Fréttir af stórfelldum áformum um sjókvíaeldi á norskum erfðabreyttum laxi á Vestfjörðum og Austfjörðum, og ef fer fram sem horfir í Eyjafirði, benda til þess að landinn fljóti hægt en örugglega sofandi að feigðarósi.

„Skilningsgírinn“ sem meðvirkir landar mínir hrökkva í þegar kemur að „mikilvægum verkefnum fyrir hinar dreifðu byggðir landsins“  virðist vera orðinn einhvers konar norm. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það sé verið að afvegaleiða fólkið sem býr á þessum stöðum með loforðum um gull og græna skóga. Sagan er sett í rómantískan velmegunarbúning en sögulokin vel falin.

Ég segi „afvegaleiða“ af því að mér dettur ekki í hug að fólkið sem býr á þessum stöðum vilji sjá fjörðinn sinn fullan af drullu og skít og silungs- og laxveiðiárnar meira eða minna ónýtar.

„Afvegaleiða“ segi ég því að þegar kallarnir með peningana mæta á svæðið og bjóðast til að bjarga byggðarlaginu, „gleyma“ þeir að nefna sögu sjókvíaeldis við Íslandsstrendur. Hún er nefnilega ein allsherjar hrakfallasaga.

Talsmenn eldisins segja reyndar að í dag séu allt aðrir tímar, betri kvíar, hlýrri sjór, allt betra. Þeir leyfa sér einnig að tala um framleiðslu á gæðastöffi til manneldis og eru þeir einu sem leyfa sér að kalla þennan mat því nafni. Að líkindum treysta þeir því að almenningur nenni ekki að lesa sér til um afleiðingar þessa skítaiðnaðar á umhverfið þegar þeir halda því fram að allt sé í stakasta lagi hjá Norðmönnum sem oftast er vitnað til, allt sé undir kontról á þeim bæ. Ekkert er fjarstæðukenndara en sú fullyrðing, það vita Norðmenn best sjálfir, afleiðingarnar af áratuga sjókvíaeldi meðfram endilangri strönd Noregs liggja eins og mara á þeim.

Nú þegar þrengt hefur að stóru fiskeldisfyrirtækjunum í Noregi sækja þessir norsku eldiskallar út, til landa þar sem þeir telja sig geta fengið að athafna sig nokkuð fyrirstöðulaust. Dæmi um slíka útrás er Chile þar sem allt er í rjúkandi rúst eftir þessa vágesti.

Nú er það litla Ísland sem er efst á listanum, með öllum sínum fallegu fjörðum, lausgirtu regluverki og innlendum gróðapungum sem til eru í slaginn fyrir þokkalegan hlut af kökunni í eigin vasa. Að mínu mati algjörlega galin staða sem verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum. Við Vestfirðinga og Austfirðinga segi ég: Vaknið, áður en það er orðið um seinan.