*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Leiðari
23. febrúar 2013 11:10

Kreppir að kröfuhöfum

Það er að myndast öflugri samstaða um að þvinga erlenda aðila til samninga um útgöngu fyrir afnám hafta.

Bjarni Benediktsson hefur að undanförnu talað opinskátt um að afskrifa þurfi hluta af kröfum erlendra krónueigenda.
Haraldur Guðjónsson

Það er að myndast öflugri samstaða um að þvinga erlenda aðila, sem eiga svokallaðar kvikar krónueignir á Íslandi, til samninga um útgöngu áður en aflétting fjármagnshafta hefst af einhverri alvöru.

Sífellt fleiri eru að komast á þá skoðun og á sama tíma versnar samningsstaða þeirra sem vilja skipta krónueignum yfir í gjaldeyri. Í tilviki svokallaðra vogunarsjóða, sem tóku hér stöðu eftir hrun, kostar tími peninga. Þeir eru því líklegri til að vilja ganga frá þessu fljótt, bæði með von um að fá að fara með gjaldeyri fyrr og eins til að sitja ekki eftir á meðan aðrir sleppa í gegn.

Fréttir þess eðlis að óformlegar viðræður lífeyrissjóða og fleiri aðila, sem eiga erlendan gjaldeyri utan hafta, við skilanefndir um kaup á Arion og Íslandsbanka sýna að málið er komið á skrið þótt ólíklegt sé að stórar fréttir berist fyrir kosningar. Tafir á nauðasamningum Glitnis og Kaupþings gerðu kröfuhafana áhyggjufulla um framhaldið. Ekki að ástæðulausu. Málin hafa ekki þróast á þann hátt sem þeir áttu von á og tímaramminn þrengist. Á meðan ná þeir sem geta haft áhrif á þessa atburðarás að stilla saman strengi sína og móta stefnu sem setur kröfuhafana í verri stöðu.

Þessi atburðarás hófst á síðasta ári og kom upp á yfirborðið þegar Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í nóvember að nauðsynlegar forsendur þyrftu að vera fyrir hendi til þess að Seðlabankinn gæti gefið samþykki sitt fyrir nauðasamningum gömlu bankanna. Í kjölfarið var nauðasamningum frestað. Þetta var síðasta vopnið sem Seðlabankinn hafði til að ná stjórn á atburðarás við uppgjör bankanna.

Um síðustu helgi var seðlabankastjóri gestur á Sprengisandi á Bylgjunni og sagði að uppgjör þrotabúanna og framtíðareignarhald skipti miklu máli fyrir afléttingu haftanna. Það var athyglisvert að Már talaði opinskátt um það að kröfuhafar gætu afhent bankana „á núlli“ gegn því að fara með erlendar eignir út. Líklega fengju þeir eitthvað greitt fyrir þá en þá með gjaldeyri utan hafta. Þetta yrði þá blönduð leið. Í þessum orðum felst að útlendingar fara ekki með gjaldeyri út nema á allt öðru gengi en skráð er í Seðlabanka Íslands.

Þá mátti heyra að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók harðari afstöðu gegn kröfuhöfunum en hann hefur hingað til gert opinberlega í viðtali við Morgunblaðið sem birtist á laugardaginn.

„Meginatriðið er að við ætlum ekki að láta erlenda kröfuhafa, sem komu flestir hér inn eftir hrunið til að stórgræða á ástandinu, halda okkur í heljargreipum hafta. Það kemur ekki til greina. Það þarf að afskrifa stóran hluta þessara eigna með einum eða öðrum hætti,“ sagði Bjarni í samtali við Morgunblaðið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur verið óhræddari að tjá sömu skoðun og Bjarni hefur nú greint frá. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, stígur varleg- ar til jarðar og virðist treysta á lausn smíðaða í Seðlabankanum. Það er helst að forystumenn Samfylkingarinnar séu smeykir að neyða kröfu- hafana um of af ótta við að orðspor Íslendinga á erlendum mörkuðum skaðist. Í því hagsmunamati sé horft til of skamms tíma. Þá er bent á að svipuð rök voru notuð til að fá fólk til að samþykkja Icesave.

Fram að kosningum munu stjórnmálamenn keppast við að tala fyrir íslenskum hagsmunum. Raðirnar gegn erlendum kröfuhöfum munu þéttast enn frekar. Samt er mikilvægt að leysa þetta mál með frjálsum samningum. Fyrir þá sem standa með íslenskum hagsmunum, sem felast í fjarlægum draumi um afnám fjármagnshafta, er betra að samningsstaða kröfuhafanna hefur versnað. 

Stikkorð: Leiðarar
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim