*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Þóra Þorgeirsdóttir
30. september 2018 14:21

Kulnun — er til töfralausn?

Vitundarvakning á alvarlegum afleiðingum langvarandi álags og streitu er löngu tímabær.

Aðsend mynd

Undanfarin misseri hefur umræða um kulnun í starfi orðið æ háværari í samfélaginu. Einstaklingur sem upplifir kulnun finnur til mikillar og langvarandi þreytu og pirrings, gleymsku, minnkandi starfslöngunar, áhugaleysis og svefnleysis. Kulnun er gjarnan talin afleiðing langvarandi streitu og álags í starfi. Nýleg herferð VR leggur áherslu á að kulnun stafi ekki einungis af starfstengdu álagi og streitu heldur séu kröfur í nútímasamfélagi almennt orðnar of miklar. Þannig sé kulnun afleiðing þess að einstaklingar eigi erfitt með að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru, í vinnu, einkalífi sem og almennt í samfélaginu.

Vitundarvakning á alvarlegum afleiðingum langvarandi álags og streitu er löngu tímabær. Vandinn er þó margþættur og ábyrgðin liggur víða. Að hluta til er ábyrgðin okkar sjálfra. Við sem einstaklingar þurfum að kunna að setja okkur mörk og axla ábyrgð á eigin vellíðan og heilsu með því að færast ekki of mikið í fang í lífi og starfi. Við þurfum að gefa okkur tíma til þess að slaka á og njóta.

Hlutverk vinnuveitenda

Ábyrgðin er þó líka vinnuveitanda sem þarf að átta sig á mikilvægi þess að huga að líkamlegri og andlegri vellíðan starfsmanna sinna. Einn þáttur í því er að gæta þess að vinnuálag sé hæfilegt. Þó hafa ýmsir aðrir þættir á vinnustaðnum einnig áhrif. Til dæmis skiptir miklu máli að starfsmaður viti til hvers er ætlast af honum. Ef starfsmaður veit nákvæmlega hvaða verkefnum hann á að sinna eru minni líkur á að hann upplifi streitu sem orsakast af óljósum fyrirmælum, starfslýsingu eða verkefnum. Einnig skiptir máli að starfsmaður upplifi að honum sé treyst, hann hafi stjórn á verkefnum sínum og hafi svigrúm til sjálfstæðra vinnubragða. Í stað þess að stjórnendur fylgist með hverju skrefi starfsmannsins þá upplifir starfsmaður sem hefur ákveðið sjálfræði í starfi að honum sé treyst til að sinna verkefnum sínum á þann hátt sem hann telur best og takast á við þær kröfur sem til hans eru gerðar.

Þó er enn ógetið þess sem oft er talinn stærsti streituvaldurinn á vinnustöðum en það eru samskipti. Ef samskipti milli starfsmanna eru góð og uppbyggileg, starfsandi er góður, starfsmenn hjálpast að og vinna saman eiga þeir auðveldara með að takast á við þær kröfur sem fylgja starfinu. Á sama hátt eru minni líkur á að starfsmenn upplifi streitu ef stjórnendur byggja upp góð samskipti og sambönd við starfsmenn sína, veita stuðning og endurgjöf og gæta að gagnsæi í vinnuferlum, upplýsingamiðlun og ákvarðanatöku til að koma í veg fyrir að starfsmenn upplifi ósanngirni, óréttlæti eða pirring.

Reglulegar mælingar

Heilt yfir er staðreyndin sú að margir aðstæðu- og einstaklingsbundnir þættir spila saman og hafa áhrif á það hvort starfsmaður upplifi streitu og hvort hætta sé á kulnun. Það sem meira er þá er engin ein töfralausn til að koma í veg fyrir kulnun. Það sem er álagsvaldur á einum stað er ekki nauðsynlega sá sami á þeim næsta enda eru vinnustaðir, störf og vinnuaðstæður mismunandi. Sömuleiðis eru einstaklingar ólíkir og sumir einstaklingar kunna að upplifa álag og streitu á meðan aðrir gera það ekki í sömu aðstæðum.

Það er lykilatriði að vinnuveitendur séu meðvitaðir um birtingarmyndir álags, streitu og kulnunar í starfsmannahópi sínum. Þeir þurfa að fylgjast vel með og nota til þess mælitæki sem gefa þeim tækifæri til að átta sig á álagi og streitu meðal starfsmanna sinna og þeim þáttum sem því valda. Reglulegar mælingar á álagi og streituvöldum gefa vinnuveitendum tækifæri til að grípa til ráðstafana til að auka vellíðan og koma í veg fyrir kulnun, m.a. með auknum stuðningi og sveigjanleika, breyttu vinnufyrirkomulagi eða breytingu á starfi. Þannig er hægt að fyrirbyggja vandann áður en það er um seinan.

Höfundur er viðskiptastjóri hjá Maskínu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim