Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, var í viðtali í Viðskiptablaðinu fyrir viku síðan. Þar greindi hann frá ýmsu en rauðu þráðurinn í viðtalinu var rekstur og fjármál fyrirtækisins. Á síðustu árum hefur fjárhagsstaðan batnað til muna og skilaði Landsvirkjun til að mynda tæplega 11 milljarða króna hagnaði í fyrra, sem er mesti hagnaður fyrirtækisins í sex ár. Á sama tíma hafa skuldir Landsvirkjunar lækkað um 107 milljarða og það þrátt fyrir að fyrirtækið hafi fjárfest fyrir 90 milljarða á þessum tíma.

Hörður sagði í viðtalinu að nú færi að styttast í að Landsvirkjun gæti farið að greiða ríflegan arð. "Þegar við hættum að þjóna lánadrottnum og getum farið að þjóna eigandanum þá eru þetta fjárhæðir sem geta haft verulega jákvæð áhrif á samfélagið," sagði Hörður. "Þegar fram líða stundir tel ég að fyrirtækið geti hæglega greitt arð upp á 10 til 20 milljarða króna á ári. Ég tel að arðgreiðslurnar byrji að aukast eftir tvö til þrjú ár."

Þetta hljóta að teljast verulega góðar fréttir fyrir íslenskt samfélag. Ef Landsvirkjun skilar 15 milljarða króna arði í ríkiskassann á ári þá myndu arðgreiðslurnar svo gott sem borga upp nýjan Landspítala við Hringbraut á þremur árum. Samkvæmt skýrslu KPMG frá í fyrra þá nemur kostnaður við byggingu nýs spítala um 47,6 milljörðum króna.

Maður myndi halda að fólk fagnaði þessum fyrirætlunum Landsvirkjunar en það gera ekki allir. Í kommentum við fréttina, sem birtust á Fésbókarsíðu Vb.is mátti sjá að fólk er sumt hvert alls ekki sátt við milljarða arðgreiðslur.

„Hvað er í gangi í þessu landi, eitt arðránið enn?" skrifar einn lesandi. „Sukk og svínarí djöfulsins þjófnaður," skrifar annar. „HVER á þennan arð?? Fínir menn?" skrifar sá þriðji sem hittir í raun óaðvitandi naglann á höfuðið því þeir sem fá þennan arð eru einmitt fínt fólk. Ég og þú og allir landsmenn.

Skrif þessa fólks endurspegla auðvitað tíðarandann að vissu leyti. Að minnast á arðgreiðslur er eins og að minnast á glæp. Auðvitað skrifaði þetta ágæta fólk sínar færslur án þess að gera sér nokkra grein fyrir að Landsvirkjun er í eigu íslensku þjóðarinnar eða ég ætla allavega að vona það.

Best fannst mér þó þetta hér „Væri þá ekki nærri að lækka gjaldskrána fyrst það gengur svona helvíti vel?" Það er ágætt að minna á að 80% af raforku Landsvirkjunar er seld til stóriðju. Almennt hefur krafan verið sú að hækka verð til hennar en ekki lækka.