Vinsælir frasar eru oft tóm vitleysa þótt þeir kunni að hljóma sem djúp og mikil speki. Þannig er það með hinn fræga „lægsta samnefnara“ sem sumum hefur orðið tíðrætt um í tengslum við nýja ríkisstjórn. Frasinn er notaður í því samhengi að stjórnin hljóti að verða verklítil og minniháttar vegna þess að hún sé mynduð um lægsta samnefnarann.

Þeir sem þannig tala þyrftu mögulega að rifja dálítið upp í stærðfræði. Staðreyndin er nefnilega sú að það er bókstaflega ekkert neikvætt við lægsta samnefnarann. Til hvers er hann notaður? Jú, til að skilja betur samhengið á milli ólíkra brota og gera mögulegt að leggja þau saman. Þetta er gert með því að setja brotin dálítið öðruvísi fram, en þess er gætt að breyta ekki gildi þeirra á nokkurn hátt. Þau hafa nákvæmlega sama gildi eftir sem áður. Eina breytingin er að ný framsetning gerir samlagningu þeirra mögulega.

Þetta er því hreint ekki fráleit lýsing á því sem samstarf ólíkra stjórnmálaflokka gengur út á þegar best tekst til. Að finna leiðir til að setja ólík brot fram á nýjan hátt þannig að þau falli vel saman, en allir haldi jafnframt gildi sínu.

Það mætti jafnvel ganga svo langt að segja að stjórnarsamstarf, sem lagt er upp með án þess að flokkarnir sem að því standa hafi fundið lægsta samnefnarann, sé dæmt til að mistakast.

Víðtækur stuðningur

Flokkarnir sem standa að nýrri ríkisstjórn eru sammála um mikilvægi þess að slá nýjan tón og freista þess í einlægni að breyta stjórnmálunum til hins betra. Stjórnin fær gott veganesti. Þar skiptir mestu að traust ríkir á milli þeirra sem að henni standa, en einnig má nefna góðan stjórnarsáttmála, víð­tækan stuðning meðal almennings samkvæmt könnunum, og ytri að­stæður sem eru hagfelldar um flest.

Verkefnin eru ærin og stór. Það er stundum sagt að byltingin éti börnin sín, en velmegun getur ábyggilega líka gert það. Þetta skyldum við hafa í huga, nú þegar við upplifum eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeið Íslandssögunnar. Stjórnmálamenn eru lagnir við að auka útgjöld en reynist erfiðara að skera niður og draga úr. „Sjálfhelda sérhagsmunanna“ er söm við sig; það er dýrkeypt að taka eitthvað af fámennum hópi í þágu fjöldans – og fjöldinn mun ekki heldur leggja neitt á sig til að styðja það, því að hver og einn á þar hlutfallslega lítið undir.

Ábyrg hagstjórn

Ábyrg hagstjórn verður ein af aðaláherslum nýrrar ríkisstjórnar. Við megum ekki glutra niður góðri stöðu með því að fara fram úr sjálfum okkur.

Á sama tíma getum við ekki litið fram hjá því að styrkja þarf mörg af okkar mikilvægustu kerfum, ekki síst samgöngu-, heilbrigðis- og menntakerfi og ýmsa „efnislega“ innviði. Við megum ekki sjá ofsjónum yfir þeim verkefnum þótt þau séu krefjandi. Það má segja að með hliðsjón af hægagangi í ýmissi nauðsynlegri uppbyggingu og viðhaldi á undanförnum árum verði sú spurning áleitin, hvernig í ósköpunum Íslendingum tókst á sínum tíma að koma sér eins hratt inn í nútímann og raun ber vitni. Hvernig þætti okkur til dæmis að standa frammi fyrir því verkefni í dag, að losa okkur við kolakynt húsnæði og leggja í staðinn hitaveitu í hvert hús? Það mætti segja mér að slíkt risaverkefni þætti allt að því óyfirstíganlegt í dag. Höfum hugfast að þjóð, sem var mun fátækari en Íslendingar eru í dag, leysti slíkt verkefni af hendi og raunar fleiri viðlíka stór.

Hinir „óefnislegu“ innvið­ir skipta ekki síður máli, það er að segja sjálft samfélagið. Okkur þyrstir öll í málefnalegri umræðu, aukinn vilja til sátta og samstarfs, meiri yfirvegun, meiri langtímahugsun og síðast en ekki síst meiri stöðugleika, þar sem stjórnmálin virka. Ég hef trú á því að flokkarnir þrír sem að stjórninni standa, eins ólíkir og þeir eru, muni í verkefnum sínum framundan halda áfram að finna samnefnarann sem er lykillinn að þessu markmiði.

Höfundur er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.