*

mánudagur, 28. maí 2018
Týr
9. janúar 2017 11:14

Krónan og þráhyggjan

„Það má öllum vera ljóst að hagsmunum Íslands er betur borgið utan ESB en innan þess, þar sem Íslendingar hefðu lítil sem engin áhrif.“

Stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu (ESB) eiga að mati Týs skilið nokkurt hrós. Ekki af því að Týr sé sé sammála þeim, heldur af því að þeim hefur tekist að sannfæra þjóðina um tvær goðsagnir sem tengjast ESB; annars vegar að það sé til eitthvað sem heitir aðildarviðræður og hins vegar að það gæti verið gott fyrir lítið land eins og Ísland að gerast aðili að ESB.

***

Sannleikurinn er sá að til að gerast aðili að ESB þarf þjóðþing landsins að lýsa yfir vilja til að ganga í sambandið (ekki bara að hefja „viðræður“). Þá tekur við ferli þar sem farið er yfir lög og reglugerðir landsins til að sjá hvort þau séu á pari við lög og reglur ESB. Ef ekki þarf umsóknarríkið að breyta sínum lögum. Á því eru ekki gerðar undantekningar.

***

Það má öllum vera ljóst að hagsmunum Íslands er betur borgið utan ESB en innan þess, þar sem Íslendingar hefðu lítil sem engin áhrif. Að sama skapi má öllum vera ljóst að helsta verkefni ESB þessa dagana er að sinna björgunaraðgerðum til að bjarga sjálfu sér, frá sjálfu sér. Það er í raun ótrúlegt að aðild Íslands að ESB sé enn til umræðu á vettvangi stjórnmálanna. Eftir því sem Týr kemst næst eru svokallaðar aðildarviðræður stór þáttur sem þarf víst að leysa til þess að mynda ríkisstjórn, svo furðulega sem það hljómar.

***

Fráfarandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðiisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, sem báðir hafa það á stefnuskrá sinni að standa utan ESB, geta að miklu leyti sjálfum sér um kennt. Í stjórnarsáttmálanum frá 2013 var lögð áhersla á það að íslenska krónan væri framtíðargjaldmiðill landsins og um leið lokuðu þeir fyrir hugmyndir um að skoða aðra möguleika í peningamálum. Framsóknarflokkurinn hafði þó nokkru fyrir kosningar haldið ráðstefnu um mögulega upptöku Kanadadollars og viðskipta- og efnahagsnefnd Sjálfstæðiflokksins hafði gefið út sérstaka skýrslu um mögulega upptöku nýs gjaldmiðils.

***

Flokkarnir voru með öðrum orðum opnir fyrir nýjum hugmyndum í gjaldmiðlamálum en forystumenn þeirra tóku meðvitaða ákvörðun um drepa þá umræðu. Rök þeirra voru að með réttri efnahagsstjórn væri krónan hinn rétti gjaldmiðill fyrir landið, og það má fullvel virða það við þá að efnahagsstjórn síðustu ára hefur að mörgu leyti verið góð. En að fenginni reynslu veit Týr að þannig verður það ekki alltaf. Þá tekur við ferli sem felur það í sér að handstýra gengi krónunnar með tilheyrandi kostnaði fyrir landsmenn.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 8. janúar 2017. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: ESB Krónan aðildarviðræður
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.