar á meðal hér á landi, boða. Það er annað áhugavert við þetta en það er hvað sósíalistar virðast hafa mikla trú á stríðshagkerfi. Þannig hefur Krugman sagt, eins og áður hefur verið fjallað um í þessum dálki, að ráð út úr kreppunni sé að heimurinn færi að búa sig undir innrás utan úr geimnum! Og Keynes benti sjálfur á í inngangi að þýsku útgáfunni að Almennu kenningunni árið 1936 að það væri að mörgu leyti auðveldara að hrinda kenningum sínum í framkvæmd í ríki eins og Þýskalandi nasismans án þess þó að mæla því stjórnarfari bót að öðru leyti. Það sem sósíalistar líta framhjá er að stríðshagkerfi framleiðir ef til vill meira magn en frjálst hagkerfi, en framleiðslan ræðst af valdboði en ekki eftirspurn og fellur því verr að óskum þegnanna, verðmæti framleiðslunnar er því mun minna en áður. Átaksverkefni eins og Francois Hollande og Guðmundur Steingrímsson leggja til skapa ekki ný verðmæti heldur þjóðnýta sparnað fólks og verja honum í verkefni sem aðrir vilja ekki fjárfesta í sem bendir til að þau séu ekki arðbær.

* * *

Hannes Hólmsteinn Gissurarson spurði Friedman á fundinum hvort hann teldi Ísland of lítið myntsvæði til að vera með eigin gjaldmiðil. Friedman taldi í sjálfu sér engin fræðileg rök fyrir því en bætti við: „Ég held því, að besta lausnin fyrir fámennar þjóðir sé til langs tíma sú, sem Panama hefur valið, en þetta ríki notar sama gjaldmiðil og Bandaríkin, eða Lúxemborg sem tengir sinn gjaldmiðil við gjaldmiðil Belgíu. Verið getur, að þessi kostur sé ekki fullkominn, en hann er líklega bestur þeirra, sem ykkur eru tiltækir.“

* * *

Óðinn hefur áður fjallað um áramótagrein Ragnars Halldórssonar árið 1986 þar sem hann hvatti til upptöku annarrar myntar og svar leiðara Morgunblaðsins við því. Í kjölfarið setti Hannes Hólmsteinn Gissurarson fram málamiðlunartillögu sem fólst í því að Ísland tæki upp myntráð að hætti Hong Kong. Þessar tillögur eiga enn jafn mikið erindi í umræðuna í dag og fyrir 28 árum. Eins og Friedman bendir á þýðir ekki að bera saman einhliða upptöku annarrar myntar við alvitra og fullkomna peningastjórnun eigin myntar. Það væri að biðja um ketti sem gelta. Það verður að bera upptöku annarrar myntar saman við þá stjórnun peningamála sem við búum við í dag og þann „árangur“ sem náðst hefur undanfarin ár.

* * *

Friedman var ekki bara einn áhrifaríkasti hugsuður 20. aldarinnar, heldur eiga hugmyndir hans fullt erindi á þeirri 21.

Stikkorð: Óðinn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.