*

laugardagur, 20. október 2018
Huginn og muninn
7. janúar 2018 11:17

Ekkert að frétta í Valhöll

Framboðsfrestur í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórakosningar rennur út eftir þrjá daga.

Haraldur Guðjónsson

Leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verður haldið eftir rétt tæpar þrjár vikur eða 27. janúar. Frestur til að tilkynna um framboð rennur aftur á móti út á miðvikudaginn eða eftir þrjá daga. Sjálfstæðisflokkurinn í borginni hefur verið í tilvistarkreppu undanfarin ár. Frá miðri síðustu öld og til síðustu aldamóta var flokkurinn gjarnan með um 50% fylgi í borginni. Árið 1974 fór hann meira að segja í 58%. Síðan fór að halla undan fæti. Frá árinu 2006 og til ársins 2014 hefur fylgið lækkað úr 42% í 25,7%.  Árið 2014 leiddi Halldór Halldórsson flokkinn en var sóttur til Ísafjarðar, þar sem hann hafði gegn bæjarstjórarstöðu við nokkuð góðan orðstír. Halldóri hefur hins vegar algjörlega mistekist reisa flokkinn við í borginni. Hann hefur verið í stjórnarandstöðu og þrátt fyrir meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, VG og Pírata, hafi gefið fjölmörg tækifæri á sér hefur Sjálfstæðisflokkurinn svo gott sem verið ósýnilegur í ráðhúsinu.

Það er ansi merkilegt til þess að hugsa að núna, þremur dögum áður en frestur rennur út til þess að tilkynna um framboð í leiðtogakjörinu, skuli enginn vera búinn að stíga fram. Af nógu er að taka þegar kemur að stjórn Dags B. Eggertssonar og meirihlutans. Hrafnarnir nefna til dæmis lóðaskortsstefnuna sem borgaryfirvöld hafa rekið með þeim afleiðingum að unga fólkið flytur í nágrannasveitarfélögin og tuga prósenta skattahækkanir og þá sérstaklega hækkanir gjaldskrár OR. Talandi um OR þá má ekki gleyma Orkuveituhúss-skandalinum og öllu skítabixinu við Ægissíðuna. Eftir hrun sparaði Orkuveitan í viðhaldi, planið góða snérist að stórum hluta um það, og afleiðingarnar eru hægt og rólega að koma í ljós.

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi tilkynnti í gær að hún stefndi ekki á forystusætið. Kjartan Magnússon og Áslaug María Friðriksdóttir hafa ekki gefið neitt slíkt út en vandséð er samt að þau geti leyst þann vanda sem Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í og náð að auka fylgi hans. Hrafnarnir hafa heyrt nokkur nöfn. Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Flugfélags Íslands og núverandi framkvæmdastjóri hjá ISAVIA, mun vera að hugsa sinn gang og Unnur Brá Konráðsdóttir var einnig að pæla. Unnur Brá tilkynnti hins vegar í gær að hún hygðist ekki bjóða sig fram. Eyþór Arnalds, var víst búinn að gefa þetta alveg frá sér en komst í hátíðaskap um jólin og orðinn ansi heitur. Hvort einhver af þessum nær að rífa flokkinn upp úr þeirri ládeyðu sem hann hefur verið í skal ósagt látið.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.