Höfundar metsölubókarinnar Scaling Up: How a Few Companies Make It...and Why the Rest Don't (Rockefeller Habits 2.0), héreftir „Scaling Up“, nefna of litla áherslu á skilvirkt bókhald, í víðum skilningi, sem aðra af tveimur meginástæðum þess að fyrirtæki sem huga á vöxt ná ekki tilætluðum árangri (hin er markaðssetning).

Skýring þeirra er í stuttu máli sú að skilvirkt upplýsingaflæði til stjórnar og stjórnenda styðji við  ákvarðanatöku og skapi þannig samkeppnisforskot. Í þessu felst m.a. samantekt ítarlegra fjárhagsupplýsinga sem hægt er að sundurliða með ýmsum hætti, svo sem með því að skoða framlegð, hagnað og fjárstreymi niður á einstaka viðskiptavini, staðsetningar, vöruflokka, sölufulltrúa o.s.frv. Slíkar upplýsingar þurfi að sama skapi að vera aðgengilegar stjórnendum eins nálægt rauntíma og mögulegt er.

Betra bókhald gerir stjórnendum þannig kleift að sjá fyrir og bregðast við mögulegum vandamálum, stuðla að arðbærum vexti og skapa virði fyrir hluthafa sína. Að innleiða slíka verkferla getur hinsvegar verið kostnaðarsamt, en höfundar Scaling Up færa nokkuð sannfærandi rök fyrir því hvers vegna fjárfestingin getur borgað sig margfalt, byggt á þekkingu, rannsóknum og reynslu þeirra og annarra fræðimanna á þessu sviði.

Fyrsta skrefið

Það vakti athygli undirritaðs hversu vel umfjöllun þeirra um skilvirkt bókhald í þágu betri ákvarðanatöku helst í hendur við þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja á markaði. Fyrsta skrefið í því að undirbúa fyrirtæki undir skráningu felst í því að innleiða og viðhalda fullnægjandi verkferlum, eftirliti og kerfum, svo sem kerfum og ferlum fyrir reikningsskil, til að fyrirtækið geti veitt markaðnum tímanlegar, áreiðanlegar og nákvæmar upplýsingar og stjórnendur fái fullnægjandi upplýsingar til ákvarðanatöku. Miðað við ofangreint gæti slíkur undirbúningur komið sér afar vel, óháð því hvort farið sé á markað eða ekki.

Innleiðing slíkra verkferla ætti því að teljast sjálfsagður hluti af almennu ferli við að undirbúa fyrirtæki undir frekari vöxt, eða tryggja áframhaldandi velgengni þeirra, í stað þess að vera talið til  íþyngjandi skráningarskilyrða. Þessu til frekari stuðnings má nefna að margir stjórnendur skráðra fyrirtækja hafa haft orð á því að undirbúningsferlið sjálft og sá agi sem fylgir því að vera skráð félag hafi gagnast þeim á ýmsum sviðum.

Fyrirtæki á markaði þurfa að auki sífellt að leggja mat á og greina hvaða áhrif ákvarðanir, atburðir eða aðstæður eru líkleg til þess að hafa á virði viðkomandi fyrirtækis (þ.e. verð hlutabréfa þess), í því skyni að meta hvort mögulegar innherjaupplýsingar gætu verið til staðar. Er þetta af mörgum talið eitt erfiðasta verkefni skráðra fyrirtækja.

Kjarni málsins

Með svipuðum rökum og hér að framan mætti aftur á móti halda því fram að slík greining hljóti að haldast að stóru leyti í hendur við kröfur sem eðlilegt er að gera til stjórnenda fyrirtækja, óháð skráningu þeirra. Ef markmið stjórnenda er að skapa virði fyrir hluthafa sína hljóta þeir að þurfa að hafa skilning á og leggja stöðugt mat á möguleg áhrif ákvarðana sinna á virði fyrirtækjanna.

Að mati undirritaðs ættu stjórnendur því ekki að einblína á einfalda fjárhagslega mælikvarða, sem haldast ekki alltaf í hendur við raunverulega verðmætasköpun, heldur leggja að auki stöðugt mat á möguleg heildaráhrif aðgerða og atburða á langtímavirði viðkomandi fyrirtækis. Eða, með öðrum orðum, meta hvenær „innherjaupplýsingar“ gætu fræðilega myndast.

Kjarni málsins er sá að fyrirtæki sem leggja í þá vinnu að taka saman tíðar og ítarlegar rekstrar- og fjárhagsupplýsingar, greina þær og undirbyggja þannig skilvirkari ákvarðanatöku ættu að vera betur í stakk búin til þess að vaxa og dafna en ella. Fyrir einhver þeirra gæti skráning á markað mögulega talist rökrétt framhaldsskref. En því fylgir aftur á móti einnig ákveðið gagnsæi, sem hefur sína kosti og galla – og er líklega efni í aðra grein.

Höfundur er forstöðumaður eftirlitsviðs Nasdaq kauphallarinnar á Íslandi.