Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París undir lok mánaðarins ætlar Ísland ásamt Noregi og ESB að undirgangast skuldbindingar um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 miðað við árið 1990. Þrátt fyrir þetta nokkuð háleita markmið hyggjumst við taka á móti mun fleiri ferðamönnum og byggja nokkur kísilver á næstu árum. Þar sem bæði flug og kísilframleiðsla eru losunarfrek starfsemi er eðlilegt að spyrja hvernig fer þetta saman.

100 Kg samhengi hlutana

Framleiðsla kísilmálms veldur töluverðri losun gróðurhúsalofttegunda, eða 500 Kg fyrir hver 100 Kg framleidds málms. Til samanburðar er þýskt kísilver, sem dregur raforku út af þýska raforkuflutningskerfinu, ábyrgt fyrir 563 Kg losun til viðbótar við hið íslenska vegna hlutdeildar sinnar í útblæstri kola- og gasorkuvera. Raforkuvinnsla á Íslandi veldur hins vegar lítilli sem engri losun, en flutningur hráefna og afurða gerir það hinsvegar. Þýskur ferðamað­ ur sem heimsækir Ísland og vegur um 100 kg með farangri sínum veldur [360 kg ] losun vegna flugsins eingöngu. Þessi tala var reyndar hærri fyrir nokkrum árum en tækniframfarir hafa gert flugvélar léttari og dregið úr eldsneytiseyðslu og losun þeirra á gróðurhúsalofttegundum. Búast flestir við að sú þróun haldi áfram á næstu árum. Ein helsta ástæðan fyrir umhverfisvænna flugi eru framfarir við gerð sterkra og léttra efnasambanda fyrir flugiðnaðinn og þá aðallega álblendis þar sem kísilmálmur spilar lykilhlutverk. Sú staðreynd gerir samanburð­ inn skemmtilegan, en notagildi hans er hinsvegar rýrt. En hvort eigum að stuðla að fjölgun ferðamanna eða aukinni framleiðslu léttmálma svo flugvélar og ferðamenn út um allan heim valdi minni losun?

Kvótakerfi er lausnin

Góðu fréttirnar eru þær að búið er að svara spurningunni að ofan, eða öllu heldur búið að ákveða hver kemur til með að svara henni. Bæði kísilmálmsframleiðsla og flug innan Evrópu falla undir hið sameiginlega viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS-kerfið). Þeir evrópsku aðilar sem þar falla undir, s.s. flugfélög og kísilver auk álvera og orkuvera verða að vera sér út um þær heimildir, öðru nafni losunarkvóta, á markaði og greiða markaðsverð fyrir. Evrópa hyggst skuldbinda sig til að draga úr heildarlosun aðila innan kerfisins um 40% fyrir árið 2030. Verð á losunarkvótum, sem nú er um 1.200 kr. á tonnið, kemur því líklega til með að hækka vegna þessa. Í gegnum þá verðmyndun mun því markaðurinn taka ómakið af stjórnmálamönnum og svara því í hvaða hlutföllum er hagkvæmast að draga úr losun flugs, kísilmálmframleiðslu, og annarri losunarfrekri starfsemi fram til ársins 2030 og samhliða því virka sem fjárhagslegur hvati fyrir tækninýjungar sem minnka losunarþörf. Í umræðunni má hinsvegar oft greina þann misskilning að fjölgun flugferða og aukin kísilframleiðsla vinni gegn ofangreindum markmiðum. En vegna kvótakerfisins er það sem betur fer ekki svo, magn losunarheimilda í ETS kerfinu mun minnka um 40%. Það verður hinsvegar á ábyrgð hvers lands fyrir sig að draga úr losun á starfsemi sem ekki fellur undir ETS kerfið. Þar er að finna allar aðrar samgöngur en flug, landbúnað og smærri iðnaðarferla svo eitthvað sé nefnt. Til að ná 40% markmiði sínu þarf því að horfa til þessara geira efnahagslífsins. Þar sem öll raforka á Íslandi er losunarfrí er upplagt tækifæri að rafvæða samgöngur, enda hafa tækniframfarir á undanförnum árum gert þann möguleika mjög raunhæfan. Boltinn er þegar farinn að rúlla hvað samgöngur á landi varðar og rafbílum fjölgar hratt. Stóra tækifæri Íslands er hinsvegar rafvæðing fiskiskipaflotans. Þar gæti Ísland ekki eingöngu dregið hratt úr losun heldur einnig orðið leiðandi í innleiðingu og tæknilegum lausnum. Ef Ísland tekur frumkvæðið í þeirri innleiðingu eru líkur á að þekking og lausnir okkar yrðu útflutningsvara í tímans rás.