*

fimmtudagur, 21. júní 2018
Einar Mäntylä
16. júlí 2017 19:20

Knattleikur nýsköpunar og stefna Vísinda- og tækniráðs

„Það sem er langáhrifaríkast og líklegast til árangurs er að koma vísindum og tækni í vinnu út í samfélagið, nota þekkinguna og uppfinningarnar til að skapa nýjar afurðir…"

Daginn fyrir þjóðhátíðardaginn kom fram í dagsljósið ný stefna Vísindaog tækniráðs fyrir tímabilið 2017-2019. Ég las hana nokkuð spenntur enda má þar búast við vel ígrundaðri stefnumótun Íslands í vísindum og nýsköpun. Ég ber mikla virðingu fyrir Vísinda- og tækniráði enda var stofnun þess stórt framfaraskref með myndun lang- þráðra tengsla R&Þ fjöreggs þjóðarinnar við stjórnvöld sem fram að því höfðu lítinn áhuga eða skilning á vægi vísinda fyrir þróun samfélagsins. Sem sagt, væntingar mínar voru talsverðar til stefnunnar.

Mín fyrstu viðbrögð eru undrun og nokkur vonbrigði. Ég fæ á tilfinninguna að hér hafi menn fjallað um háskólaog vísindasamfélagið annars vegar (kennsla, rannsóknarinnviðir og birtingar) og atvinnulífið hins vegar (skattafrá- dráttur, fjárfestingarhvatar, endurgreiðsla R&Þ kostnaðar) en ekki sem heild. Það skortir alveg að horfa til samfellu vísinda og atvinnulífs sem er svo nauðsynleg virku þekkingarsamfélagi, og ekki er minnst á tækniyfirfærslu sem er einmitt brúin á milli akademíu og atvinnulífs. Það er ekki nóg að miðla þekkingu í formi „skýrslna, vefsíðna, bæklinga og með umfjöllun í fjölmiðlum“ það er og hefur verið gert án þess að það hafi hindrað póstmóderníska nýaldarþvælu sem birtist meðal annars í þykkum lífsstílskálfum dagblaðanna.

Í stefnu V&T ráðs eru nefnd dæmi um tortryggni gagnvart vísindum og tækni sem hefði mátt vinna bug á með víðtækari upplýsingu; erfðabreytt matvæli, bólusetningar og loftslagsbreytingar af manna völdum. Auðvitað á vísindasamfélagið að vera virkt í upplýsingu, en bæklingar, vefsíður eða facebook-færslur hafa líklega ekki nokkur áhrif á þá sem kjósa að trúa, eða hafa hagsmuni af því predika að jörðin sé flöt. Hvað þá að vísindasamfélagið geti látið þar staðar numið. Það sem er langáhrifaríkast og líklegast til árangurs er að koma vísindum og tækni í vinnu út í samfélagið, nota þekkinguna og uppfinningarnar til að skapa nýjar afurðir sem þörf er fyrir og þjónustu og störf sem vit er í.

Sýna vísindin í verki.

Þegar þekkingin er farin að þjóna samfélaginu með virkum hætti hvort sem það er í formi nýrrar lækningar, bættrar tækni, rafbíla, sjálfbærra lausna eða sem byggir á vísindum en ekki ranghugmyndum, þá tekur samfélagið afrakstri vísinda fagnandi. Þetta er tækniyfirfærsla; yfirfærsla þekkingar úr rannsóknum yfir í not og hagnýtingu úti í samfélaginu. Að koma þekkingunni í hendur þeirra sem koma henni í gagnið.

Í stefnu V&T ráðs er hvergi minnst einu orði á tækniyfirfærslu. Það er ekki nóg að greina frá þekkingu, það þarf að móta hana svo hægt sé að vinna með hana, verja hugverkin og uppfinningarnar og koma svo þekkingunni í hendur réttra aðila í samfélaginu, t.d. frumkvöðlanna sem grípa boltann, sækja fram og skora mörkin (þessi hugleiðing er skrifuð í kjölfar ársafmælis 2-1 sigursins á Englendingum og í aðdraganda EM). Það þýðir lítið að hanga í vörn með boltann og halda að það sé nóg að lýsa þannig leik til að vekja áhuga og auka skilning almennings, ekki frekar en að liggja í sókn án bolta. Það kemur vissulega fyrir að varnar (vísinda) menn gerist frumkvöðlar og skori mörk en flest mörkin eru skoruð af liðum (löndum) þar sem menn hafa góða stjórn á boltanum (hugverkavernd), eru með leikkerfi og menn og konur spila boltanum sem ein liðsheild frá vörn, yfir miðju og til sóknar. Þessi yfirfærsla þekkingarboltans úr vörn (vísindum) í sókn (atvinnulífið) krefst sérþekkingar í hugverkarétti, vísindum, viðskiptaþróun og markaðssetningu á miðju vallarins til að leikurinn gangi upp.

Vandamálið við stefnu V&T er að þar er verið að leggja áherslu á vörn (akademiu) og sókn (atvinnulíf), en ekki hvernig eigi að byggja upp sókn og koma boltanum úr vörn í sókn, sjálfa tækniyfirfærsluna. Það vantar miðjuna, leikkerfið og samfelluna. Án þeirra komumst við ekki á heimsmeistaramót þekkingarsamfélaga. Við þurfum að skapa liðsheildina og nýta allan völlinn. Þá fyrst fær Gummi Ben alvöruleik til að lýsa!

Höfundur er verkefnisstjóri nýsköpunar í Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri AUÐNU, undirbúningsfélags um landsskrifstofu í tækniyfirfærslu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.