*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Huginn og muninn
6. júlí 2018 10:21

Kveðjugjöf kjararáðs

Síðasta verk kjararáðs um að hækka laun forstöðumanna ríkisstofnanna vakti athygli hrafnanna.

Jónas Þór Guðmundsson, fráfarandi formaður kjararáðs.
Haraldur Guðjónsson

Kveðjugjöf kjararáðs, um að hækka laun forstöðumanna ríkisstofnana, er í meira lagi athyglisverð að mati hrafnanna. Ákvörðunin var tekin á fundi ráðsins 14. júni, þremur dögum eftir að Alþingi hafði samþykkt lög um að leggja kjararáð niður um síðustu mánaðamót. Velta má vöngum yfir umboði kjararáðs til launahækkana eftir að þingið var búið að samþykkja að leggja ráðið niður.

Á sama tíma og kjararáð hækkar laun ríkisforstjóra háir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, harðan slag við ljósmæður um þeirra kaup og kjör. Auk þess er búist við hörðum kjaravetri, þar sem ný verkalýðsforysta hyggst láta sverfa til stáls. Bjarni kann því Jónasi Þór Guðmundssyni, formanni kjararáðs, að líkindum litlar þakkir fyrir enn eina launahækkunina, enda eru fjölmargir starfsmenn hjá hinu opinbera orðnir þeir launahæstu, eða meðal þeirra launahæstu á sínu sviði á heimsvísu.

Ekki þarf að efast um að verkalýðsforystan muni nýta sér það til að rökstyðja að sínir félagsmenn eigi líka skilið umtalsverðar launahækkanir, sama hvað stöðu hagkerfisins eða umtalsverðum launahækkunum síðustu ára líður.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.