*

miðvikudagur, 17. október 2018
Davíð Þorláksson
10. nóvember 2017 17:02

Króna fyrir krónu

Tekjutengingar eru ekki bara nauðsynlegar heldur líka réttlátar og mætti nota sem víðast þar sem opinberu fé er úthlutað. Þær mega hins vegar ekki draga úr hvata fyrir fólk til að afla sér tekna.

Haraldur Guðjónsson

Allir flokkarnir sem náðu kjöri til Alþingis í nýliðnum kosningum lofuðu að draga úr, eða jafnvel afnema tekjutengingar bóta. Kosninga­þátttaka er mjög misjöfn eftir aldri kjósenda. Þannig var kjörsókn 84,8% hjá 40 ára og eldri árið 2016, 74,2% hjá fólki á fertugsaldri og 67,7% hjá þeim sem voru yngri en 30 ára. Það þarf því engan að undra að málefni eldri borgara séu ofarlega í huga stjórnmálamanna í aðdraganda kosninga og því var það ellilífeyrir sem helst var ræddur í þessu sambandi.

Það er svo augljóst, að manni finnst að það þurfi varla að segja það, að hið opinbera hefur úr takmörkuðum fjármunum að spila. Þessi augljósu sannindi virðast samt oft gleymast, einkum í aðdraganda kosninga. Ellilífeyrir, barnabætur og örorkubætur eiga ekki að vera einhvers konar borgaralaun fyrir tiltekna þjóðfélagshópa. Þetta eru bætur fyrir fólk sem þarf á þeim að halda. Því meira sem hópurinn er útvíkkaður, sem fær fé úr þessum takmörkuðu sjóðum, því minna er hægt að hjálpa þeim sem þurfa sannarlega á hjálp að halda.

Þannig er til dæmis vandséð að einhver sem fær þingfararkaup að fjárhæð 1.101.194 þurfi jafnframt að fá örorkubætur, svo dæmi af handahófi sé tekið. Tekjutengingar eru því ekki bara nauðsynlegar heldur líka réttlátar og mætti nota sem víðast þar sem opinberu fé er úthlutað. Þær mega hins vegar ekki draga úr hvata fyrir fólk til að afla sér tekna. Þannig mega þær ekki vera þannig að fyrir hverja krónu sem viðkomandi aflar sér séu bætur skertar um eina krónu á móti.

Markmiðið hlýtur að vera að sem allra fæstir þurfi á bótum að halda og þær skili sér sannarlega til þeirra sem það þurfa. 

Höfundur er forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.