*

þriðjudagur, 26. mars 2019
Týr
1. nóvember 2018 17:40

Kvennafrí frá staðreyndum

Færsla dómsmálaráðherra um launamun kynjanna og viðbrögð aðstandenda Kvennafrís.

Sigriður Andersen dómsmálaráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Fjölmiðlar hljóta að hugsa sinn gang eftir Kvennafrí í síðustu viku. Vikurnar þar á undan kynntu talsmenn Kvennafrísins það sem staðreynd að konur væru í raun að vinna kauplaust eftir klukkan 14.55 á daginn því þær væru með 26% lægri laun en karlar. Enginn fyrirvari var á þessari kynningu. Konur vinna kauplaust eftir kl. 14.55 alla daga. Punktur.

                                                               ***

Enginn gerði heldur athugasemd við framsetninguna. Enginn fjölmiðill spurði hvað stæði á bak við þessa fullyrðingu um að konum væri mismunað svo gróflega og skýr ákvæði laga um jafna stöðu kynjanna þar með þverbrotin á hverjum degi á flestum vinnustöðum landsins.

                                                               ***

Svo fór fram útifundur á Arnarhóli þar sem hamrað var á þessum boðskap um leið og kvenkyns starfsmannastjóri Orkuveitunnar var úthrópaður.

                                                               ***

Að loknum vinnudegi birti dómsmálaráðherra (sem svo vill til að er kona) færslu á Facebook og benti á að Kvennafrí hefði ekki tekið tillit til vinnutíma, menntunar, reynslu, mannaforráða eða annarra þeirra þátta, sem jafnan væri litið til við samanburð á launum kynjanna. Þegar það væri gert í könnunum Hagstofunnar stæði eftir 4,5% óútskýrður munur körlum í vil, sem tæplega gæfi tilefni til svo digurra fullyrðinga um skipulegt, kynbundið misrétti. Hún benti jafnframt á að ungar konur hjá hinu opinbera mældust með hærri tekjur en ungir karlar.

                                                               ***

Við þessu brugðust aðstandendur Kvennafrís daginn eftir með yfirlýsingu. „Það er rétt hjá ráðherranum að við tökum ekki tillit til vinnutíma, menntunar, reynslu, mannaforráða og fleiri breyta. Við teljum enga ástæðu til að leiðrétta fyrir þessum þáttum enda teljum við þá ekki málefnaleg rök fyrir kynbundnum launamun.“

                                                               ***

Að mati hinna nafnlausu aðstandenda Kvennafrís er ekki málefnalegt að skoða hvort menn vinna hálfan daginn eða fullan vinnudag, yfirvinnu eða þá 4 eða 5 daga vikunnar. Ekki má heldur líta til menntunar, reynslu eða annarra þeirra þátta, sem allir aðrir — launþegar jafnt og vinnuveitendur — taka tillit til þegar fjallað er um kaup og kjör.

                                                               ***

Það var athyglisvert að Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, tók undir með Kvennafríi. En hvernig á þá að framkvæma jafnlaunavottun Þorsteins, sem gerir einmitt ráð fyrir að tekið sé tillit til allra þessara þátta?  

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.