*

mánudagur, 10. desember 2018
Eyþór Arnalds
30. september 2017 13:43

Kosningar kosta

Beinn kostnaður við kosningarnar er 350 milljónir en sú fjárhæð bliknar í samanburði við óbeina og óumflýjanlega afleidda tjónið sem atvinnulíf og almenningur verða fyrir.

Haraldur Guðjónsson

Enn og aftur er kosið til Alþingis. Enn og aftur eru áætlanir fyrirtækja og heimila sett upp í loft. Beinn kostnaður við kosningarnar er 350 milljónir króna en sú fjárhæð bliknar við hliðina á óbeina og óumflýjanlega afleidda tjóninu sem atvinnulíf og almenningur verða fyrir.

Strax sáust þess merki þegar hlutabréfaverð féll um tugi milljarða. Sumir gefa lítið fyrir slíkt, en markaðsvirði kemur beint við þá sem eiga bréfin og er líka vegvísir um raunhagkerfið. Lífeyrissjóðirnir töpuðu tugum milljarða í bókum sínum við verðfallið beint.

En það er annað tjón sem er enn meira. Óvissan slær kaldri hönd sinni á fyrirætlanir og fjárfestingar. Óvissa um stefnu stjórnvalda, skatta og gjöld. Óvissan ein og sér getur kælt raunhagkerfið þrátt fyrir að allir hagvísar séu með besta móti.

Í byrjun september gátum við státað af lágu atvinnuleysi, þróttmiklum hagvexti, miklum kaupmætti og engri verðbólgu ef húsnæðisverð er undanskilið. Vaxtalækkanir voru byrjaðar og íslensk heimili og fyrirtæki gátu með góðu móti vonast til að búa við stöðuleika í verðlagi og eðlilegum vöxtum. En þá sprakk allt með látum eins og menn þekkja. Ekkert gat hróflað við góðri stöðu okkar nema við sjálf. Og það virðist vera að takast.

Ítalía norðursins?

Ef við hofum til þeirra ríkja sem búa nær árlega við þingkosningar er nærtækt að líta til Ítalíu. Þar er þjóðarframleiðsla mun minni en hér og lægri en í þeim löndum sem við viljum miða okkur við. Þar hefur verið fjármagnsflótti, háir skattar og ríkisskuldir eru geigvænlegar. Ísland á fremur að vera í hópi með stöðugum ríkjum á borð við t.d. Singapore frekar en að taka upp ítalska stjórnarhætti.

Við þekkjum hvað óstjórn getur kostað. Við fengum að kynnast verðbólgunni á árum áður en hæst fór hún í 103% í ágúst 1983! Forsendubresturinn sem lá á að baki “leiðréttingunni” er hjóm miðað við þessar tölur. Margar fjölskyldur töpuðu öllu sínu á verðbólgubálinu. Á þeim tíma voru einmitt erfiðar stjórnarmyndunarviðræður, veikar ríkisstjórnir og styttri kjörtímabil.

Verðbólga er fylgifiskur óstöðugleika; bæði orsök og afleiðing. Hærri fjármagnskostnaður heimila, fyrirtækja og ríkisins er dýrasta afleiðing óstöðugs stjórnarfars. Allt of mikið af ráðstöfunartekjum heimila, fyrirtækja og ríkisins fer í þennan útgjaldalið. Það grátlega er að okkar fámenna þjóð var á góðri leið með að vinna sig á einstakan hátt út úr bankahruninu og kreppu.

Ábyrgð þeirra sem slíta samstarfinu

Ég er sannfærður um að þeir sem kasta ábyrgð sinni fyrir róða með því að slíta ríkisstjórnarsamstarfi ættu að hugsa sig tvisvar, þrisvar eða jafnvel fjórum sinnum um áður en þeir senda þingið heim og reikningin til heimilanna. Blessunarlega verða sveitarstjórnarmenn að standa sína vakt í fjögur ár og geta ekki kastað ábyrgðinni til kjósenda fyrirvaralaust.

Miklar breytingar á álögum setja áætlanir fyrirtækja í uppnám. Skattahækkanir skaða en óvissan um mögulegar skattahækkanir eru ekki síður skaðlegar. Hugmyndir um hækkun á virðisaukaskatti ein og sér hefur þegar haft neikvæðar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna. Sem betur fer var horfið frá henni í fjárlagafrumvarpinu en óvissan ein um skattinn skaðaði mikið.
Skilaboðin út í heim

Heildarkostnaðurinn við hringlandaháttinn er mikill til skamms tíma, en ekki síður mikill til lengri tíma litið. Erlendir bankar og fjárfestar voru einmitt að byrja að líta Ísland jákvæðum augum þegar við sendum þeim skýr skilaboð um að hér sé ekki á vísan að róa. Væntingar um vaxtalækkanir voru afskrifaðar á einum degi. Vonandi bera stjórnmálamenn gæfu til að axla þá ábyrgð sem þeim er treyst fyrir. Leysa ágreining sinn án þess að gera okkur marklaus og ótrúverðug í augum heimsins.

Höfundur er framkvæmdastjóri og fyrrverandi oddviti í Árborg.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.