*

föstudagur, 24. maí 2019
Erla Skúladóttir
19. nóvember 2018 13:31

Klófest vörumerki?

Erla Skúladóttir fer yfir klóamálið frá því í sumar.

Kókómjólkurfernan þjóðþekkta (vinstri), og umbúðir kókó porter bjórsins Klóa frá Borg brugghúsi (hægri)
vb.is

Áður en meint höfundaréttar- eða einkaleyfisvarin braggastrá (sem eru þó varla háð höfundarétti né andlag einkaleyfis heldur njóta væntanlega svokallaðs yrkisréttar) heltóku þjóðfélagsumræðuna stökk kókómjólkurkötturinn Klói stuttlega fram á sviðið.

Köttinn þekkja vafalítið flestir; nafn hans og einkennislitina gulan og bleikan, enda hefur Mjólkursamsalan notað Klóa til þess að auðkenna kókómjólk allt frá árinu 1990. Orð- og myndmerki sem sýnir teikningu af kettinum og stílfært heiti vörunnar í framangreindum litum hefur verið skráð vörumerki um hríð og óumdeilt að framleiðandi hennar hefur á grundvelli skráningarinnar einkarétt til notkunar merkisins í óbreyttri eða lítt breyttri mynd fyrir sömu eða svipaðar vörur.

Mjólkursamsalan hafði hins vegar hvorki skráð nafn kattarins né hina einkennandi litasamsetningu sem vörumerki þegar BORG brugghús markaðssetti bjórinn KLÓA með röndóttu letri; gulu og bleiku. Um var að ræða súkkulaði porter, eða KÓKÓ PORTER, eins og sagði á umbúðum vörunnar, en tilvísun til kókómjólkurinnar verður að mati undirritaðrar varla mikið augljósari.

Nafngiftin og notkun einkennislita kókómjólkurkattarins var hins vegar án samráðs við Mjólkursamsöluna sem fór fram á að notkuninni yrði tafarlaust hætt eða lausn fundin á málinu, enda bryti hún gegn auðkennarétti fyrirtækisins og fæli í sér óréttmæta viðskiptahætti.

Hér verður ekki kveðið upp úr um það en hins vegar á það bent að vörumerkjaréttur getur stofnast með notkun vörumerkis fyrir tiltekna vöru, þ.e.a.s. það er ekki skilyrði réttarverndar að vörumerki sé sérstaklega skráð, og einkaréttur getur m.a. stofnast til notkunar litasamsetningar fyrir tiltekna vöru að því gefnu að hún sé til þess fallin að greina hana frá vörum annarra. Því óvenjulegri sem litasamsetningin er þeim mun meiri líkur hljóta að teljast á vörumerkjavernd. Ef á reyndi yrði væntanlega lítið hald í þeirri málsvörn forsvarsmanns brugghússins að hann sé litblindur!

Höfundur er sérfræðingur í hugverkarétti og rekstri sprotafyrirtækja.

Stikkorð: Klói Kókómjólk
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim