

Kettirnir eru komnir á kreik hjá Vinstri grænum eftir að flokkurinn komst í ríkisstjórn á ný. Nýjasti liðhlaupinn úr flokknum er Hildur Knútsdóttir, rithöfundur og fyrrverandi varaþingmaður VG, sem tilkynnti á laugardaginn fyrir rúmri viku að hún gæti ekki stutt ríkisstjórn sem ekki væri tilbúin að semja við ljósmæður og biði einstaklingi á borð við Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, að tala við hátíðleg tilefni. Nokkrar klukkustundir liðu frá því að Hildur tilkynnti um afsögn sína úr flokknum þar til ljósmæðradeilan leystist. Ljósmæður samþykktu svo kjarasamninginn sjálfar með 95% greidda atkvæða.
Það virðist sem harður kjarni innan VG virðist frekar kjósa að vera áhrifalaus í stjórnarandstöðu en að þurfa að taka á erfiðum málum í ríkisstjórn. Enda gaf Drífa Snædal, fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins, út þegar hún hætti í VG í nóvember að hún teldi betra fyrir flokkinn til lengdar að vera áfram í stjórnarandstöðu að sinni, jafnvel þótt það þýddi það sem Drífa kallaði „verstu ríkisstjórn allra tíma“ kæmist til valda.
Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.